Tímamót Jóhann Ágúst Jóhannsson, til hægri, tók í gær við lyklavöldum í plötubúðinni Reykjavík Record Shop af Reyni Berg Þorvaldssyni.
Tímamót Jóhann Ágúst Jóhannsson, til hægri, tók í gær við lyklavöldum í plötubúðinni Reykjavík Record Shop af Reyni Berg Þorvaldssyni. — Morgunblaðið/Eyþór
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Sumir kaupa sér stóran jeppa eða sumarbústað. Ég ákvað að kaupa mér plötubúð. Maður á að láta drauma sína rætast,“ segir Jóhann Ágúst Jóhannsson, nýr eigandi Reykjavík Record Shop við Klapparstíg.

Jóhann hefur fest kaup á búðinni af Reyni Berg Þorvaldssyni stofnanda hennar sem hyggst snúa sér alfarið að kennslu. Hann tekur við rekstri búðarinnar í dag og lætur jafnframt af störfum sem forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar en þar hefur hann verið síðustu fimm árin við góðan orðstír.

„Það hefur verið mikið ævintýri að vera fyrir austan og skemmtilegt að vera þátttakandi í menningarlífinu þar. Maður kemur suður á ný hokinn af reynslu,“ segir Jóhann.

Tónlistarbransinn togaði í Jóhann sem starfaði lengi hjá Eddu útgáfu og 12 tónum á árum áður. Hann segir að kaupin á plötubúðinni eigi sér nokkurn aðdraganda en Reynir hafi í vor gefið til kynna að hún væri til sölu.

„Ég horfði nokkrum sinnum á póstana og svo setti ég mig bara í samband og við náðum samkomulagi. Þetta hefur mig langað til að gera lengi. Reykjavík Record Shop er flott verslun og vel rekin enda hefur Reynir lagt líf og sál í þetta. Verslunin verður tíu ára í næsta mánuði og Reynir hefur rekið útgáfu meðfram henni. Vonandi að maður geti gefið eitthvað út samhliða því að reka plötubúð með notað og nýtt. Maður hefur alla vega reynslu af því,“ segir Jóhann sem kveðst heppinn að eiga skilningsríka fjölskyldu sem geri honum kleift að takast á við nýtt ævintýri.

Jóhann segir aðspurður að það sé sannarlega ekki tímaskekkja að fara að reka plötubúð nú á dögum þegar streymisveitur tröllríða öllu. Mikil vakning hafi verið í vínylplötumenningu. „Það er mjög góð heilun að setja vínylplötu á fóninn, maður nær gjarnan að jarðtengja sig. Tónlistin lifir á öllum formum en vínyllinn er drottningin. Það toppar ekkert þá gæðastund að setjast niður með kaffi og setja Bowie á fóninn, eins og meistarinn sagði.“

Hann segir að svæðið í kringum plötubúðina, Klapparstígurinn, Laugavegur og upp á Skólavörðustíg, ólgi af lífi og hann telji framtíðina bjarta. Auk heimamanna sé mikið um ferðamenn og það komi sér ekki illa í slíkum rekstri. „Mér finnst sjálfum alltaf gaman að fara í plötubúðir í útlöndum, ég geri það alltaf. Það verður gaman að selja ferðamönnum bæði íslenska og erlenda tónlist.“

Eins og áður sagði tekur Jóhann við rekstri Reykjavík Record Shop í dag. Hann hyggst sjálfur standa á bak við við búðarborðið að mestu en muni þó vonandi njóta krafta góðra manna sem starfað hafa með Reyni. Hann segist hlakka til að selja fólki plötur og viðskiptavinir hafi úr miklu að velja. „Þetta er líklega minnsta plötubúð á Íslandi en það er ekki að sjá á úrvalinu. Það hefur verið vel valið inn í verslunina.“