Embla er viðskiptafræðingur að mennt og starfar hjá Arion banka og Lára vinnur sem rafvirki hjá Rafholti. Þær kynntust í gegnum sameiginlegar vinkonur árið 2016 og kolféllu fyrir hvor annarri.
„Við byrjuðum fljótlega saman eftir það og trúlofuðum okkur árið 2017. Við eignuðumst svo stelpuna okkar árið 2021 og giftum okkur árið 2022 ásamt því að kaupa þessa draumaeign. Við getum sagt að hlutirnir séu ekki lengi að gerast hjá okkur,“ segja þær.
Húsið var reist árið 1950 og ber þess skýr merki þar sem byggingarstíllinn er í anda þess tíma, en Embla og Lára urðu strax heillaðar af arkitektúr hússins og sáu mikla möguleika í eigninni.
„Við ákváðum að fara og skoða þessa eign þar sem staðsetningin heillaði okkur mikið ásamt stórum garði við húsið. Okkur fannst húsið sjálft líka ótrúlega fallegt – stærðin á gluggunum og fallegu handriðin á svölunum sem maður sér því miður ekki lengur í nýbyggingum heilluðu okkur algjörlega. Þegar við fórum síðan að skoða eignina að innan sáum við mikla möguleika,“ segja þær.
„Þetta hefur verið ótrúlegur lærdómur“
Eftir að Embla og Lára festu kaup á eigninni hófust miklar framkvæmdir þar sem öllu var skipt út strax sem hægt var að skipta út. Um leið lögðu þær áherslu á að leyfa upprunalegum sjarma hússins að njóta sín, en mikil lofthæð er í eigninni ásamt fallegum og stórum gluggum sem setja punktinn yfir i-ið.
„Framkvæmdirnar hófust strax þegar við fengum húsið afhent og við erum ennþá að. Við skiptum út öllu sem hægt var að skipta út og breyttum öllu skipulagi innanhúss, svo það má segja að þar sé allt glænýtt. Meirihlutinn er búinn en það er nóg eftir. Við erum loksins byrjaðar á garðinum og nú var verið að rífa allt úr honum, en hann var eins og skógur!“ segja þær.
„Þetta hefur verið ótrúlegur lærdómur, mjög gaman en á sama tíma mjög erfitt. Þetta hefur óneitanlega tekið á sambandið og fjölskyldulífið en við getum sagt með fullri vissu að þetta verði allt þess virði,“ bæta þær við.
Embla og Lára hafa haldið út skemmtilegum Instagram-reikningi, Framkvæmdaóðar, þar sem þær hafa gefið fylgjendum innsýn í framkvæmdirnar síðustu ár. Þær eru engir byrjendur þegar kemur að því að breyta og bæta heimili.
„Við fórum í miklar framkvæmdir á síðustu eign sem við áttum sem var góður undirbúningur fyrir þetta verkefni. Það var þó einungis dropi í hafið miðað við þessar framkvæmdir,“ útskýra þær.
Sóttu innblástur á heimili Kim Kardashian
Aðspurðar lýsa Embla og Lára heimilisstílnum sem afar mínímalískum, en þær sóttu mestan innblástur á heimili raunveruleikastjörnunnar Kim Kardashian og á samfélagsmiðlinn Pinterest. Gengið er inn í opið og bjart alrými hússins þar sem eldhús, stofa og borðstofa eru samliggjandi. Ljósir tónar og fallegur efniviður er í forgrunni í eigninni, en Embla og Lára viðurkenna að þær séu ekki mjög litaglaðar, hvorki þegar kemur að húsgögnum, innréttingum né klæðaburði.
„Parketið er klárlega í aðalhlutverki og við völdum eldhúsinnréttingu í „beige“ lit svo að parketið fengi að njóta sín til fulls,“ segja þær. Gólfefnið er Chevron gegnheil „rustic“ eik frá Gólfefnavali sem skapar afar hlýlega stemningu í eigninni, en þær lögðu sérstaka áherslu á að skapa þar kósí stemningu.
„Við erum með fá en vel valin húsgögn sem fá að njóta sín til fulls. Við vildum að allir hlutir ættu sinn stað á heimilinu, en okkur finnst það skapa ró og því viljum við hafa sem minnst kaos,“ segja þær.
Eldhúsið er rúmgott með góðu skápa- og vinnuplássi. Háir skápar falla inn í vegginn sem gerir rýmið sérlega stílhreint, en það er án efa stóra eldhúseyjan í miðjunni sem grípur augað. Á eyjunni er undurfagur Taj mahal-steinn frá Granítsteinum sem gefur rýminu bæði karakter og hlýju. Við eldhúsið er svo notaleg borðstofa þar sem hlýlegir viðartónar eru í aðalhlutverki. Yfir borðstofuborðinu hangir sjarmerandi ljós frá Magnoliu sem gefur frá sér hlýja birtu.
Embla og Lára segja uppáhaldsrýmið á heimilinu klárlega vera baðherbergið enda hafa þær skapað stemningu þar sem minnir helst á fimm stjörnu heilsulind. Sami Taj mahal-steinn og á eldhúseyjunni prýðir baðherbergisinnréttinguna og hafa tveir vaskar verið útbúnir úr steininum sem skapa lúxusyfirbragð í rýminu.
Á veggina völdu þær að nota svokallað míkrósement frá Sérefni með fallegri kalkáferð, en rýmið er rúmgott og bjart með baðkari og stórum sturtuklefa með tveimur sturtum.
Myndu tvöfalda kostnaðaráætlunina í dag
Spurðar út í uppáhaldshúsgagn segjast Embla og Lára eiga í miklum erfiðleikum með að velja á milli sófans og borðstofuborðsins. „Bæði var keypt í Tekk eins og flest annað heima hjá okkur,“ segja þær.
Sófinn fellur sérlega vel inn í stofurýmið, en þar má einnig sjá tvo formfagra hægindastóla og sófaborð. Falleg innbyggð vegghilla setur svip sinn á rýmið ásamt ljósi frá Magnoliu, en einnig sjarmerandi tvöföld hurð í svaladyrunum.