Lestargangur Oft þarf að hafa hey með á hálendinu.
Lestargangur Oft þarf að hafa hey með á hálendinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég átti ekki langt eftir í aðra heima. Ef ég stykki af hestinum, næði ég mér aldrei uppréttum í straumnum og ætti mér litla von í þessum kulda. Ég losaði mig úr ístöðunum og lyfti hægra hnénu uppá hnakknefið til að hafa einhverja spyrnu

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Ég átti ekki langt eftir í aðra heima. Ef ég stykki af hestinum, næði ég mér aldrei uppréttum í straumnum og ætti mér litla von í þessum kulda. Ég losaði mig úr ístöðunum og lyfti hægra hnénu uppá hnakknefið til að hafa einhverja spyrnu. Svo tók ég mig upp af hnakknum, stóð á honum til hálfs, náði haldi á hraunnibbu hinum megin. Hesturinn var farinn frá mér og þarna hékk ég. Ég reigði höfuðið aftur fyrir mig og horfði niður í strauminn. Þar vildi ég ekki lenda. Smátt og smátt náði ég að flytja líkamsþungann uppá hraunið og skríða afturábak frá ánni.“

Svo lýsir Ólafur B. Schram ferð sinni yfir Jökulsá á Fjöllum í nýútkominni bók sinni, Tölt og brölt, sem hann dreifir sjálfur hvert sem verða vill. Þetta er önnur bók höfundar en 2019 gaf hann út Höpp og glöpp.

Lærði að vinna í Öræfasveit

„Frá unga aldri hef ég alltaf haft þessa þörf til að takast á við verkefni og afreka eitthvað. Á Litla-Hofi í Öræfum var komið fram við börn eins og jafningja og allir lögðu sitt af mörkum við vinnu á búinu. Á þessum tíma var ekki vegasamband við Öræfin og samgöngurnar voru með flugi til Fagurhólsmýrar,“ segir Ólafur við Morgunblaðið.

Á haustin var slátrað í Öræfum ef það var flugveður og vélin fyllt af kjötskrokkum.

„Það voru engin sæti fyrir farþega í þessum flugvélum. Ég var bara fluttur suður með kjötskrokkunum. Í þessum flugferðum var flogið yfir jökulinn og hálendið og það var þá sem þráin vaknaði fyrir því að komast á alla þessa staði.“

Spurður hvað reki hann áfram í þessar svaðilfarir segir hann:

„Það er keppnisskapið sem rekur mig áfram. Ég er fæddur KR-ingur og þó að sú regla sé nú orðin til að KR geti tapað, þá vil ég halda uppi gömlum standard og bakka ekki.“

Hvenær lentir þú í mestu lífshættunni?

„Það var í Jökulsá á Fjöllum.“

Ólafur segir skyggnið hafa verið slæmt og þegar hann lagði út í ána að vestanverðu sá hann ekki klettana á bakkanum austan við fljótið.

„Í fljótinu eru eyjur og ég nýtti þær til að hvíla hestana á milli álanna. Þegar ég kom að síðasta álnum þá sá ég að á hinum bakkanum var bara hraun og engin landganga. Það var engin leið til baka og ég lét vaða. Þegar ég kom að hrauninu var ég hræddastur um að drekkja hestinum. Þarna mátti engan tíma missa en ég komst upp í hraunið og hestarnir skiluðu sér allir á land,“ segir Ólafur en vatnsmagnið í Jökulsánni var gríðarlegt.

Höf.: Óskar Bergsson