Anna Guðbergsdóttir fæddist á Húsatóftum í Garði 6. september 1953. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 4. september 2024.
Foreldrar Önnu voru Guðbergur Ingólfsson, f. 1.8. 1922 á Litla-Hólmi, Gerðahr., d. 1.11. 1995, og Magnþóra Jakobína Þórarinsdóttir, f. 16.3. 1926 á Húsatóftum, Gerðahr., d. 11.7. 2008 í Keflavík.
Systkini Önnu eru Þórarinn Sveinn, f. 1944, Bergþóra f. 1946, d. 2024, Jens Sævar, f. 1948, d. 2010, Theodór, f. 1950, d. 2024, Rafn, f. 1952, Reynir, f. 1952, Magnús, f. 1955, d. 1997, og Ævar Ingi, f. 1962.
Anna giftist Kristjáni Gestssyni, f. 29.1. 1949, þann 30. desember 1972. Börn þeirra eru: 1) Gestur Þór, f. 1972. Eiginkona hans er Guðbjörg Heimisdóttir, f. 1976. Dætur þeirra eru Írena Björk, f. 1998, Anna Laufey, f. 2005, og Olga Lind, f. 2007. 2) Magnþóra, f. 1976. Eiginmaður hennar er Björn Þór Gunnarsson, f. 1976. Börn þeirra eru Karen Anna, f. 1996, Heiðrún Elva, f. 1999, Viktor Ingi, f. 2001, og Hulda Kristín, f. 2009. Sonarsonur þeirra er Kristopher Atlas, f. 2023. 3) Anna Kristín, f. 1982. Eiginmaður hennar er Karl Valur Guðmundsson, f. 1983. Dætur þeirra eru Þorbjörg Ýr, f. 2015, og
Hugrún Sif, f. 2018. 4) Hulda, f. 1984. Eiginmaður hennar er Andri Þór Erlingsson, f. 1984. Börn þeirra eru Soffía Náttsól, f. 2006, Kristófer Máni, f. 2010, Ragnhildur Sara, f. 2014, og Kristján Þórarinn, f. 2016. 5) Guðbergur, f. 1985. Eiginkona hans er Karen Hrund Heimisdóttir, f. 1982. Börn þeirra eru Emilía Máney, f. 2010, Helga Laufey, f. 2013, og Guðrún Anna, f. 2013, d. 2013. Sonur Karenar úr fyrra sambandi er Víðir Snær, f. 2006.
Anna ólst upp í Garðinum í níu systkina hópi. Hún starfaði í fiski frá barnsaldri, bæði í frystihúsi og við saltfiskverkun föður síns. Hún fór í Húsmæðraskólann á Staðarfelli veturinn 1968-1969. Hún kynntist Kristjáni þegar hann var við smíðar hjá föður hennar í Garðinum árið 1971 og felldu þau fljótt hugi saman og voru óaðskiljanleg síðan.
Anna fluttist að heimili Kristjáns í Forsæti 2 í Flóa árið 1972. Þau byggðu sér hús í Forsæti 4 og fluttu inn í það árið 1973 ásamt Gesti Þór syni sínum. Þau stunduðu kartöflurækt alla tíð og hafa ætíð verið afar samhent í búskapnum og lagt mikinn metnað í kartöfluræktina. Þau ráku einnig kúabú frá árinu 1988-2005.
Útför Önnu fer fram frá Selfosskirkju í dag, 20. september 2024, klukkan 13.
Húmað hefur að kvöldi hjá elsku mömmu, hetjunni minni.
Mamma og pabbi mynduðu frá fyrstu kynnum fallega heild í öllum lífsins verkefnum. Það er ekki sjálfgefið að eiga heilsteypta, umhyggjusama og samrýmda foreldra, fyrir það verð ég ævinlega þakklát.
Við systkinin fengum gott uppeldi. Við fengum pláss en um leið festu og reglur. Við fengum yfirleitt að leika okkur um allt hús og var stofan ósjaldan undirlögð af dóti. Þolinmæði mömmu gagnvart þessu var ótrúleg því hún vildi hafa hreint og fínt í kringum sig. Það var ekki óalgengt á unglingsárum okkar systkina að vakna við kústhljóð, Deep Purple í græjunum og angan af lambalæri úr ofninum.
Í huga mömmu og pabba var enginn bíltúr of langur og oft var nesti með í för í gamla góða nestisdallinum. Það var t.d. ekkert mál að skreppa eftir kvöldmjaltir til ömmu og afa suður í Garð eða alla leið í Skorradal.
Mamma var handlagin og prýða hannyrðir hennar veggi heimilisins. Þá voru þær ófáar peysurnar sem duttu af prjónunum á fjölskylduna og nokkur jóladressin saumuð á okkur systkinin.
Það var hægt að leita ráða hjá mömmu um allt, þar var hún alltaf rödd skynseminnar. „Ég verð að hringja í mömmu,“ var ósjaldan fyrsta hugsun þegar eitthvað markvert gerðist í lífinu og oftar en ekki fann hún á sér ef maður hafði merkilegar fréttir að færa.
Ég er þakklát fyrir hversu vel dætur mínar þekktu ömmu sína, enda oft rúllað daglangt í sveitina. Hún hafði alltaf tíma til að spjalla, púsla, fara í göngutúra og fjöruferðir og elda uppáhaldsmatinn þeirra. Dætur mínar tala oft um ömmugraut, sem var besti hafragrautur í heimi. Þeirra fyrsta hugsun þegar saumspretta kom á bangsa var líka alltaf sú að amma gæti örugglega lagað hann. Amma gat nefnilega allt.
Mamma barðist hetjulega og með aðdáunarverðu æðruleysi við krabbamein seinasta eina og hálfa árið. Í gegnum baráttuna fór hún á þrjóskunni með dyggum og ómetanlegum stuðningi pabba. Þetta gerðu þau saman eins og allt annað. Við rifjuðum nýlega upp stundirnar þegar við sátum við eldhúsborðið og spiluðum kapalspil, oftast með te í glasi. Kapalspilið náðum við ekki að spila aftur en ég náði síðasta kaffitímanum með mömmu í Forsæti. Þá fengum við okkur te í glas og brauð með eggi og héldum svo upp á sjúkrahús. Ekki hefði ég trúað að við pabbi værum þá að fylgja mömmu úr Forsæti í hinsta sinn. Við ætluðum bara rétt að skreppa.
Mamma fór ekki leynt með hversu stolt hún var af lífsverkinu. Skarðið sem hún skilur eftir er stórt og verður aldrei fyllt. Við sem eftir stöndum búum vel að dýrmætum og góðum minningum og þökkum fyrir þá fyrirmynd sem hún er okkur í lífinu. Móttökurnar hafa verið góðar í Sumarlandinu og ljúfsárt að hugsa til þess að litla nafna hennar hafi nú fengið ömmu til sín, ömmu sem alltaf veitir yl og styrk með sínum hlýju höndum og faðmi.
Mamma kvaddi yfirleitt með orðunum „farðu varlega“. Þetta voru hennar orð til að tjá okkur væntumþykju sína. Á sárri kveðjustund er því við hæfi að segja takk fyrir allt, elsku mamma mín, farðu varlega og hvíldu í Guðs friði.
Anna Kristín.
Elsku mamma.
Söknuðurinn er sár. Missirinn mikill.
Þú sem varst með stærsta hjartað og alltaf til staðar fyrir okkur. Kletturinn, kærleikurinn og festan í lífinu og tilverunni. Þú og pabbi, samhent eins og samofin sál með sömu sýn á lífið.
En lífið gefur og lífið tekur.
Það er stórt skarð hoggið í líf okkar. Við vorum svo lánsöm að fá að hafa þig sem hluta af lífinu okkar, börnin mín fengu að alast upp að stórum hluta með ömmu í næsta húsi. Ég mun aldrei geta þakkað að fullu fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur, ástina og væntumþykjuna sem þú hefur sýnt okkur alla tíð. Þolinmæðin við barnabörnin sem þú tókst alltaf á móti með bros á vör og til í að gefa þeim allan heimsins tíma. Þess munu þau alltaf minnast.
Það er erfitt að hugsa til þess að hafa þig ekki í næsta húsi, hitta þig ekki á hlaðinu og fá þig ekki yfir í kvöldkaffi og spjall með pabba, að elda möndlugrautinn á aðfangadag og vera með okkur á aðfangadagskvöld. Þær stundir sem við höfum átt saman eru óteljandi og ómetanlegar.
Þrátt fyrir breytingar síðasta eina og hálfa árið vegna veikinda varstu áfram til staðar, gafst þér tíma fyrir alla. Þú komst kannski sjaldnar yfir til okkar en við komum þá bara til þín og pabba og áttum gæðastundir, gott spjall um allt milli himins og jarðar. Krakkarnir áttu alltaf sinn stað hjá þér þó að dagarnir gætu verið erfiðir. Það lifnaði alltaf yfir þér við að fá þau í heimsókn – þá skipti ekkert annað máli.
Við áttum mörg opinská og hreinskilin samtöl, sérstaklega síðustu mánuði. Skófum ekki af neinu, hvort sem það sneri að veikindum, líðan, skoðunum, tilfinningum, minningum eða öðru. Ég talaði um það sem lá mér á hjarta og þú það sem lá þér á hjarta. Þú hjálpaðir mér, leiddir mig áfram, studdir mig í mínum verkefnum og ég reyndi að gera allt sem ég gat fyrir þig til að létta undir þegar á reyndi. Líkt og þú leiddir mína litlu hönd áður þá reyndi ég að leiða þína hönd í gegnum veikindin eins vel og ég gat. Þetta var ekki í fyrsta skipti á ævinni sem þú fékkst svo erfitt verkefni í hendur. Síðast sigraðir þú í baráttu við illvígt krabbamein. Það gerðuð þið pabbi saman sem eitt með ykkar einstaka æðruleysi, krafti, trú og vilja til að sigra. Nú sigraði meinið, þrátt fyrir hetjulega baráttu ykkar pabba.
Lokabaráttan stóð yfir á sama tíma og jarðeldar loguðu. Eldar sem þú horfðir á brjótast upp um jarðskorpuna í beinni, kvöldið áður en þú fórst þína síðustu ferð frá Forsæti. Eldar sem slokknuðu daginn eftir að þú kvaddir okkur í síðasta skipti. Kraftar þínir dvínuðu á sama tíma og dró úr kröftum gossins. Og að lokum slokknaði allt og varð hljótt.
Elsku mamma. Takk fyrir lífið sem þú gafst mér, þrjóskuna, ákveðnina, þrautseigjuna og styrkinn. Fyrir allt sem þú færðir mér og mínum. Í þér á ég mína fyrirmynd. Sorg og söknuður eru sterkar tilfinningar sem sækja að en á sama tíma minnist ég alls hins góða sem við áttum. Minningar af góðri æsku sem þið pabbi bjugguð til saman, minningar um mömmu sem kenndi mér svo margt og var alltaf til staðar.
Hulda Kristjánsdóttir.
Í dag kveðjum við elskulega móður mína sem þó fékk aðeins að fylla sjö tugi á sínu æviskeiði sem þykir ekki mikið á mælikvarða samtímans. Það má segja að ævikvöld mömmu hafi aðeins verið nýhafið þegar hún féll frá. Söknuðurinn er mikill, á sama tíma fyllist hjarta mitt mikilli hlýju þegar ég hugsa til mömmu.
Mamma var alveg einstök kona. Hún var réttsýn, yfirveguð, þrautseig, regluföst og jú nokkuð stríðin. Hún hafði lag á því að láta barnabörnunum líða eins og þau væru mikilvægustu persónur í veröldinni. Hún var harðdugleg og passaði alltaf upp á það að okkur börnunum liði vel. Ég naut góðs af því að vera yngsta barnið og fékk smá umframdekur eins og stundum vill verða.
Þegar ég hugsa til berskunnar fyllist ég þakklæti fyrir það góða, ástríka og reglusama heimili sem þú og pabbi veittuð okkur í Forsæti. Það var mikið frelsi sem við bjuggum við í sveitasælunni. Þú og pabbi voruð samhent í öllu sem þið tókuð ykkur fyrir hendur. Mínar fyrstu minningar tengjast allar samveru. Hlutirnir voru gerðir í sameiningu í Forsæti og man ég eftir mér í kartöfluupptökunni, fjósinu eða heyskapnum sem litlum polla. Eflaust þótti mér ég vera að gera mikið gagn í sveitaverkunum á þessum aldri frekar en að þvælast fyrir. Þessar stundir eru ómetanlegar þegar litið er til baka.
Ég mun aldrei gleyma samtölunum sem við áttum núna síðustu misserin. Þegar ljóst var að líkaminn væri að bregðast þínum skarpa huga sýndir þó ólýsanlegt æðruleysi. Þinn ótrúlegi sálarstyrkur kom þér í gegnum síðustu vikurnar með mikilli reisn. Á þessum tíma ræddum við um liðna tíma, góðar stundir, ýmsar vangaveltur um heima og geima, hugleiðingar um framtíðina og hluti sem ég lofaði þér að passa upp á. Þín styrka sál lifir áfram og veit ég að það eru endurfundir hjá þér og nöfnu þinni, Guðrún Önnu okkar.
Þú varst alltaf svo góðhjörtuð og stóðst með þínu fólki alla leið. Þér varð tíðrætt um að börnin þín væru það sem þú værir stoltust af í lífinu. Það er gagnkvæmt, ég er óendanlega stoltur af þér og pabba og þú ert svo sannarlega hetjan mín. Þú hefur stutt mig í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur í lífinu af heilum hug sem er svo dýrmætt. Þegar eitthvað mátti betur fara bentir þú á það með þínum hætti. Þá hlustaði ég á þig og fór eftir því. Það er þér að þakka hvar ég er staddur í dag með því að kenna mér góðu gildin þín.
Það er dýrmætt að vita til þess hvað pabbi hugsaði vel um þig á meðan á veikindum þínum stóð og gerði þér kleift að dvelja heima og eiga eins venjulegt líf og sjúkdómurinn bauð upp á. Einnig vil ég koma þökkum til Huldu systur minnar af alhug sem reyndist bæði þér og pabba vel í næsta húsi. Ég þakka þér samfylgdina og allt það góða veganesti sem þú gafst mér fyrir mína lífsgöngu. Ég er svo þakklátur fyrir okkar samverustundir og takk fyrir móðurástina.
Nú ríkir kyrrð í djúpum dal,
þótt duni foss í gljúfrasal,
í hreiðrum fuglar hvíla rótt,
þeir hafa boðið góða nótt.
(Magnús Gíslason)
Guðbergur.
Elsku mamma mín. Það er svo óraunverulegt að þú sért ekki lengur með okkur. Að geta ekki lengur tekið upp símann og hringt í þig. Að þú og pabbi birtist ekki saman í dyrunum eitthvert kvöldið, jafnvel með kartöflur í poka. Síðustu daga hef ég hugsað svo margt. Er alltaf rétt búin að slá inn númerið þitt til að segja þér eitthvað en man svo. Þetta er nýr raunveruleiki sem verður erfitt að venjast. Mamma mín sem var alltaf til staðar, sama á hverju gekk. Fjölskyldan var þér meira virði en allt og það var svo ómetanlegt að við pabbi og systkinin gátum öll verið með þér síðustu metrana. Þú kvaddir með fólkið þitt í kringum þig. Þú kenndir okkur svo margt og þið pabbi hafið verið dásamlegar fyrirmyndir okkar allra. Ást, umhyggja og stöðugleiki eru orðin sem mér detta í hug. Börnin okkar Bjössa hafa oft talað um hvað það hefði alltaf verið gott að hitta ömmu og afa. Alltaf knús og faðmlag, bæði við komu og brottför. Þau fundu svo vel fyrir væntumþykju og ást og það hafa þau öll tileinkað sér. Takk fyrir allt elsku mamma. Ég elska þig.
Heimsins þegar hjaðnar rós
og hjartað klökknar.
Jesús gefðu mér eilíft ljós
sem aldrei slökknar.
(Höf. ók.)
Magnþóra Kristjánsdóttir.
Lífið er líkt og árstíðirnar; það byrjar á blómstrandi vori, vex og dafnar á hlýjum sumardögum, en með haustinu kemur sá tími þegar við verðum að kveðja. Það er með sorg í hjarta, en líka þakklæti, sem við kveðjum Systu, konu sem skipaði mikilvægan sess í lífi okkar frá æsku. Öll okkar uppvaxtarár var hún hluti af hversdagslífinu, hvort sem það var þegar við eyddum sumardögum í leik við frændsystkini okkar í fallega garðinum í Forsæti, gæddum okkur á gómsætu heimabökuðu kanilsnúðunum og vínarbrauðinu hennar eða fórum í ógleymanlegar dagsferðir með allri stórfjölskyldunni. Samgangurinn á milli heimila okkar í sveitinni var mikill og það var nánast daglega sem við krakkarnir skottuðumst yfir túnið sem liggur á milli bæjanna. Á vissan hátt voru fjölskyldur okkar nánast sem ein stór heild í þá daga, og tengslin voru sterk og traust.
Systa var röggsöm, sterk og einstaklega dugleg kona. Hún var með góðan húmor og þó svo að stundum hafi ævintýramennskan í leik okkar krakkanna „í hverfinu“ gengið fulllangt þá hafði Systa á köflum lúmskt gaman af uppátækjaseminni. Hún gat líka verið skemmtilega stríðin á sinn hlýlega hátt. Hún var fjölskyldu sinni mikill styrkur allt þar til yfir lauk og samheldni hennar og Kristjáns einstök í bæði leik og starfi. Þá var hún tengdaforeldrum sínum mikil stoð og stytta á meðan þau lifðu og ríkti mikill kærleikur þeirra á milli.
En líkt og trén missa lauf sín að hausti hefur Systa nú kvatt hina jarðnesku veröld. En við vitum að trén munu laufgast aftur að vori. Á sama hátt mun minningin um hana lifa áfram í tilveru fólksins hennar og allra þeirra sem voru svo lánsamir að þekkja hana.
Með djúpri virðingu og þakklæti kveðjum við Systu sem skilur eftir sig ómetanlegt spor í lífi okkar.
Elsku Kristján, Gestur, Magnþóra, Anna Kristín, Hulda, Guðbergur og fjölskyldur, megi allar góðar vættir umvefja ykkur á þessum erfiðu tímum.
Þórunn Elfa, Reynir, Heimir Rafn, Unnur
og Ingunn Harpa.
Systradætur, þú fædd í september og ég í október. Þú dvaldir langdvölum heima hjá mér og ég hjá þér. Mæður okkar létu sauma á okkur alveg eins föt og okkur fannst við voða fínar. Amma Sveina horfði á þig út um eldhúsgluggann og andvarpaði. Henni fannst litla granna dótturdóttir sín bera allt of þungar byrðar, allt of marga poka heim úr búðinni í Gerðahverfi í Garði. En þú varst þrautseig. Lést þunga pokana á jörðina í smá stund og hvíldir þig. Settir síðan í svartar brýnnar, blést toppnum frá andlitinu og lést ekkert stoppa þig. Þú áttir griðastað hjá ömmu og afa. Þar áttir þú lítinn skáp í hillusamstæðu sem þú geymdir dótið þitt í, dúkku sem var svört á litinn og ýmislegt fleira. Skápurinn var læstur og enginn fékk aðgang að honum nema þú. Ég man að fyrst fannst mér þetta skrítið og kannski var ég dálítið afbrýðisöm, en ég áttaði mig fljótt á því að það getur verið erfitt að passa dótið sitt á stóru heimili; sjö bræður og tvær systur og þú önnur þeirra og þriðja yngst. Við vorum ekki í mjög miklum tengslum eftir að þú fluttir í sveitina og ég utan, en það voru samt alltaf send jólakort.
Í fyrra skiptið sem þú veiktist hafði ég ekki strax samband, en þú sýndir því skilning. Þegar ég frétti af veikindum þínum núna, í seinna skiptið, sló ég strax á þráðinn. Ég er þakklát fyrir símtölin sem við áttum. Við rifjuðum upp samverustundir og leiki á hvítum sandi við Garðskagavita, hve gaman það var að leika sér á leikvellinum í Ytri-Njarðvík sem var sá allra besti á landinu á sínum tíma og við hlógum. Við töluðum um foreldra okkar, systkini, ömmu og afa og börnin okkar. Þú varst svo hreykin af börnunum þínum og sagðist hafa vitað frá blautu barnsbeini að það eru börnin manns, afkomendurnir sem skipta mestu máli.
Ég votta Kristjáni, fjölskyldu og vinum Systu dýpstu samúð mína.
Hulda Karen
Daníelsdóttir.