Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og innviðaráðherra staðfestu í gær samninga fjarskiptasjóðs við 25 sveitarfélög um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026. Lengi hefur ríkt óvissa um hvort, og þá hvenær, mörg þúsund lögheimili í þéttbýli um land allt munu eiga kost á háhraðanetsambandi, sem er mikilvægt öryggismál og undirstaða nútímabúsetugæða. Með þessum samningum er sú óvissa ekki lengur fyrir hendi, segir í tilkynningu ráðuneytanna.
Skuldbinding ríkisins er um 340 milljónir króna gangi öll uppbyggingin eftir.
Fjarskiptastofa kannaði í vor áform fjarskiptafyrirtækja og opinberra aðila um uppbyggingu á ljósleiðara í öllu þéttbýli árin 2024 til 2026. Könnunin leiddi í ljós að slík áform náðu ekki til 4.438 heimilisfanga í 48 sveitarfélögum. Fjarskiptasjóður gerði sveitarfélögunum því tilboð um 80 þúsund kr. styrk til að kosta jarðvinnu við að tengja hvert slíkt heimilisfang fyrir árslok 2026. Samþykkt tilboð ná til 4.251 heimilisfangs sem jafngildir um 96% þátttöku.
Sveitarfélögin 25 sem samkomulagið nær til eru Akureyrarbær, Bláskógabyggð, Bolungarvíkurkaupstaður, Borgarbyggð, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Fjarðabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Grundarfjarðarbær, Húnabyggð, Húnaþing vestra, Ísafjarðarbær, Langanesbyggð, Mosfellsbær, Múlaþing, Norðurþing, Reykhólahreppur, Snæfellsbær, Strandabyggð, Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Sveitarfélagið Skagafjörður, Sveitarfélagið Stykkishólmur og Vesturbyggð.