Brynjar Níelsson
Brynjar Níelsson
Brynjar Níelsson, 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, hefur sagt af sér varaþingmennsku fyrir flokkinn. Bréf þessa efnis var lesið upp við upphaf þingfundar á Alþingi í gær og mun Kjartan Magnússon taka sæti hans

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Brynjar Níelsson, 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, hefur sagt af sér varaþingmennsku fyrir flokkinn. Bréf þessa efnis var lesið upp við upphaf þingfundar á Alþingi í gær og mun Kjartan Magnússon taka sæti hans.

„Það er ekki mikið um þetta að segja, það er ekki nýmæli að þeir sem detta út af þingi hætti í stjórnmálum,“ segir Brynjar Níelsson í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart, enda hafa menn vitað þetta undanfarnar vikur,“ segir hann.

Fram hefur komið að Hildur
Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins gerði tillögu um að Brynjar yrði fulltrúi flokksins
í stjórn nýrrar Mannréttindastofnunar. Spurningu um hvort hann hafi hug á því svarar Brynjar þannig að hann sé tilbúinn til þess ef til þess komi.

Spurningu um hvort afsögnin tengist meintri óánægju hans með ákvörðun Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um að fresta brottvísun palestínskrar fjölskyldu úr landi í upphafi vikunnar, svarar Brynjar á þá leið að afsögn hans tengist því máli ekki.

„En tíðindi vikunnar gerðu mér ákvörðunina ekki erfiðari,“ segir hann.

„Ég tilkynnti formanni þingflokksins og forseta Alþingis um ákvörðun mína áður en uppákoman varð fyrr í vikunni,“ segir Brynjar.

Spurður hvað hann hyggist taka sér fyrir hendur, kveðst hann ekki vita það.

„Nú fer ég að vinna í því. Í vissum störfum getur varaþingmennska verið hamlandi,“ segir hann, en tekur fram að hann ætli sér ekki að snúa sér að lögmennsku á nýjan leik.