50 ára Arnþór er borinn og barnfæddur í Kópavogi, ólst upp í gamla austurbænum en býr í Smárahverfinu. Hann er grafískur hönnuður að mennt frá København Nord og hefur verið grafískur hönnuður hjá Bílaumboðinu Öskju síðastliðin átta ár. Áhugamálin eru ljósmyndun, tónlist og crossfit.
Fjölskylda Eiginkona Arnþórs er Ingveldur K. Ragnarsdóttir, f. 1974, leikskólakennari og tanntæknir að mennt og er tanntæknir hjá Betra brosi. Börn þeirra eru Unnar Freyr, f. 1998, og Eva Diljá, f. 2004. Foreldrar Arnþórs eru hjónin Guðmundur Hanning Kristinsson, f. 1941, vélstjóri að mennt og starfaði lengst af hjá Siglingamálastofnun sem skipaskoðunarmaður, og Eyrún Þorsteinsdóttir, f. 1945, fv. rannsóknamaður á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, búsett í Álfabrekku, á æskuheimili Arnþórs.