Jóhanna Margrét Öxnevad fæddist 22. maí 1936. Hún lést 30. ágúst 2024. Útför fór fram 7. september 2024.
Mig langar að skrifa nokkur orð um frábæra konu sem nú er fallin frá. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast Margréti í gegnum vinskap við dætur hennar. Það var alltaf gaman að umgangast hana og í vinahópnum var rætt um hana sem elstu systurina og þá skemmtilegustu. Hún gat verið mjög hnyttin í tilsvörum og sá oft það kómíska í aðstæðunum. Margrét var sterkur persónuleiki, eldklár og rökvís.
Ég kom oft á Hamarsheiði og gisti þá oftast í Höllinni hjá Margréti enda var ég með þinglýst afnot af herbergi hjá henni. Hún var snillingur í að fá mig til að vinna alls konar verk fyrir sig sem ég gerði með glöðu geði enda fékk ég að launum heimalagaða kindakæfu sem ég fékk aldrei nóg af og margt annað góðgæti auk skemmtilegra samverustunda með henni.
Uppáhaldsminning mín af Margréti var í kringum hrunið. Hún var fastagestur á laugardagsmótmælunum, þá stormaði hún á Austurvöll íklædd mótmælakápunni sinni til að mótmæla ríkisstjórninni. Hún var með ríka réttlætiskennd og mjög róttæk og hafði dóttir mín orð á því að hún vissi ekki að svona eldri konur gætu verið svona róttækar.
Ég heimsótti hana í sumar á Dropann og sátum við góða stund úti í sólbaði en hún var mikill sóldýrkandi. Ekki vissi ég þá að þetta yrði í síðasta skipti sem við myndum hittast. Þrátt fyrir að af henni væri dregið þá glitti enn í kímni hennar og gleði.
Elsku systur og fjölskyldur, ég votta ykkur innilega samúð mína. Minning um frábæra konu lifir.
María.