Haukur Guðlaugsson fæddist 5. apríl 1931 á Eyrarbakka. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 1. september 2024.
Foreldrar hans voru Guðlaugur Ingvar Pálsson kaupmaður og Ingibjörg Jónasdóttir myndlistarkona og húsfreyja. Systkini Hauks eru: Guðrún, f. 15.8. 1924 (samfeðra), Ingveldur, f. 31.1. 1928, d. 5.4. 2017, Jónas, f. 22.7. 1929, d. 29.11. 2019, Páll, f. 28.8. 1939, Steinunn, f. 9.5. 1942, og Guðleif, f. 26.6. 1945.
Eftirlifandi eiginkona Hauks er Grímhildur Bragadóttir, f. 10.10. 1937, bókasafnsfræðingur og kennari. Þau bjuggu á Akranesi frá 1960-1995, en síðan á Laufásvegi í Reykjavík. Fyrri eiginkona Hauks var Svala Guðmunds Einarsdóttir, f. 23.1. 1932. Dóttir Hauks og Svölu er: 1) Svanhildur Ingibjörg, f. 26.12. 1954, gift Guðmundi Sigurjónssyni, f. 27.9. 1946. Þau eru búsett á Selfossi. Börn þeirra eru: a) Heiðrún Hödd, f. 1972 (barnsmóðir: Líney Traustadóttir). Maki Pól Egholm. Dóttir þeirra er Nína Björk, b) Sigurjón Vídalín, f. 1974, maki Helena Sif Zophoníasdóttir. Dætur þeirra eru Henrika Sif og Friðrika Sif. Fyrir átti Sigurjón Telmu Sif, móðir Maríanna Rúnarsdóttir. c) Karen, f. 1977. Maki Ívar Grétarsson. Dóttir þeirra er Rakel Ingibjörg. Fyrir átti Karen Guðmund Bjarna, faðir hans er Brynjólfur Bjarnason. d) Haukur, f. 1981. Maki Sigríður Elín Sveinsdóttir. Þeirra börn eru Sveinn Ísak, Óliver Aron og Hildur Svava. e) Guðlaug Ingibjörg, f. 1993, í sambúð með Haraldi Gíslasyni. Synir Hauks og Grímhildar eru: 2) Bragi Leifur, f. 24.2. 1959, d. 20.6. 2023. 3) Guðlaugur Ingi, f. 12.7. 1965, kvæntur Suphaphon Tangwairam, f. 27.10. 1979. Börn: a) Eva, f. 1986 (barnsmóðir: Katrín Guðlaugsdóttir), b) Nína, f. 2001 (kjörbarn af fyrra sambandi eiginkonu), c) Daníel Ingi, f. 2008.
Haukur Guðlaugsson eignaðist alls tíu barnabarnabörn og tvö barnabarnabarnabörn.
Haukur hóf píanónám 13 ára gamall, lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1951. Hann stundaði orgelnám við Staatliche Hochschule für Musik í Hamborg 1955-1960 og var kennari hans þar Martin Gunter Föstermann. Síðan framhaldsnám í orgelleik við Accademia di Santa Cecilia í Róm 1966, 1968 og 1972 og var kennari hans þar Fernando Germani.
Haukur var tónlistarkennari og kórstjóri Karlakórsins Vísis á Siglufirði 1951-1955 og skólastjóri Tónlistarskólans á Akranesi 1960-1974. Þá var hann einnig organisti og kórstjóri Akraneskirkju 1960-1982 og kórstjóri Karlakórsins Svana. Hann var söngmálastjóri íslensku þjóðkirkjunnar og skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar 1974-2001. Þá stóð hann árlega fyrir organista- og kóranámskeiðum í Skálholti í 27 ár.
Haukur hélt tónleika bæði hérlendis og erlendis. Einnig héldu kórar undir hans stjórn tónleika víða. Hann gaf út geisladiska (2011, 2020, 2023 og 2024) og samdi og gaf út Kennslubók í organleik í þremur bindum.
Árið 1983 sæmdi Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands hann riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og árið 2008 hlaut hann Liljuna, sérstök tónlistarverðlaun íslensku þjóðkirkjunnar.
Útförin fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 20. september 2024, klukkan 13, jarðsett verður frá Eyrarbakkakirkju 21. september klukkan 14.
Nú þegar Haukur, mágur minn, hefur kvatt langar mig að minnast hans lítillega enda á ég fáum mönnum jafnmikið að þakka. Þar er þá fyrst til að taka að Grímhildur systir mín fór til náms við háskólann í Hamborg seint á 6. áratug síðustu aldar. Hún lauk ekki því námi en kom með unnusta til baka. Það var Haukur Guðlaugsson sem þá nam orgelleik hjá Martin Günther Förstermann í Hamborg. Þau Grímhildur giftu sig haustið 1958 og héldu síðan aftur til Hamborgar þar sem Bragi Leifur fæddist í febrúar. Eftir heimkomuna fluttu þau til Akraness þar sem Haukur varð skólastjóri Tónlistarskólans og organisti Akraneskirkju. Skemmst er af því að segja að Haukur vann hug og hjörtu okkar allra í fjölskyldunni.
Ég kom oft til þeirra hjóna á Miðteignum og dvaldi stundum um hríð. Á fyrsta kennsluvetri mínum í Gagnfræðaskólanum á Akranesi, vetri sem var mér erfiður, hringdi Haukur í mig snemma í janúar 1971 og bauð mér að koma og syngja í kirkjukórnum. Hann prófaði mig þarna í símanum og ákvað að ég skyldi syngja tenór. Þetta var upphafið á 36 ára veru minni í kórnum og var ég tvisvar formaður. Fátt, ef nokkuð, hefur orðið mér til meiri blessunar. Við æfðum ýmis verk þennan síðari hluta vetrar en hæst ber í minningunni Fangakórinn úr Nabucco og Sigurkórinn úr Aidu eftir Verdi. Í síðarnefnda verkinu fengum við liðveislu félaga úr Karlakórnum Svönum. Á þjóðhátíðarárinu sungum við margt en eftirminnilegast er að við æfðum upp Skálholtskantötu Páls Ísólfssonar á viku, að ósk Sigurbjarnar biskups, og fluttum á Skálholtshátíð. Við fórum í eftirminnilega ferð til Landsins helga á jólum 1977 og sungum á Torgi jötunnar í Betlehem og í Þjóðleikhúsinu í Jerúsalem. Á heimleið komum við til Rómar og sungum þar í tveimur kirkjum. Svo fórum við til Þýskalands 1980 og sungum þar í Leipzig, Dresden, Hamborg og Lübeck. Eftir þetta var svo efnt til plötuútgáfu.
Svo varð Haukur söngmálastjóri og skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar. Þá fór hann fljótlega að halda námskeið fyrir organista og söngfólk í Skálholti sem urðu mjög vinsæl. Þá var æft fyrir tónleika og messu í kirkjunni og lauk námskeiðinu þar með. Þetta var heilmikil vinna en jafnframt skemmtun og er ljúft að minnast Hauks og samstarfsfólks hans á þeim stundum.
Haukur var mikill dýravinur og mátti helst ekkert aumt sjá. Þau hjón höfðu jafnan einn eða tvo ketti og þegar þau voru fjarverandi kom það í minn hlut að gefa köttunum. Einu sinni komst villikisa inn í aflagða kartöflugeymslu í húsinu á Heiðarbraut 58 og gaut. Þeim köttum þurfti líka að gefa og það var „villikattadeildin“ eins og Bragi Leifur nefndi hana.
Eftir að þau hjón fluttu suður varð að sjálfsögðu lengra á milli samfunda en alltaf komu þau öðru hverju í heimsókn til okkar og svo til að vera við ýmsa viðburði og kveðja látna vini. Haukur var elskaður og virtur hér á Skaga og verður öllum harmdauði. Ég kveð hann með sorg og söknuð í hjarta.
Steingrímur Lárus Bragason.
Það mun hafa verið árið 1958 sem ég sá Hauk fyrst er hann kom heim frá tónlistarnámi í Þýskalandi ásamt systur minni Grímhildi sem einnig hafði verið þar við nám og voru þau nýgift. Þau settust að á Akranesi þar sem Haukur starfaði sem skólastjóri Tónlistarskólans, var organisti kirkjunnar og stjórnaði Karlakórnum Svönum og varð síðan söngmálastjóri þjóðkirkjunnar. Ég fylgdist eilítið með starfi hans á Akranesi sem var yfirgripsmikið en síðar þó meira með starfi hans sem söngmálastjóri. Ástæðan var sú að hann sinnti því starfi í Reykjavík en bjó á Akranesi og hafði þá oft viðkomu á heimili mínu á Baldursgötu í Reykjavík. Þær voru ófáar ferðirnar sem ég skutlaði Hauki vítt og breitt um bæinn í ýmsum erindagjörðum og gerði ég mér þá grein fyrir hversu umfangsmikið starf hans var.
Þegar hann kom við heima eða var á skrifstofunni hjá sér var hann vakinn og sofinn í því að líta eftir tónlistarlífi og starfi allra sókna landsins og var mikið í símasambandi við starfsmenn sóknanna. Eitt af lykilatriðunum var líka að orgel kirknanna væru í góðu lagi. Fyrst eftir að hann byrjaði í starfi sínu sem söngmálastjóri tók hann sér ferð á hendur og heimsótti flestar kirkjusóknir, ræddi við kórstjórnendur og meðlimi kóra til að virkja starfið sem best. Síðast en ekki síst kom hann líka við í kirkjunum til að kanna ástand hljóðfæranna. Í þeim efnum var ástandið misjafnt og varð honum tilefni til að reyna að bæta úr. Árið 1977 hafði hann upphugsað verkefni sem gæti leyst úr þeim vanda sem fyrir hendi var í hinum ýmsu sóknum.
Hann kom að máli við mig og spurði hvort ég væri tilbúinn að fara í ferð ásamt Gissuri Elíassyni hljóðfærasmið og vera honum innan handar við viðgerðir á orgelum kirkna. Hugsaði hann það þannig að byrjað skyldi á að fara Suðurlandið og austur úr. Ekki var annað hægt en að verða við þessari beiðni Hauks og hann samþykkti að unnusta mín kæmi með og héldi bókhald yfir það sem gert væri og myndi skila greinargerð að ferð lokinni. Allt gekk þetta eftir og var fyrst farið í Hruna og endað á Kolfreyjustað og varð þetta hálfs mánaðar vinnuferð.
Gissur Elíasson, sem þá var einn fremsti hljóðfærasmiður landsins með mikla reynslu sem slíkur, hafði að eigin sögn smíðað fjölda orgela. Það var ákaflega gefandi að fylgjast með Gissuri í starfi hans og ýmislegt sem vakti undrun manns, t.d. var fróðlegt að sjá hann skipta um og líma belg í orgelinu á Prestbakka og líka þegar þurfti að nota barnapúður í viðgerð á orgeli í Skeiðflatarkirkju. Vert er að geta þess að staðarhaldarar á öllum þeim stöðum sem farið var á tóku á móti okkur af alúð og vissu af þeirri ástríðu Hauks að hafa orgelin í sínu besta standi.
Eftir lífsreynslu mína í þessari ferð urðu mér hugleikin orð sem háskólaprófessor í heimspeki sagði þegar hann var spurður að því hvað menning væri? Og svarið var: Allt það sem vel er gert. Eitt er víst, að tónlistarmenningu leikra og lærðra á þessu sviði var vel við haldið í tíð Hauks vítt og breitt um landið.
Þorvaldur Bragason.
Ég á ljúfar og kærar minningar um Hauk Guðlaugsson enda maðurinn ljúfur og kærleiksríkur. Hann var fæddur og uppalinn á Eyrarbakka og hafði jafnan sterk tengsl þangað. Ég þekkti foreldra hans vel og heimili þeirra. Þar voru ekki stór húsakynni á nútímavísu. Þröngur stigi var upp á heimilið yfir búðinni og ekki einfalt mál að koma píanói þar upp en það var gert og hóf Haukur að æfa sig á píanó 13 ára.
Við kynntumst þegar ég var í guðfræðideildinni og í orgelnámi hjá Sigurði Ísólfssyni í Fríkirkjunni. Þar í kirkjunni lágu leiðir okkar saman. Hann var að undirbúa samleik á orgel og þverflautu. Til þess að virkja mig og hvetja fékk hann mig til að velja með sér raddir á orgelið fyrir þennan samleik. Þær þurftu að vera fíngerðar og smekklegar til að yfirgnæfa ekki þverflautuna. Ég stillti síðan orgelið og fletti nótnabókinni fyrir Hauk á tónleikunum. Er þetta lítið dæmi um framkomu Hauks við ungan nema í orgelleik. Rifjaði hann þetta stundum síðar upp með mér.
Eftir að ég varð prestur á Eyrarbakka lágu leiðir okkar oft saman. Hauki hafði hlotnast hús Pálínu Pálsdóttur, Hraungerði, og kom hann þá oft í kirkjuna og æfði sig. Hann var að sjálfsögðu mjög áhugasamur þegar til stóð að smíða ný orgel bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri, hvernig þau ættu að vera og með hvaða raddir. Tónlistarlífið hér við ströndina var honum hugleikið. Einnig átti hann kartöflugarð á Eyrarbakka og tók þar upp til heimilisins á haustin. Ég fékk oft þann heiður að aka honum milli staða því hann ók ekki bifreið. Þurfti hann þó að fara víða vegna sinna starfa og hitta kirkjukóra um allt land. Organistanámskeið hélt hann í Skálholti í áratugi og einnig skipulagði hann ferðir organista erlendis. Hans langi og yfirgripsmikli starfsferill verður annars staðar rakinn en ég nefni hér aðeins hversu lengi hann hélt út. Hann var kominn vel á níræðisaldur þegar hann hélt sína síðustu tónleika ásamt sr. Gunnari Björnssyni og Agnesi Löve. Ég var á þeim tónleikum hér í Flóanum mér til ánægju. Það var þannig að hann hætti aldrei að æfa sig og gafst aldrei upp. Fingur hans voru þó krepptir af gigt en hann nefndi það aldrei við mig og lét það ekki trufla sig. Öll þessi ár og allt fram undir þetta hvatti hann mig til að æfa mig og hætta því aldrei.
Nú er leiðir skiljast um sinn vil ég þakka langa og gefandi samleið. Ég bið Guð að blessa Hauk Guðlaugsson, minningu hans, eiginkonu og alla ástvini.
Úlfar Guðmundsson.
Langri og gifturíkri ævi Hauks Guðlaugssonar, fyrrverandi söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, er lokið. Himnarnir hafa opnast og söngur og organsláttur hafa tekið á móti honum. Hann var trúr þjónn tónlistarinnar og kirkjunnar og kennari af Guðs náð. Með hlýju sinni og elskulegri ýtni náði hann að laða fram allt það besta í nemendum og samstarfsfólki sínu, hvort sem það var í orgelleik eða söng, og margoft mun meira en því sjálfu hafði til hugar komið að væri mögulegt. Það sýndi sig og sannaðist á árlegum námskeiðum hans fyrir kirkjukóra og organista í Skálholti og víðs vegar um landið. Aðrir geta vitnað betur og nánar um þá dýrðardaga.
Haukur var söngmálastjóri í 27 ár, frá 1974 til 2001. Í nokkur ár var ég í hlutastarfi hjá honum við að raddþjálfa kirkjukóra landsins og síðar vann ég að málefnum barnakóra í níu ár, þar til hann hætti störfum. Haukur treysti fólki og gladdist yfir því sem gert var en var ekki skipta sér af smáatriðum í störfum annarra. Hvar sem ég kom til að raddþjálfa var kórfólki og organistum hjartans mál að segja frá öllu því sem Haukur hafði gert fyrir þau, hvatningu hans, uppörvun og nótnaútgáfu. Útgáfumálin ein og sér voru einstakt afrek á þeim tíma og orgelskóli hans í þremur bindum einnig. Það var ánægjulegt að geta gengið frá því áður en ég lauk störfum að söngmálastjóri keypti bókalager orgelskólans, en þá útgáfu hafði hann sjálfur fjármagnað.
Eftir að Haukur hætti störfum höfðum við oft samband um ýmis tónlistarmál og þegar ég tók við starfi söngmálastjóra haustið 2014 samgladdist hann og var mér ráðhollur alla tíð.
Einstök gleðistund varð svo í febrúar 2023 þegar barnabarn sérlegs vinar Hauks og kennara hans, ítalska orgelleikarans Fernandos Germanis, kom hingað til lands og spurðist fyrir um þennan fornvin afa síns og hið merka tónlistarbókasafn Germanis sem Haukur lét kaupa til landsins. Haukur, Grímhildur og Bragi buðu okkur til dýrindis kaffisamsætis þar sem margt var spjallað og stúlkan Marisa var afar snortin af móttökunum og allri þeirri elskusemi sem þau sýndu henni. Haukur hringdi tvisvar síðar til að þakka fyrir og það var mér mikil gleði að geta stuðlað að þessari fallegu stund.
Haukur varðveitti alla tíð fölskvalausa hlýju og einlæga gleði jafnt yfir því smáa sem stóra. Minningarnar um hann og störf hans lifa með samferðafólkinu. Guð blessi þær minningar og umvefji fólkið hans á kveðjustund.
Margrét Bóasdóttir, fv. söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.
Þegar ég minnist og hugsa til Hauks vinar míns og kennara, þá koma alltaf upp í hugann orð Páls postula í Filippíbréfinu: „Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum …“ (Fil. 4:5), því að ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma séð hann skipta skapi, á hverju sem gekk.
Ég kynntist honum fyrst í byrjun tíunda áratugarins, þegar ég kom í fyrsta söngtímann til Guðrúnar Tómasdóttur í Tónskóla þjóðkirkjunnar, sem þá var ásamt skrifstofu söngmálastjóra þjóðkirkjunnar á Sölvhólsgötunni, en á þeim tíma var Haukur söngmálastjóri. Um leið og ég kom inn úr dyrunum hitti ég Hauk þar fyrstan fyrir og ritara hans, Eddu Jónsdóttur, sem fögnuðu hverjum þeim, sem þangað kom inn. Við Haukur vorum fljót að kynnast og töluðum margt saman, enda hann viðræðugóður alla tíð og margfróður, ekki síst um tónlist og tónskáld, og hafði líka góða kímnigáfu, ef því var að skipta. Sömuleiðis hafði hann mjög góða nærveru, auk þess hvað hann var oft gjöfull, enda á ég marga diska og nótnabækur, sem hann gaf mér í heimsóknum mínum til hans bæði á skrifstofuna sem heima.
Ég kom því oft á skrifstofuna, ýmist áður en ég fór upp á næstu hæð, þar sem kennslustofa Guðrúnar var, eða á leiðinni úr tíma í þau sex ár, sem ég var þarna í söngnámi hjá Guðrúnu, og kynnin við þau bæði urðu betri og sterkari með hverju árinu. Eftir að söngnáminu lauk, þá talaði ég oft við Hauk í síma, og gerði mér stundum ferðir upp á skrifstofuna til hans.
Um aldamótin datt mér svo í hug að fara að kynnast orgelinu, þótt píanóið væri annars mitt hljóðfæri, en hafði samt stundum leikið á orgelið inni í kapellu Háskólans, þótt ég kynni ekki fótspilið. Ég athugaði því með að læra á orgel í tónskólanum, sem var sjálfsagt, og Haukur kenndi mér sjálfur, og var mjög þolinmóður kennari. Þegar ég minntist á það við eina frænku mína, sem hafði verið í kirkjukórnum hans á Akranesi, þá sagði hún það sama, og sagðist aldrei minnast þess, að hann hefði nokkurn tíma skipt skapi, þótt illa gengi á æfingunum, og virtist hafa óendanlega þolinmæði, og hætti ekki, fyrr en því var náð fram, sem ætlað var.
Eftir að Haukur hætti störfum sem söngmálastjóri kom ég oft í heimsókn á Laufásveginn til þeirra Grímhildar, sem ég þekkti fyrir, til þess að æfa mig á orgelið þar heima og halda því við, sem ég hafði lært, því að hann vildi ekki, að ég týndi því niður, og naut þar góðrar gestrisni þeirra og viðurgernings. Þótt það hafi lagst af eftir þónokkur árin, þá held ég nú, að ég hafi engu týnt niður af því, sem ég lærði í orgelleik.
Þegar ég sé nú á eftir mínum ágæta vini og kennara inn í eilífðarlandið með söknuði, þá er allra efst í huga mér einlægt þakklæti fyrir einstaklega góða og gefandi viðkynningu og vináttu auk orgelkennslunnar, og bið honum allrar blessunar Guðs, þar sem hann er nú, um leið og ég votta Grímhildi og fjölskyldunni einlæga samúð mína.
Blessuð sé minning Hauks Guðlaugssonar.
Guðbjörg Snót
Jónsdóttir.
Til hafs sól hraðar sér
hallar út degi,
eitt skeiðrúm endast hér
á lífsins vegi.
(AJ)
Af Eyrarbakka barst okkur snjall listamaður, ötull og þrautseigur félagsmálamaður, Haukur organisti og söngmálastjóri, starfaði við söngstjórn, hljóðfæraleik og kennslu um ævidaga sína. Hann hóaði saman organistum, kórum, skáldum og málurum, hann reisti við stráin jafnt og stofnana, starfaði að mannrækt svo söngstjórar, kennarar og önnur alþýða sneri hresst af fundi hans, verkefnin voru hvarvetna, bíða sum enn – í heimi söngs og ljóða – svo margbrotin sem menning er á hverri tíð.
Haukur lék orgeltónlist inn á marga geisladiska og eitt sinn þegar nýr diskur birtist orti vinur hans og nemandi, Glúmur Gylfason organisti:
Kirkjan góðan Hauk í horni
hefur átt
hans sér lengi enn við orni
organslátt.
Hægur, ljúfur, brosmildur og ígrundandi á svipinn var Haukur, ók ei bíl en var góður á reiðhjólinu, með vagninum ók hann á æfingar til okkar Norðlendinganna og svo var auðvitað Akraborgin, ferjan sem hann notaði eftir að hann fór að starfa að söngmálum í Reykjavík, organistinn á Akranesi.
Og áfram munum við orna okkur við minningarnar um fyrirliðann, listamanninn og hljómana frá hörpu Hauks. Hann þurfti ekki að brýna róminn til að fá hópinn fúslega með sér.
Þýðingu Grímhildar, konu Hauks, á bókinni um tónskáldið og cellóleikarann, Pablo Casals á ég að þakka hlýja minningu norðan af Holtavörðuheiði, strætó á norðurleið í stórhríð en ég sjálfur á kafi í bóklestri, datt gjörsamlega í sögurnar.
Þjóðskáldið frá Skógum í Breiðafirði, forfaðir Grímhildar, kvað um hið mikla djúp og litla tár:
Í hendi Guðs er hver ein tíð
í hendi Guðs er allt vort stríð
hið minnsta happ, hið mesta fár
hið mikla djúp, hið litla tár.
(Matthías Jochumsson)
Atvik frá einu af fyrstu Skálholtsnámskeiðunum situr lítt bifanlegt í minni, það var fyrsta kvöld vikunnar, 50 organistar og kennarar sitja úti í rökkvaðri kirkjunni, en búið var að kveikja á orgelinu og kertunum, sr. Guðmundur Óli í þann veginn að hafa með okkur kvöldbænir og Haukur kemur til mín á kirkjubekknum, biður mig setjast við hljóðfærið, sem kostaði að ganga upp að orgelbekknum risavaxna, og spila með í sálminum Til hafs sól hraðar sér. Ég skorast undan, en meistarinn tekur því af sinni haukslegu ljúfmennsku, gekk síðan sjálfur að orgelinu og leikur. En ég …
Sumt man maður, líka úrtölurnar, tímasóunina, þegar þakka skyldi og þiggja af bjóðandi hönd og veitandi kennara. Og ekki kemur stundin aftur. Látum ei álas og vaðal kefja lífið eða tefja góð áform.
Lán var oss að ganga til liðs við organistann af Bakkanum.
Þennan listamann birtu og hljóma.
Þó dagsins skundum skeið
skjótt fram að nóttu
brátt hennar líður leið
að ljósri óttu.
(Arnór Jónsson f. 1772)
Ingi Heiðmar Jónsson.
Ég vil með þessum orðum kveðja Hauk Guðlaugsson, minn góða orgelkennara og vin.
Við Haukur kynntumst þegar ég byrjaði í píanónámi hjá honum níu ára í Tónlistarskólanum á Akranesi. Áður hafði ég lært að lesa nótur hjá eldri konu frá fimm ára aldri. Ég sagði honum strax að ég vildi læra á orgel hjá honum. Ég náði ekki með fótunum niður á fótspilið og Haukur lagði til að ég myndi byrja að læra á píanó og þegar ég væri búinn að stækka og næði niður á pedalana gæti ég farið að læra á orgel.
Þegar ég var á ellefta ári bauð Haukur mér út í kirkju ásamt fleiri nemendum úr skólanum. Hann sýndi okkur orgelið og spilaði fyrir okkur á það alls konar tónlist og ég féll algjörlega fyrir því. Haustið 1974 innritaðist ég í orgelnám hjá Hauki og var hjá honum í námi til 1978. Í fyrsta tímanum, þar sem hann kenndi mér á fótspilið, stýrði hann fótunum af mikilli nákvæmni og sagði mér með sinni góðu hlýju hvernig ég ætti að nota fæturna til að spila á fótspilið.
Fyrsta verkið sem ég spilaði opinberlega á orgel var Menúett eftir Bach á skólaslitum Tónlistarskólans. Hann kenndi mér síðar mörg orgelverk tónbókmenntanna. Haukur var mjög nákvæmur í kennslu og leiðsögn. Hann kenndi mér meðal annars að spila bundið á orgel og lagði áherslu á að spila sálmana mjög bundið og með tilfinningu. Hann kunni að hrósa og gerði það óspart. Hann sagði til að mynda að ég spilaði alltaf af svo miklu öryggi og léti ekkert utanaðkomandi trufla mig við orgelleikinn.
Haukur studdi mig alltaf til náms og hvatti mig áfram. Hann kom oft heim á Laugabrautina til að hvetja foreldra mína til að styðja mig í náminu en á þessum tíma var ekki sjálfsagt að strákur frá Akranesi legði orgelleik fyrir sig. Haukur hjólaði alla sína tíð. Þegar hann hjólaði Laugabrautina til messu eða kóræfinga, hjólaði hann oft í „áttur“ og fór ég oft út að götu að horfa á hann.
Eftir því sem árin liðu varð Haukur meira en kennari og tókst með okkur ævilöng vinátta. Hann hafði góða nærveru, var alltaf jákvæður og hvetjandi. Hann hringdi oft í mig þegar hann var orðinn söngmálastjóri kirkjunnar og spurði hvernig gengi í organistastarfinu og kórastarfinu. Hann mætti á alla tónleika mína og hringdi í mig eftir hverja útvarpsmessu til að þakka mér fyrir tónlistarflutninginn, bæði kór og orgelleik. Þegar ég hitti hann á förnum vegi, spurði hann mig alltaf hvaða orgelverk ég væri að æfa og sýndi þeim mikinn áhuga. Við nemendur hans vorum eins og ungarnir hans sem hann hugsaði alltaf til með mikilli hlýju og nærgætni.
Ég kom oft í heimsókn til þeirra Grímhildar og þá gaf hann sér góðan tíma til að tala við mig yfir kaffi. Ég stoppaði aldrei styttra en 2-3 tíma. Við hlustuðum á hljómplötur, hann sýndi mér og spilaði fyrir mig alls konar verk á píanóið.
Það er Hauki Guðlaugssyni algjörlega að þakka að ég starfa sem organisti og kórstjóri í dag.
Ég kveð minn góða lærimeistara með þökk fyrir allt um leið og ég votta Grímhildi, Guðlaugi og öðrum fjölskyldumeðlimum mína dýpstu samúð. Haukur hvíli í friði.
Friðrik Vignir Stefánsson.
Minn elskulegi vinur Haukur Guðlaugsson organleikari og fyrrverandi söngmálastjóri þjóðkirkjunnar er látinn. Ég kynntist honum fyrst persónulega sumarið 1982, en þá hljóp hann í skarðið með stuttum fyrirvara og lék með mér á tónleikum á Hvammstanga. Þá strax duldist mér ekki að hér var á ferð mikill listamaður. Þetta var upphafið að dýrmætri vináttu og mikilli samvinnu í meira en fjóra áratugi.
Það kom snemma í ljós hvers konar tónlistarhæfileikum Haukur var gæddur. Hann var ungur sendur í píanónám til Reykjavíkur frá fæðingarbæ sínum Eyrarbakka, sem var óvenjulegt á þeim tíma. Í Reykjavík hlaut hann dýrmæta kennslu hjá sjálfum Árna Kristjánssyni píanóleikara og lauk þaðan burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1951, þá 19 ára gamall. Enda þótt Haukur veldi síðar orgelið sem sitt aðalhljóðfæri veit ég að hann bjó að þessari handleiðslu Árna Kristjánssonar alla tíð sem tónlistarmaður. Haukur hlaut afar góða menntun sem organleikari. Fyrst við Staatliche Hochschule für Musik í Hamborg hjá prófessor Martin Günther Förstemann og síðar hjá hinum heimsþekkta orgelsnillingi Maestro Fernando Germani við Accademia di Santa Cecilia í Róm.
Haukur var alla tíð geysilega afkastamikill maður, en með afbrigðum vandvirkur með allt sem hann tók sér fyrir hendur. Hann lék á orgel af snilld, stjórnaði kórum bæði innanlands og utan, lék inn á hljómdiska og gaf út 70 nótna- og fræðslubækur fyrir kóra og organista. Auk þess samdi hann og gaf út kennslubók í organleik í þremur bindum, sem var stórvirki.
Eitt af því merkilegasta sem tengdist starfi Hauks sem söngmálastjóra þjóðkirkjunnar voru hin vinsælu organista- og kóranámskeið í Skálholti. Þessi námskeið voru haldin í 27 ár, þar sem organistar og kórfólk víðsvegar að af landinu safnaðist saman og hlaut leiðsögn undir stjórn færustu kennara. Persónulega hef ég sannreynt að andinn á þessum námskeiðum var dásamlegur og einstakur. Það sem einkenndi þessi námskeið var gleði, samkennd og hamingja í mætti tónlistarinnar.
Það er erfitt að gera manni sem Hauki einhver teljandi skil í stuttri minningargrein, en ég vil að lokum nefna nokkra þætti í fari hans sem ég dáðist alltaf að. Það var húmorinn sem aldrei var langt undan, æðruleysið, listfengið og hjarta sem ætíð fann til með þeim sem minna máttu sín eða áttu við erfiðleika að etja. Allir þessir þættir í skapgerð hans mótuðu líf hans og lífsstarf. Það er mikill missir að brottkalli Hauks úr þessum heimi, en hann skilur eftir sig ríkulegan arf fyrir okkur að njóta og minnast.
Haukur varð mikillar gæfu aðnjótandi þegar hann kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Grímhildi Bragadóttur. Þessi glæsilega, velmenntaða og gáfaða kona veitti honum ómetanlegan stuðning í öllu hans starfi og gerði honum kleift að láta alla sína fegurstu drauma rætast. Ég sendi fjölskyldu Hauks og ættingjum öllum mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Gunnar Kvaran.
Kær vinur minn er fallinn frá. Fyrst man ég eftir Hauki Guðlaugssyni ásamt fleiri efnilegum píanónemendum Tónlistarskólans í Reykjavík í Trípólí-bíó (áður kvikmyndahús bandarískra hermanna á stríðstímanum). Þegar ég heyrði hann leika einleik á tónleikum tók ég sérstaklega eftir því hve músíkalskur hann var og hvernig hann lifði sig inn í öll þau verk sem hann var að leika. Mörgum árum seinna kynnist ég Hauki og kemst þá að því að þótt hann væri orgelleikari hafði hann gífurlegan áhuga á píanóleik og píanóleikurum. Þannig hófust kynni okkar að við ræddum mikið um píanóleik og píanótækni. Haukur hafði óbilandi áhuga á hinum margvíslegu vandamálum píanótækni og hvernig hún tengist túlkun. En sem organisti þá hafði hann mikil og sterk áhrif á orgelleik á Íslandi og má þar sérstaklega nefna að hann stóð fyrir miklum námskeiðum í Skálholti í ein 27 ár. Hann gerði sér grein fyrir að píanóleikur er afar mikilvægur grundvöllur fyrir þá sem ætla að leggja fyrir sig orgelleik. Sem dæmi þá lét hann þýða bók eftir Josef Lhévinne sem var mjög skynsamlegt val vegna þess að allt sem hann skrifaði í sinni bók byggðist á raunveruleika, ekki kenningum. Hann hlýddi sérstaklega á leik Lhévinnes á tæknilega endurbættum upptökum auk annarra þekktra píanósnillinga fortíðarinnar. Auk þessara píanóáhugamála þá hélt Haukur að sjálfsögðu oft einleikstónleika sem orgelleikari víða á Íslandi. Nýlega kom út tvöfaldur geisladiskur með leik og túlkun Hauks á orgelverkum sem fóru fram í mörgum kirkjum vítt og breitt um landið. Valdi þar Haukur verk sem hæfðu vel hverju orgeli í þessum kirkjum. Í fréttablaðinu 4. maí 2021 birtist tónlistargagnrýni eftir Jónas Sen sem bar heitið Himnesk fegurð orgelsins. Þar segir meðal annars: „Hér er allt eins og það á að vera, hver einasti tónn á sínum stað og innra samræmi og yfirvegun ríkir í hvívetna.“ Um leik og túlkun Hauks segir: „Haukur leikur allt af aðdáunarverðri fagmennsku. Spilamennskan einkennist af næmri tilfinningu fyrir inntaki tónverkanna, fyrir innblæstrinum sem þar liggur að baki. Takturinn í hverri tónsmíð er hárnákvæmur, túlkunin er ávallt tignarleg. Maður dáist að fegurðinni í tónlistinni, og hún ber hæfileikum organistans fagurt vitni.“
Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Grímhildar konu hans og fjölskyldu.
Halldór Haraldsson.
Verundin verður fráleitt söm að Hauki, virktavini okkar Guðlaugssyni, gengnum. Nú verður til dæmis ekki lengur unnt að hringja og furða sig á því, að kirkjuorganistar margir skuli snúa baki við hljóðfæri sínu, en klimpra í staðinn á píanó við guðsþjónustur.
Lagsbróðir hans á Eyrarbakka sagði svo frá, að drengur hefði Haukur stundað fingraæfingar á grjótgörðum og grindverkum í þorpinu. Eljan entist honum langa ævi, en próf. Förstermann í Hamborg sagði við þennan aðsætna nemanda sinn: „Üben Sie nicht zu viel, Herr Gudlaugsson!“
Í formála að Kennslubók sinni í orgelleik skrifaði Haukur: „Sumir reyna að spara orkuna á öllum sviðum áður en til tónleika kemur. Til dæmis að fara helmingi hægar að öllu, ganga hægar. Þetta hefur slökun í för með sér og undirbýr þann sem á þá einbeitingu í vændum sem tónleikahaldi fylgir.“
Einhverjir komu auga á Hauk, þar sem hann dróst upp Bakarabrekkuna í Reykjavík. Varð naumast sagt, að hann kæmist úr sporunum; hann fór eins hægt og kostur var, án þess þó að standa alveg kyrr. Ályktuðu menn, að nú væru hljómleikar skammt undan.
Barn að aldri vildi Haukur verða listmálari og lét koma með trönur og liti úr höndluninni syðra. En Guðlaugur faðir hans, kaupmaður á Eyrarbakka, hafði ótrú á því að unnt væri að lifa af þessu.
Haukur byrjaði því að læra á orgel hjá móðurbróður sínum Kristni Jónassyni, sem var organisti á Eyrarbakka. Seinna útskrifaðist hann með láði frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og hélt stálpaður til Hamborgar í framhaldsnám ásamt Mána Sigurjónssyni. Á skipsfjöl hittu þeir félagar stúlku, sem spurði þá forviða hvers vegna svo ungir menn ætluðu að fara að læra á orgel og opinberaði þar með það álit Íslendinga löngum, að organistar gætu þeir einir verið, sem komnir væru að fótum fram.
Stundum hefur verið látið að því liggja, að Haukur söngmálastjóri hefði gefið sig enn meira við organslættinum, ef hann hefði ekki verið svo önnum kafinn að halda frið við músíkalska organista uppi í sveit. Hann braut sig í mola fyrir mesta byrjandann í tónlistinni, enda hringdu skjólstæðingar hann hiklaust upp í símann á hvaða tíma sólarhrings sem var. Engin fyrirhöfn var of mikil, engir þeir framkrókar að hann legði sig ekki í þá, ef lánast kynni að koma því til leiðar, að í hugskoti reynds organista kviknaði meira ljós. Eins lagði Haukur nótt við dag ef takast mætti að nudda einkennilegum unglingi til þess að fara að pota ögn á orgel. Af sjálfu leiddi, að organistanámskeið hans í Skálholti tókust vel, enda varla nokkur svo kaldgeðja að særa þetta velviljaða, brosmilda og bónþæga prúðmenni með því að leggja sig ekki fram. Efnisskráin var við allra hæfi, bæði t.a.m. „Aus tiefer Not“, „Sjá þann hinn mikla flokk sem fjöll“ og „Yesterday“. Enginn var svo harðbrjósta að vaka ekki heldur nótt að glöggva sig á svörtu nótunum en að óhlýðnast Hauki. Hann fann öllum kirkjusöngvurum Íslands gistirými í Skálholti, en svaf sjálfur úti í hlöðu.
Með öðlingnum Hauki Guðlaugssyni höfum við misst einn okkar allra besta vin. Guð blessi minningu drengsins góða, hins holla velgerðamanns kirkju og kristni á Íslandi. Guð huggi, styrki og verndi ástvini hans alla.
Gunnar Björnsson, pastor emeritus.
Með örfáum orðum langar mig að minnast Hauks Guðlaugssonar sem ég var heppin að fá að kynnast. Ég var 15 ára, feiminn og vandræðalegur unglingur þegar ég steig fyrst inn í Tónskólann og spilaði á píanóið fyrir Hauk með það í huga að fá að læra á orgel. Það varð ekki aftur snúið eftir það en orgelnám mitt hófst þó ekki fyrr en nokkrum árum síðar af ýmsum ástæðum. Það var ekki síst fyrir hvatningu Hauks að ég leiddist að orgelinu á unglingsárum því að þótt hann hafi ekki sjálfur kennt mér þá var hann alltaf einstaklega hvetjandi og áhugasamur um hvernig námið gengi, gaukaði að manni bókum, spurði út í hvaða verk væri verið að æfa, gaf góð ráð og rifjaði upp skemmtilegar minningar. Og ekki hætti áhuginn þó að náminu í Tónskólanum lyki og við tæki frekara nám og störf, alltaf fylgdist Haukur með, spurðist fyrir, mætti á tónleika og hvatti til dáða.
Haukur var einstakur mannvinur og hafði þann sérstaka hæfileika að gera ekki mannamun og taka alltaf jafnvel á móti öllum. Hann var mikill listamaður með einlægan, brennandi áhuga og næmi fyrir hinu fagra. Það skein í gegn í öllum hans störfum, bæði sem listamanns og kennara. Áhugi hans og næmi fyrir listum og fólki blandaðist saman við skemmtilegan húmor og persónuleika og hafði Haukur mikil áhrif á marga í sínu starfi, hvort sem það voru kórsöngvarar í kirkjukórum, nemendur Tónskólans, listamenn eða háttsettir embættismenn.
Ég skal segja þér leyndarmálið um sönginn. Þegar þú hlustar á söng hlustar þú á sjálfan þig. Allir eiga söng í sálu sinni og þú heyrir í sálu þinni í hverjum söng. Sá sem á fallegan söng í sálu sinni hefur hæfileikann til að heyra fallega söngva annarra.
(Mihály Babits, ungverskt ljóðskáld, 1883-1941)
Haukur Guðlaugsson söngmálastjóri átti svo sannarlega fallegan söng í sinni sál og ég minnist hans af djúpri virðingu og þökk. Ég sendi Grímhildi og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.
Guð blessi minningu Hauks Guðlaugssonar.
Guðný Einarsdóttir.
Ungur má en gamall skal. Samt er mér það óraunverulegt og örðugt að rita kveðjuorð eftir þennan fallega listamann; svo ríkur þáttur hefur hann verið í lífi mínu síðasta aldarfjórðung. Mér er í minni er ég tók upp síma og heyrði rödd hans í fyrsta sinn. Gæfa mín sú spratt af umsjón hans með útgáfu á bréfum Beethovens í þýðingu Árna kennara hans Kristjánssonar. Tengslin sem þá mynduðust efldust skjótt og samskipti okkar urðu tíðari og eftir því ánægjulegri, enda var Haukur maður sem alla vann með persónu sinni, hæfileikum og mildi. „Haukur hér!“ Röddin sú í símanum varð mér óðarabil sem hver önnur andleg næring – og fyrr en varði var hann mér brátt sem skriftafaðir og ráðgjafi; lagði gott til í stóru sem smáu. Enda vel í stakk til þess búinn; svo handgenginn sem slíkur meistari orgels og hljóma hlaut að vera guðlegum mætti umfram aðra dauðlega menn. Enda sló ég einatt á þráð til hans til að fá blessun hans. Og aldrei stóð á henni. Hann var mér náinn vinur og eldri bróðir – enda bárum við sama föðurnafn!
Með ólíkindum var hve langt hann náði í ríki frú Músíku; þessi snáði frá litla Eyrarbakka sem tók sér reglulega fari yfir heiðina með vörubíl til að sækja tíma hjá færum tóntúlkendum höfuðstaðarins. Og brátt varð drengurinn tónlistinni svo handgenginn að hún varð hans „alter ego“ ævilangt. „Hljóðfærið er alltaf sami segullinn,“ sagði hann sjálfur. Við megum vera almættinu þakklát fyrir elju hans og færni á því sviði, enda var honum allt opið á tónasviðinu. Jafnvel kórstjórn hans á Siglufirði og síðar á Akranesi bar færni hans fagurt vitni, eins þótt hann yrði að nema hana að mestu af bók! Og er þá ótalin útgáfustarfsemi hans öll, einkum í uppfræðslu, sem hann var óþreytandi við allt fram til hinstu stundar. Og margir mega honum þakka öll námskeið hans í Skálholti og víðar, lengstum undir merkjum hans sem söngmálastjóra þjóðkirkjunnar. Svo ekki sé minnst á alla tónleikana og flutning við hátíðlegar athafnir.
Margar eru myndirnar úr albúmi okkar Hauks um aldarfjórðungs skeið. Við brölluðum saman stórt og smátt. Og allt varð það þroskandi og nærandi – nema tilraun hans til að kenna mér að meta kæsta skötu! En allt annað tókst Hauki að innprenta mér. Ógleymanleg er pílagrímsför okkar í góðum hópi á slóðir Schuberts fyrir hartnær tuttugu árum. Og einkatónleikar sem ég varð aðnjótandi hvenær er þessi mentor minn hafði færi á. Hafi hann umbun í eilífðinni fyrir þá tóna alla.
Haukur Guðlaugsson; enginn gæti eignast betri vin og ráðunaut á lífsbrautinni. Með upptökum sínum öllum mun hann lifa í frábærri túlkun sinni, í öllum hand- og kennslubókunum er hann lagði hönd að á langri ævi – en þó lengst og best í hugskoti okkar sem fengum að njóta vináttu hans, hógværðar, jafnaðargeðs og mannmildi. Hann kveð ég með litilli vísu eftir Karl Jónasson á Seyðisfirði:
Aldurhniginn féll á fold,
- felldu margan örlög köld –
sjaldan hef ég svartri mold
seldan vitað betri höld.
Ástvinum hans votta ég alla samúð.
Jón B. Guðlaugsson.
Ögun, auðmýkt, ákveðni, virðing, eldmóður, snilligáfa. Ekki vond blanda hjá einum og sama listamanninum.
Fyrstu kynni mín af Hauki voru tónleikar hans í Neskirkju, þá ungur maður. Meðal verka var Gotnesk svíta eftir Leon Boëllmann, sem var mér nýr heimur kirkjutónlistar.
Haukur var hámenntaður í orgelleik m.a. í Þýskalandi hjá Föstermann og í Róm þar sem hann nam hjá hinum mikla snillingi Fernando Germani sem þá var einn af tindum heimsins í orgelleik.
Á Akranesi hitti ég Hauk oft þegar hann var við æfingar í kirkjunni og þróuðust þessi kynni í vináttu sem varði alla tíð síðan. Haukur og Guðmundur H. Guðjónsson samnemandi hans, organisti í Vestmannaeyjum, buðu meistara sínum frá Róm til Íslands í tónleikaferð. Hélt hann tónleika á mörgum stöðum á landinu og sagðist ekki hafa liðið betur á ferðalagi. Tókst ferð hans með ágætum.
Haukur stofnaði ásamt vinum sínum Fernando Germani félagið á Íslandi og starfaði það í allmörg ár. Vildi hinn aldni meistari að allar nótur og kennslugögn hans yrðu varðveitt og notuð á Íslandi og er safnið varðveitt hjá embætti Söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, þökk sé Hauki.
Haukur hélt orgeltónleika víða, heima og erlendis. Gaf hann út fjóra geisladiska í tveimur albúmum með leik sínum á hinum ýmsu stöðum, eins diska með píanóleik ásamt Gunnari Kvaran sellóleikara. Eins hélt hann árum saman námskeið í Skálholti fyrir kirkjutónlistarfólk.
Það var mikið áfall og harmur hjá þeim hjónum Hauki og Grímhildi þegar sonur þeirra Bragi Leifur lést skyndilega langt fyrir aldur fram og hafði mikil áhrif á heilsu og lífsgleði Hauks. Hann hélt andlegri heilsu til æviloka en líkamsþróttur þvarr. Ég votta Grímhildi og aðstandendum samúð mína.
Magni Ólafsson.
Það var sem að stíga inn í annan heim þegar Haukur Guðlaugsson var heimsóttur í höfuðstöðvar söngskóla þjóðkirkjunnar við Sölvhólsgötu á sínum tíma. Á veggjum héngu eftirprentanir endurreisnarmálverka í þungum römmum og að eyrum bar lágværa sígilda tónlist. Í lofti var ilmur af kjötsúpu og síðan kom hann gangandi mjúkum skrefum á flókaskóm með trefil um háls. Úr andliti ljómaði mildi og fögnuður þegar hann sá hver var kominn. Spurði hvort ekki mætti bjóða upp á hressingu. Höfuðstöðvar söngmálastjórans voru öllum opnar og kom það fyrir að hann bauð tónlistarfólki sem var tímabundið á hrakhólum að gista þar eða skaut skjólshúsi yfir vænleg organistaefni utan af landi sem voru í stuttri æfingaheimsókn. Þetta var fyrir tíma allra öryggisskynjara í opinberum byggingum og því ekkert að óttast fyrir viðkomandi þegar hann naut gistivináttu mannvinarins, Hauks. Reyndar kom stundum fyrir að syfjulegt andlit risi upp bak við orgelbekkinn þegar maður var í heimsókn hjá Hauki en hann spurði hinn nývaknaða með vinsemd og þjónustulund hvort ekki væri ráð að fá sér tebolla og ristað brauð. Þetta var hús menningar, listar og mannúðar og vistarverurnar sennilega jafnmargar og í himnaríki.
Þá tæpa þrjá áratugi sem undirritaður þjónaði sem fangaprestur þjóðkirkjunnar átti hann mikinn velvildarvin í horni þar sem Haukur var. Hann var ætíð boðinn og búinn að útvega tónlistarfólk og organista til að leika á litla töskuorgelið við helgihald í fangelsunum sem hann hafði farið með í tónleikaferð til Kína. Haukur og vinur hans, Gunnar Kvaran meistari sellósins, fóru nokkrum sinnum með fangaprestinum í fangelsin á Litla-Hrauni og Kvíabryggju til að leika saman. Kraftalegir fangar með glannaleg húðflúr upp úr hálsmáli og sumir hverjir býsna harðleitir bráðnuðu og urðu sem litlir drengir þegar þessir tveir fíngerðu listamenn tóku að spila. Ekki síður lögðu þeir við eyru þegar listamennirnir tóku til máls lágum rómi og mildum. Þeir töluðu af speki og mannvisku sem fangarnir hlustuðu á og sumir komust við. Þegar helgistundirnar voru á enda gáfu þeir bækur eða geisladiska. Seinna meir fóru hann og vinur hans Gunnar Kvaran margoft á eigin vegum inn í fangelsin til að flytja klassíska tónlist og flytja föngunum uppbyggileg orð frá ýmsum andans mönnum á sviði lista og menningar.
Haukur hafði þann góða sig og uppörvandi að hringja til fangaprestsins unga og ræða við hann. Hvetja hann, stappa í hann stálinu og láta gott af sér leiða. Það var gott og hollt veganesti sem fangapresturinn fékk frá þessum mannvini og vakti hann til umhugsunar um margt í heimi lista og mannúðar.
Haukur var forystumaður á sviði kirkju- og tónlistarmála og fór sér hægt og sigursæl mýkt hans var ákveðin. Enginn gat neitað honum um það sem beðið var um. Manngæska hans og metnaðarfull framsýni báru ætíð sigur úr býtum.
Nú hefur þessi sómamaður og mannvinur kvatt lífið í hárri elli og skyldugt er að minnast hans með þökk og virðingu. Guð blessi minningu Hauks Guðlaugssonar.
Hreinn S. Hákonarson.
Með fráfalli Hauks Guðlaugssonar er genginn einn mesti áhrifamaður íslenskrar tónlistar- og menningarsögu 20. aldar. Haukur var vel menntaður og afbragðsfær listamaður sem lærði heima og erlendis um árabil. Innsæi Hauks og næmni fyrir tónlist var tandurhrein og hjartað galopið. Hann hafði það sem ekki verður lært. Þegar hann lék á hljóðfæri eða stjórnaði kór var eins og tíminn stöðvaðist.
Haukur var lífskúnstner sem blandaði saman á einstakan hátt heimsmenningu og íslenskri arfleifð. Sem söngmálastjóri þjóðkirkjunnar fór hann aldrei í manngreinarálit. Alþýðan var hans elíta og elítan var send í bakarí til að kaupa vínarbrauð með kaffinu fyrir nemendur Tónskóla þjóðkirkjunnar á Sölvhólsgötu 13. Hann sást oft með svuntu yfir jakkafötunum þar sem hann sauð hrossabjúgu eða fisk inni í skólaeldhúsinu með Beethoven á fóninum. Hann bað embættismenn og biskupa að skræla kartöflurnar svo hann gæti rétt sem snöggvast snúið við plötunni og útskýrt næsta lag fyrir ráðvilltum unglingi á leið í tíma. Hann útskýrði af ástríðu flóknustu tónverk fyrir fagmönnum en svaraði af sömu virðingu spurningum starfsmanna Akraborgarinnar um nótnabunka af orgeltónlist sem hann lá yfir á sjóferðum sínum. Þar mátti finna fjölbreytta tónlist sem Haukur safnaði til útgáfu fyrir organista og hentaði hinum ýmsu kirkjulegu athöfnum. Dæmi frá ungum starfsmanni: „Hvað eru brúðkaup án pedals?“ Ekki stóð á svari með brosi á vör, það væru jú ekki öll orgel landsins með fótspili.
Haukur naut gríðarlegrar virðingar í organistastéttinni. Organistar af öllum stigum um allt land sóttu í Sölvhólsgötu Hauks. Þar fengu menn andlega og líkamlega næringu, kennslu í öllum greinum kirkjutónlistarinnar, en ekki síst stuðning og hvatningu frá söngmálastjóranum. Haukur var guðfaðirinn, maestroinn, sálusorgarinn, kennarinn og kokkurinn. Allar leiðir lágu til Hauks og hann hafði einstakt lag á að leysa úr hverjum vanda. Vakinn og sofinn hjálpaði hann fólki frá morgni til kvölds, hafði samband við marga að eigin frumkvæði og spurði hvernig þeir hefðu það og hvort hann gæti eitthvað gert fyrir þá. Hann gaf öllum tíma og virtist alltaf hafa nóg af honum fyrir hvern sem er þrátt fyrir miklar annir. Haukur þurfti ekki að læra núvitund, hann var hún holdi klædd. Eftir hverja einustu útvarpsmessu hringdi hann í organistann, þakkaði fyrir tónlistina og hvatti til dáða. Námskeið hans fyrir organista og kóra í Skálholti voru slík þjóðargersemi að vart verður líkt við neitt.
Félag íslenskra organleikara minnist Hauks Guðlaugssonar með djúpri virðingu og þakklæti fyrir einstaka samleið. Innilegar samúðarkveðjur eru hér færðar frá félaginu til Grímhildar og fjölskyldu. Guð blessi minningu mikils listamanns og mannvinar.
F.h. Félags íslenskra organleikara,
Guðmundur Sigurðsson, fv. formaður.