Jón Bragi Magnússon fæddist í Reykjavík 7. september 2000. Hann lést í Svíþjóð 4. september 2024.
Foreldrar hans eru Magnús Björn Ásgrímsson, f. 6. september 1963, og Líneik Anna Sævarsdóttir, f. 3. nóvember 1964, búsett á Fáskrúðsfirði. Systkini hans eru: Ásta Hlín, f. 8. apríl 1989, maki Birkir Björnsson. Synir þeirra eru Björn Bragi og Björgvin Ingi, þau eru búsett í Kópavogi; Inga Sæbjörg, f. 25. júní 1991, maki Þorvaldur Björgvin Ragnarsson. Þeirra börn eru Ásdís Eik og Magnús Berg, þau eru búsett á Egilsstöðum; Ásgeir Páll, f. 7. september 2000, maki Signý Eir, þau eru búsett í Kópavogi.
Foreldrar Magnúsar eru Ásgrímur Ingi Jónsson, f. 10. október 1932, d. 3. desember 1973, og Ásta Magnúsdóttir, f. 8. október 1941. Foreldrar Líneikur eru Sævar Sigbjarnarson, f. 27. febrúar 1932, d. 10. ágúst 2019, og Ása Hafliðadóttir, f. 28. september 1941, d. 8. nóvember 1998.
Bræður Magnúsar eru: Jón Bragi, f. 9. ágúst 1962, d. 26. október 1987; Kári Borgar, f. 12. september 1964, maki Helga Björg Eiríksdóttir. Börn þeirra Óttar Már, Steinunn og Reynir Örn, f. 28. mars 1993, d. 12. júní 1997; Helgi Hlynur, f. 1. október 1969. Dætur hans eru Hrefna Rós og Karólína Rún.
Systkini Líneikur eru: Hafliði, maki Guðný Gréta Eyþórsdóttir. Synir þeirra eru Bjartmar Þorri, Jóhann Atli og Bergsveinn Ás; Helga, maki Ásgeir Sveinsson. Börn þeirra eru Elvar, Ása María og Hilmar; Sigbjörn, maki Þórunn Ósk Benediktsdóttir. Börn þeirra eru Jónatan Sævar, Ása Guðný, Almar Freyr og Brynjar Snorri; Sindri Baldur, maki Diana Carolina Ruiz, dóttir þeirra er Jórunn Erla.
Jón Bragi ólst upp á Fáskrúðsfirði og gekk í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum 2019. Eftir árshlé frá námi, sem var nýtt til að skoða heiminn og vinna, lá leiðin í verkfræði við Háskóla Íslands þar sem hann lauk BS-prófi 2023.
Þegar hann lést var hann að hefja sitt annað ár í meistaranámi í byggingarverkfræði við KTH í Stokkhólmi.
Frá unga aldri lagði hann sitt af mörkum í verkefnum fjölskyldunnar, meðal annars í kringum knattspyrnudeild Leiknis. Hann tók virkan þátt í félagslífi í menntaskóla og naut sín í félagsstarfi umhverfis- og byggingarverkfræðinema þar sem hann sat í stjórn nemendafélagsins Naglanna.
Hann æfði fótbolta frá sex ára aldri með Leikni Fáskrúðsfirði og keppti þá með sameiginlegum yngri flokkum Fjarðabyggðar og Austurlands. Hann stofnaði liðið Rauðrófurnar ásamt bróður sínum, frændum og vinum og tók það þátt í sjö unglingalandsmótum. Hann spilaði með Leikni Fáskrúðsfirði, Boltafélagi Norðfjarðar, Spyrni og úti í Svíþjóð með Íslendingaliðinu Tungur Knívur og FC SAM, liði verkfræðinema sem leikur í deildarkeppni.
Hann stundaði markvissa líkamsrækt og útivist og tók þátt í ófáum smalamennskum.
Með skóla og á sumrin starfaði hann hjá Fjarðabyggð og Loðnuvinnslunni og síðustu þrjú sumur starfaði hann hjá verkfræðistofunni COWI.
Útför hans fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 20. september 2024, klukkan 14. Streymi:
https://mbl.is/go/jm4iu
Í dimmum skugga af löngu liðnum vetri
mitt ljóð til þín var árum saman grafið.
Svo ungur varstu, er hvarfstu út á
hafið
hugljúfur, glæstur, öllum drengjum
betri.
Og því varð allt svo hljótt við helfregn þína
sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.
Og enn ég veit margt hjarta, harmi lostið,
sem hugsar til þín alla daga sína.
En meðan árin þreyta hjörtu hinna,
sem horfðu eftir þér í sárum trega,
þá blómgast enn, og blómgast ævinlega,
þitt bjarta vor í hugum vina þinna.
Og skín ei ljúfast ævi þeirri yfir,
sem ung á morgni lífsins staðar nemur,
og eilíflega, óháð því, sem kemur,
í æsku sinnar tignu fegurð lifir?
Sem sjálfur Drottinn mildum lófum
lyki
um lífsins perlu í gullnu augnabliki –
(Tómas Guðmundsson)
Elsku hjartans Jón Bragi.
Tárin renna vegna alls þess sem ekki verður en um leið fyllist hjartað af hlýju og kærleika þegar tárin hafa myndað hafsjó af minningum um líf þitt, bros þitt og hlátur, þína hlýju hönd og björtu augu.
Hver minning er dýrmæt perla sem er ljós í lífi okkar.
Pabbi og mamma.
Elsku bróðir minn, hvar á ég að byrja? Hvernig er hægt að skrifa minningarorð um elsku Jón Braga litla bróður minn. Það er svo erfitt að trúa þessu.
Svo hæfileikaríkur, klár, duglegur, fyndinn, skemmtilegur, fallegur og umhyggjusamur. Líka tapsár og skapstór. Góður við litlu frændsystkini þín sem dýrka þig og dá. Prakkaraglottið þitt og hláturinn þinn. Ég ætla aldrei að gleyma.
Ég vil ekki tala um þig í þátíð. Það er svo ótrúlega sárt að við eigum ekki eftir að eiga með þér fleiri gæðastundir, hlaupa, spila, labba upp í fjall, grínast, hlæja, borða, leika.
Jón. Hvað eigum við að spila í kvöld? Viltu hjálpa Ásdísi að lesa, hafa hana á öxlunum, labba með henni og Magnúsi og halda í höndina þeirra. Eins og ég hélt í þína. Svæfa þau, kúra yfir teiknimynd. Eins og við kúrðum í mínu bóli. Leika með kubbana eins og við gerðum þegar þið voruð litlir. Þið tveir. Strákarnir. Bræðurnir. Litlu mínir.
Þegar ég var átta, níu ára
var það eina sem ég óskaði mér lítið systkini. Ég fékk ekki bara einn, heldur tvo bræður í einu. En sú lukka. Ég passaði ykkur og þegar þið stækkuðuð fékk
ég ykkur til að kúra með mér yfir Friends, svo ég þyrfti ekki að sofa ein. Þið kölluðuð mig Ingu mömmu og mér hefur alltaf þótt svo ógurlega vænt um lillana mína. Þið voruð held ég mikið duglegri og þægari en við systurnar, svo sætir með brúnu augun og ljósa hárið, tveir í fótbolta, tveir að prakkarast. Ég hef alltaf verið svo stolt af því að vera stóra systir ykkar.
Þú ætlaðir að verða dýrafræðingur þegar þú varst lítill, því þér fannst svo gaman að læra um alls konar dýr. Svo kom áhuginn á tæknilegói og um leið og þú vissir hvað verkfræði var stefndir þú þangað. Klári og duglegi bróðir minn. Þegar þú handleggsbrotnaðir tvisvar á stuttum tíma nýttir þú tímann í að lesa og last þig í gegnum allar Harry Potter-bækurnar. Allt það sem þú hefðir getað gert, elsku hæfileikaríki Jón. Við hlökkuðum svo til að sjá framtíðina þína.
Við elskum þig. Við söknum þín. Alltaf.
Þín stóra systir,
Inga.
Elsku kallinn minn.
Litli kallinn minn.
Ólæsi apakötturinn minn.
Fyndni, skemmtilegi bróðir minn.
Duglegi, klári bróðir minn.
Ég elska þig.
Allt sem þú varst,
allt sem þú hefðir orðið.
Heimurinn verður aldrei aftur réttur. Samt kemur aftur og aftur morgunn, kemur matur, við tölum um veðrið og horfum á fótbolta. Tíminn heldur áfram að líða en ekkert verður rétt. Af því að bróðir minn er farinn.
Fyrst hélt ég að strákar væru verri en stelpur. En svo komu bræður mínir. Bestu manneskjur í heimi. Fallegu, góðu, litlu bræður mínir. Knúsikallarnir mínir. Tuskudýrin mín. Hlýir litlir snúðar til að stela í sitt ból að kúra. Leika, knúsast, hnoðast, slást.
Og allir voru heillaðir af litlu bræðrum mínum. Brúnu augun og björtu kollarnir, brasið og bröltið. Upp á skápa og ofan í skúffur. Jón velti sér yfir á magann á undan, ég var að passa þá, það var á gamlársdag. Haustið á eftir velti hann yfir sig túbusjónvarpi og var með tvöfalda efri vör þegar við fórum í smalaferð á Borgarfjörð.
Ég átti tvö leynivopn til að svæfa þá. Þau virka ekki á syni mína. Ég klappaði laust á bringuna, eins og klukkutif á meðan augnlokin sigu. Hvítu náttfötin með gula, bláa og græna. Seinna var hægt að láta þá fara í keppni hvor væri fyrri til að sofna. Mamma skammaði mig oft fyrir að æsa þá upp í hasar rétt fyrir svefninn. Ég gat ekki af því gert hvað var gaman að stríða þeim. Pota í bumbur, elta og kitla.
Húmoristinn minn. Apakötturinn minn, löngu orðinn læs og svo vel læs á svo margt. Glottið þitt. Stundum segir einhver eitthvað skrítið og þá vil ég skiptast á glotti við Jón.
Og þvílíkir fyrirmyndarmenn. Duglegir og metnaðarfullir námsmenn og íþróttamenn. Jón var okkar besti maður að mörgu leyti, skipulagðastur og agaðastur, snyrtilegastur, besta meðaleinkunnin, það skal ekki gleymast. Reyndar okkar tapsárastur líka. Ásgeir segir að þú hafir unnið síðasta Catanið. Það er gott.
Ég vil bara fá þig í mat. Leggstu í sófann hjá mér, horfum á fótbolta, spilum, leikum við strákana, verum bara. Ég vil það. Ég vil bara brósann minn.
Sagði ég einhvern tímann takk? Takk fyrir að fara með strákana út í fótbolta, takk fyrir að baka, takk fyrir hjálpina með íbúðina, takk fyrir flutningana, takk fyrir brosið þitt, takk fyrir grínið, takk fyrir að vera.
Ég skal knúsa Ásgeir, ég skal reyna að fylgjast betur með og leggja metnað í fantasy. Powera í gegnum Game of Thrones og geta haft einhver take til að ræða við hann. Vera svekkt út í hann í spilum. Ég get ekki skammað hann fyrir að sofa yfir sig og þannig, fæ Ingu í þann pakka.
Ég ætla að passa mömmu og pabba eins vel og ég get. Knúsa þau og knúsa.
Ég ætla að tala mikið um þig við litlu frændur þína. Kenna þeim eins vel og ég get að vera jafn miklir fyrirmyndarmenn og þú. Passa þá vel.
Ég mun aldrei hætta að sakna þín. Heimurinn verður aldrei eins og hann á að vera, en við reynum.
Elsku bróðir minn.
Þín alltaf, alltaf, alltaf –
Ásta.
Í dag kveðjum við elsku vininn okkar kæra, Jón Braga.
Ungur, glæsilegur og hæfileikaríkur maður í blóma lífsins hefur kvatt þetta jarðlíf. Engin ný spor verða mörkuð og framtíðardraumar hans munu aldrei ná að rætast. Sorg fjölskyldu og vina er óbærileg og söknuðurinn nístandi sár.
Ljúfar minningar um einstakan dreng streyma fram í hugann og við erum óendanlega þakklát fyrir þær samverustundir sem við áttum með Jóni Braga. Veruleikinn verður annar og fátæklegri án hans, en hann mun lifa áfram í huga okkar og hjarta.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Blessuð sé ævinlega minning þín, elsku vinur.
Svanhvít og Stefán.
Það er með djúpum söknuði sem Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands kveður Jón Braga Magnússon. Jón Bragi brautskráðist frá deildinni með BS-próf í umhverfis- og byggingarverkfræði og var erlendis í meistaranámi í verkfræði. Jón Bragi var sannkallaður afburðastúdent í deildinni. Hann leysti öll verkefni vel af hendi og lét ávallt gott af sér leiða. Við kennarar hans minnumst einlægrar og skemmtilegrar nærveru hans í kennslustundum og í starfinu í skólanum. Jón Bragi hafði framúrskarandi hæfni í verkfræði, hann var hæverskur og ljúfur í allri framkomu og samvinnu við kennara sína og bekkjarsystkini. Jón Bragi og bróðir hans Ásgeir Páll mynduðu sterkan kjarna í góðum hópverkefnum. Það er mikill missir að Jón Bragi hafi kvatt þennan heim svo snemma.
Við í deildinni sendum Ásgeiri Páli, systkinum, foreldrum, allri fjölskyldu og ættingjum Jóns Braga ásamt vinum hans og bekkjarsystkinum innilegar samúðarkveðjur. Ég bið þeim öllum Guðs blessunar.
Kveðja frá Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands,
Guðmundur Freyr Úlfarsson.