Halldór Kristinsson fæddist á Siglufirði 29. september 1948. Hann lést 10. september 2024.

Móðir hans var Ingibjörg Strömberg Karlsdóttir kennari, f. 1. maí 1920 á Ljósavatni, d. 27. apríl 2009, og faðir hans var Kristinn Þorsteinn Halldórsson kaupmaður, f. 7. desember 1915 á Siglufirði, d. 16. desember 1966. Systir Halldórs er Guðný Dóra, f. 3. mars 1945.

Halldór, skírður Kristinn Halldór, var kvæntur Katrínu Ingimarsdóttur, f. 14. apríl 1954, d. 7. ágúst 2011, og börn þeirra eru: Ingibjörg Katrín, f. 2. desember 1981, maki Jón Ingi Jónsson, f. 18. október 1972, barn þeirra er Kristinn Viljar, f. 13. maí 2021, börn Jóns Inga eru Rúnar Ingi, Vilborg, Almar Orri og Arnór Darri; Vigdís Ester, f. 12. september 1986, maki Sigþór Ingi Sigþórsson, f. 16. júlí 1981, börn þeirra eru Katrín Lea, f. 6. nóvember 2015, Árelía Ísold, f. 21. ágúst 2018, og Alexander Dagur, f. 21. ágúst 2018; Kristinn Ingi, f. 8. apríl 1989, maki Hanna Soffía Þormar, f. 18. nóvember 1989, börn þeirra eru Vetur Ingi, f. 7. febrúar 2022, og Katrín Valentína, f. 17. ágúst 2023. Halldór og Katrín slitu samvistum árið 2004.

Halldór og Valdís Þórunn Eggertsdóttir, f. 21. júlí 1948, d. 10. apríl 2015, eignuðust Sævar Má, f. 14. febrúar 1969, maki Fiorella Iannuzzelli, f. 1. september 1974.

Halldór var í sambúð með Ingu Jónsdóttur, þau slitu samvistum.

Halldór ólst upp á Siglufirði þar sem fjölskylda hans rak fyrirtæki tengd síldarvinnslu og kjörbúðir. Halldór fluttist síðar til Reykjavíkur þar sem hann gekk í Verzlunarskóla Íslands. Halldór og Katrín hófu sambúð í Kópavogi en fluttu í Mosfellsbæ þar sem þau byggðu hús í Hjarðarlandi og ólu upp börnin sín þrjú. Hann starfaði fyrir Landsbankann í yfir fjóra áratugi, fyrst í höfuðstöðvum og síðar í Vesturbæjarútibúi. Halldór var virkur í félagsstarfi tengdu Landsbankanum, fótbolta, golfi og Lionsklúbbi Mosfellsbæjar.

Útför hans fer fram frá Lágafellskirkju í dag, 20. september 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi.

Nú er sólin sest á þínum lífsins degi.

Þó sorgin sitji eftir langar mig að segja

að þakklát er ég fyrir tímann

sem áttum við saman.

Þó sammála ekki alltaf værum

komstu mér í þennan heim,

kenndir mér hvað skiptir máli,

fjölskyldan og heiðarleiki.

Þú horfðir á alla leiki,

komst á öll mót.

Hvattir okkur áfram,

horfðir á eftir okkur út í heim.

En ávallt sagðir þú:

það er gaman að ferðast,

en best er að koma aftur heim.

Nú ertu kominn heim til Siglufjarðar.

Amma tekur á móti Dóra sínum

og afi sem við kynntumst aldrei.

Frændgarðurinn að norðan,

fjöllin og hafið.

Blíður varstu og nærveran góð,

afabörnin sakna þín.

Nú er komið að leiðarlokum,

elsku pabbi minn.

Þín dóttir,

Ester

Upphafið og endalokin. Elsku pabbi er fallinn frá allt of snemma.

Nú eru þau öll farin í sumarlandið sem ólu okkur upp; foreldrar, ömmur og afi. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og ekkert fullkomið en við systkinin fengum þá allra bestu umönnun, kærleik og ást sem hægt er að fá; veganestið sem öllu máli skiptir í lífinu.

Pabbi var maður sem öllum líkaði vel við. Það var umtalað hvað hann var traustur, mikill prinsippmaður, vanafastur en hélt sér líka mikið til hlés. Svo miklar andstæður þar sem hann sótti í hin ýmsu félagasamtök og félagsstarf í vinnunni en var hljóður og fámáll almennt.

Við brölluðum svo margt saman þegar við vorum bara þrjú fyrstu fimm ár ævi minnar og þegar mamma var með litlu systkini mín sem ungbörn. Þá fórum við pabbi í allskonar útivistarferðir með félagasamtökum og Landsbankanum, skoðuðum náttúruna og tíndum rusl, að ógleymdum öllum íþróttaæfingunum og íþróttaferðunum þar sem pabbi æfði og keppti í fótbolta.

Okkur systkinunum var skellt á skíði um leið og við lærðum að ganga. Skálafell var nánast í bakgarðinum heima í Mosfellsbænum og þar áttum við ógleymanlegar stundir saman við fimm. Pabbi var ekkert að kaupa ný skíði á sjálfan sig, það átti sko að nýta það sem til var á heimilinu sem endaði með óborganlegum salíbunum niður Skálafellið þar sem skíðin losnuðu af og fundust í skálanum og á meðal fólks í nestispásu fyrir neðan fjallið.

Myndaalbúmin úr æskunni eru yfirfull af myndum úr útilegum hringinn um landið, þar sem vegir voru keyrðir þangað til þeir enduðu, A-tjaldinu tjaldað eða gist hjá bændum ef veðrið var alveg snarbrjálað. Selvíkin í Þrastaskógi var nýtt árið um kring og minningarnar þaðan dýrmætar.

Hjarðarlandið okkar fallega sem pabbi og mamma byggðu og nostruðu við alla tíð varð að leikvelli okkar krakkanna í hverfinu. Pabbi var stundum með í fótbolta og var ekkert alltaf til í að „leyfa“ okkur að vinna. Hann var jú keppnismaður mikill og það þýddi ekkert væl!

Í seinni tíð fórum við pabbi stundum í golf á æfingavöllinn á Korpúlfsstöðum, pabbi með sinn gamla golfpoka og kerru þó hann hefði fengið splunkunýtt í gjöf. Það var nefnilega algjör óþarfi að nota það nýja því það gamla virkaði ennþá.

Þegar ég hugsa til baka þá eru mínar bestu minningar þegar við pabbi vorum að gera eitthvað saman; því ekki talaði hann mikið eða tjáði sig um tilfinningar eða fortíðina. Hans leið að tengjast börnunum sínum og fólki almennt var að gera eitthvað uppbyggilegt saman úti við. Ég var oft pirruð út í pabba að geta ekki tjáð sig meira og leyst vandamálin með því að tala út um hlutina. En þegar pabbi sagðist elska okkur systkinin og opnaði sig þá kom það svo sannarlega frá hjartanu.

Ég er því þakklát fyrir að hafa tekið pabba með á EM í Frakklandi sumarið 2016. Þá sameinuðumst við aftur í því sem okkur fannst gaman að gera og pabbi vitnaði oft í þetta ævintýri okkar og hversu skemmtilegt honum fannst það.

Takk fyrir allt elsku pabbi minn.

Ingibjörg.

Elsku pabbi minn.

Það tekur mig sárt að þurfa að skrifa þessa minningargrein um þig alltof snemma. Áður en veikindin fóru að gera vart við sig talaði ég alltaf um með stolti í hversu góðu formi og unglegur þú varst. Ég bjóst því fastlega við að árin yrðu miklu fleiri sem ég og börnin mín fengjum með þér.

Þú varst alltaf hlýr og góður maður enda barngóður með eindæmum. Þrátt fyrir ungan aldur sonar míns þá náði hann að tengjast þér, hann talar mikið um afa Halldór og var alltaf spenntur að koma að heimsækja þig. Þú tókst alltaf vel á móti honum og varst gjafmildur á tópasið sem hann færði þér, það er mín von að sú minning um þig muni ávallt fylgja honum.

Ég kann að meta allt sem þú gerðir fyrir mig, gat treyst á að þú værir í stúkunni á öllum leikjum og íþróttaviðburðum sem ég tók þátt í bæði sem barn og fullorðinn. Mér þótti vænt um það og vonast ég til að geta gert það sama fyrir mín börn.

Þú varst mikill prinsippmaður og kenndir mér margar lífsreglur sem ég hef tileinkað mér gegnum árin og ég vona að þú sért stoltur af manninum sem ég er í dag.

Þinn sonur,

Kristinn Ingi.