Listakonan Guðmunda Kristinsdóttir opnar sýningu í Skotinu í dag, föstudaginn 20. september, kl. 15-18. Skotið er nýtt sýningarrými í Artgallery101, Laugavegi 44.
„Í málverkum Guðmundu er sterk tenging við óbeislaða náttúru, þau náttúruöfl sem okkur Íslendingum eru svo hugleikin, þar sem frumkraftar takast á,“ segir í tilkynningu frá galleríinu. „Umbrot og óstöðugleiki, djörf litabeiting í bland við ábúðarmikla áferð skapa málverk sem kalla fram í hugann hraun, eldgos, jökla, grimmt hafið eða þrumandi himin. En einnig mætir okkur hið smágerða í náttúrunni í myndum Guðmundu.“