Forsætisráðherra benti á veikleika í kjaraviðræðum

Kjarasamningar og kjaramál voru nokkuð til umræðu á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í gær þó að meginþungi umræðunnar væri orkumál. Kjarasamningar sem lokið var við í vor, og þeir sem fram undan eru, voru fulltrúum SA og Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra hugleiknir og almenn samstaða virðist um að þýðingarmikið sé að almenni markaðurinn hafi náð langtímasamningum.

En segja má að forsætisráðherra hafi í ræðu sinni snúið vörn í sókn þegar kemur að gagnrýni Samtaka atvinnulífsins á ríkisútgjöld. Samtökin hafa bent á að þau útgjöld hafi verið of rífleg og meira aðhalds sé þörf. Í ræðu sinni benti Bjarni á að í kjarasamningum, meðal annars þeim nýjustu, tíðkaðist það að leitað væri til ríkisins um aukin útgjöld til að loka samningunum. Þetta hefði haft veruleg áhrif á ríkisútgjöld og taldi hann nokkuð vanta upp á að SA tæki tillit til þessara krafna aðila vinnumarkaðarins í umræðum um ríkisútgjöld.

Þetta má til sanns vegar færa, þó að það breyti því ekki að auka þyrfti aðhald hjá hinu opinbera, bæði ríki og sveitarfélögum. En eins og Bjarni lagði áherslu á eiga samningar um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði að vera á milli atvinnurekenda og launþega en ekki að snúast um að gera kröfur á hendur ríkinu til að ljúka samningum. Slík kröfugerð er óheppileg vegna þess að hún veldur auknum ríkisútgjöldum og þar með auknum álögum á skattgreiðendur, en færir um leið ábyrgðina frá raunverulegum samningsaðilum.

Full ástæða er fyrir aðila vinnumarkaðarins að hlusta á þessi orð forsætisráðherra og hafa þau til hliðsjónar í næstu kjaraviðræðum.