Hrjóstrug fjöll, grónar breiður, hvítur skeljasandur og selur á útskerjum. Þetta og fleira er í pakkanum við sölu á jörðinni Ásgarði í Hvallátrum við Látravík. Þetta er nærri ystu nesjum fyrir vestan á leiðinni út að Látrabjargi, sem er það annes Íslands sem gengur lengst í vestur. Jörðin kom í sölu nýlega hjá Fasteignamiðstöðinni og hafa margar fyrirspurnir borist þótt enn sé ekkert sem er fast í hendi, segir Magnús Leópoldsson lögg. fasteignasali.
Hvallátur eru torfa nokkurra bæja og húsa og þarna var forðum daga nokkuð blómleg byggð. Jarðir þarna, Ásgarður þar með talinn, eru að stórum hluta óskipt sameign og landið liggur að stórum hluta að sjó. Nærri fjörum er svo að finna ýmsar minjar um útræði. „Þetta er svolítið gamla Ísland og í slíku geta falist bæði töfrar og ýmsir möguleikar til að gera skemmtilega hluti. Já, þetta er afar landmikil jörð en stærðin er óljós,“ segir Magnús.
Ýmsar menningarminjar eru á Hvallátrum og á leið út að Látrabjargi fara margir þarna um bæjarhlaðið á annars afskekktum stað. Þarna eru ýmsar byggingar svo sem íbúðarhúsið að Ásgarði, 80 fermetra bygging reist fyrir 80 árum. Þarna eru einnig fjárhús, vélageymsla og hænsakofi; allt byggingar sem lýsa má sem börnum síns tíma sem aftur kallar á úrbætur.
„Þarna var stundaður búskapur fram á síðari ár en slíkt verður tæpast endurvakið. En þarna má margt annað gera; líf á afskekktum slóðum í hraða samfélags nútímans freistar margra,“ segir Magnús Leopoldsson um Ásgarð; jörð sem nú er óskað eftir tilboðum í. sbs@mbl.is