Það er ástæða fyrir því að farartæki hafa framrúðu, afturrúðu og baksýnisspegil. Það er ætlast til þess að þeir sem sitja við stýrið hverju sinni nýti útsýnið bæði fram og aftur við aksturinn. Annars er hætt við að illa fari.
Þetta eru auðvitað engin geimvísindi. Það eru heldur engin ný sannindi að þessi ágætu vinnubrögð megi heimfæra á alls konar stjórnun. Til dæmis stjórn á þjóðarskútunni. Að þar fari vel á því að horfa til framtíðar en temja sér jafnframt að læra af reynslunni.
Í þessu tilliti hefur verið stórmerkilegt að fylgjast með vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Þar sem gert er grín að þeim sem vilja horfa til framtíðar á sama tíma og þeir eru skammaðir sem vilja horfa í baksýnisspegilinn. Ákall um að fólk læri af reynslunni og komi þannig í veg fyrir endurtekin hagstjórnarmistök heitir í slangurorðabók ríkisstjórnarinnar að vera í ásakanaleik.
Gott og vel. Ímyndum okkur að það sé í alvöru móða á framrúðunni og baksýnisspegillinn brotinn rétt eins og ríkisstjórnin virðist upplifa lífið og tilveruna. Það mætti þá halda að áhersla yrði lögð á að létta heimilum landsins róðurinn í núinu.
Eitt þeirra úrræða sem launafólk landsins hefur þurft að nýta sér í sturluðu vaxtaumhverfi er skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á höfuðstól húsnæðislána. Fjöldi heimila hefur þannig náð að halda í horfinu með afborganir en nú segja stjórnvöld hingað og ekki lengra, þetta hjálpartæki verði ekki í boði á næsta ári. Aðspurður segir fjármálaráðherra að það sé sterkefnað séreignafólk sem hafi með þessu fengið mestan stuðning frá ríkinu og að það sé ekki gáfulegt að halda áfram að styðja þann hóp.
Rýnum aðeins í tölurnar. Einstaklingum er nú heimilt að verja árlega allt að 500 þúsund krónum af séreignarsparnaði sínum til niðurgreiðslu húsnæðislána. Sambærileg upphæð fyrir hjón og sambúðarfólk er 750 þúsund krónur.
Þetta þýðir að einstaklingar með meira en 695 þúsund í laun á mánuði nýta þessa heimild í botn og rekast í þakið. Í tilfelli hjóna og sambúðarfólks er þessu sama þaki náð við tekjur upp á rúma milljón á mánuði. Þessar upphæðir eru töluvert undir meðallaunum.
Það er ljóst að þessi heimild hefur nýst fjölda heimila vel við gríðarlega erfiðar aðstæður. Ef eitthvað er ætti ríkisstjórnin að sjá ástæðu til að hækka mörkin frekar en að slá úrræðið út af borðinu. Til þess þarf hún að taka mið af raunverulegum aðstæðum venjulegs fólks. Er ekki hægt að sammælast um það?
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. hannakatrin@althingi.is