Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Bogadreginn torfveggur, inngangur, steinhellur lagðar í greinilegum tilgangi og vatnsrás. Þetta er meðal þess sem kom í ljós við fornleifauppgröft að Hrafnseyri við Arnarfjörð í sumar, því 14. sem unnið er að rannsóknum undir yfirskriftinni Arnarfjörður á miðöldum. Fornleifafræðingar grófu í jörð bæði að Hrafnseyri og Auðkúlu lítið eitt utar við fjörðinn.
„Gripir sem fundust í þessari rúst á Hrafnseyri benda til að byggingin sé frá landnáms- eða miðöldum,“ segir Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða, sem stýrði þessu starfi nú sem endranær.
Bogadregið hús og brennt þang
Í túninu austan við kirkjuna á Hrafnseyri var í sumar opnað 100 fermetra svæði þar sem könnunarskurðir höfðu leitt í ljós gólflag. Þetta er í samhengi við að sumarið 2013 var grafin upp niðurgrafin bygging ekki langt frá.
„Sú bygging er jarðhýsi sem finnst nær undantekningalaust framan við landnámsskála. Ekki er alveg hægt að gera sér grein fyrir hvort byggingin sem grafin var upp í sumar sé skáli. Þó er slíkt líklegt, því veggur byggingarinnar er bogadreginn eins og venja er með skála. Frekari rannsóknir eru nauðsynlegar til að ganga úr skugga um þetta. Hér er stór ráðgáta sem við þurfum að finna svör við,“ segir Margrét.
Nemendur frá Bradford-háskóla í Bretlandi unnu við rannsóknina í sumar eins og undanfarin ár, auk samstarfsfólks Margrétar frá Náttúrustofu Vestfjarða. Þá hófst úrvinnsla á rannsóknargögnum frá Auðkúlu og mikil vinna er fram undan við að vinna úr þeim gögnum sem aflast hafa sl. átta ár. Í ár var til dæmis kannað merkilegt hús sem virðist hafa verið notað til að geyma brennt þang í, en þangið virðist hafa verið brennt fyrir utan bygginguna. Rannsóknin nú fól í sér að safna þangi úr fjörunni og brenna. Nota svo til samanburðar við sýni frá rannsókninni.
Nema nið aldanna
„Ekki er vitað hvað brennt þang var notað í, en margar kenningar hafa verið settar fram, og verða niðurstöður settar í samhengi við aðrar rannsóknir. Þá var könnunarskurður gerður á Auðkúlu á mannvirki sem kom í ljós við fjarkönnun. Mannvirkið hefur líklega verið lítið útihús í túninu. Fornleifarannsókn lauk þar með á Auðkúlu en fram undan er mikil vinna við úrvinnslu á gögnum,“ segir Margrét.
Þann 16. júní sl. var opnuð sýning á rannsókninni Arnarfjörður á miðöldum í Safni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Sýningin var sett upp í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins og 1.150 ára afmæli byggðar á Íslandi. Á sýningunni er greint frá niðurstöðum rannsókna síðustu ára, og gripir og gersemar sem fundist hafa sýnd. Samhliða opnun var boðið upp á fræðslu og minjagöngu en einnig fornleifaskóla fyrir börn þar sem þeim gafst kostur á að prófa að grafa undir leiðsögn fornleifafræðings. Er þetta í samræmi við þær áherslur Margrétar að kynna fólki fornleifafræðina – vísindastarf þar sem numinn er niður aldanna.