Jón Áskell Jónsson bóndi og bifvélavirki fæddist á Selfossi 20. september 1939. Hann lést 29. júní 2024.
Foreldrar hans voru Jón Jónsson, f. 10.8. 1908, d. 1.2. 1993, og Sesselja Hróbjartsdóttir, f. 1.3. 1918, d. 4.3. 2000. Systkini hans eru Gunnar Valur, f. 21.11. 1943, Sigríður Kristín, f. 3.3. 1948, og Ragnhildur, f. 18.10. 1953.
Jón Áskell ólst upp í Söndu, Stokkseyri, til 18 ára aldurs en flutti þá til Selfoss. Hann bjó um tíma á Búrfelli, þaðan flutti hann að Skarði í Gnúpverjahreppi 1980, flutti síðan aftur á Selfoss og lést þar.
Jón kvæntist Guðbjörgu Kristinsdóttur, f. 20.11. 1942, d. 27.5. 2003. Börn hans eru Jón Rafn, f. 28.4. 1965, Ómar, f. 1.1. 1968, og Jónína, f. 28.6. 1970.
Útför hefur farið fram.
Kæri bróðir og vinur.
Á þessari stundu hugsa ég til æskuáranna sem voru stundum erfið en ég á líka afskaplega góðar minningar líka. Við áttum yndislega fjölskyldu, góða og duglega foreldra sem sáu okkur fyrir öllu. Þú varst góð fyrirmynd og gafst mér góð ráð út í lífið og vildir öllum vel enda stóðst þú fastur og heiðarlegur á þínum skoðunum. Þér þótti sérstaklega vænt um pabba og þið náðuð mjög vel saman, rædduð málin af skynsemi.
Þú fórst snemma í sveit og vannst ýmis störf til sjós og lands. Þú varst vel gefinn, áttir gott með að læra, verklaginn með afbrigðum. Þú tókst meistarapróf í bifvéla- og vélvirkjun og vannst við það. Einnig keyptir þú Skarð í Gnúpverjahreppi í félagi við sæmdarhjónin Sigurð og Jenný, og bar aldrei skugga á ykkar félagsskap.
Árið 2003 misstir þú þína ástkæru eiginkonu Guðbjörgu Kristinsdóttur. Reyndi það mikið á þig. Þú vannst úr þeirri stóru sorg með miklum sóma, stóðst þig eins og hetja. Árið 2023 veiktist þú, það var gott samband á milli okkar. Við höfðum oftar samband og trúnaður traustur. Viljum við þakka öllum vinum þínum sem heimsóttu þig á sjúkrabeð. Einnig viljum við þakka öllu því góða fólki er starfar á Ljósheimum Selfossi fyrir góða umönnun og hlýjar móttökur. Guð blessi ykkur öll.
Gunnar Valur Jónsson, Steinunn Jakobína Guðmundsdóttir.