Lögreglumenn Um 70% lögreglumanna segjast telja í könnun að grunnlaun þurfi að hækka á bilinu 121 til 160 þúsund kr. á næsta samningstíma.
Lögreglumenn Um 70% lögreglumanna segjast telja í könnun að grunnlaun þurfi að hækka á bilinu 121 til 160 þúsund kr. á næsta samningstíma. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Kjaraviðræður Landssambands lögreglumanna (LL) og samninganefndar ríkisins (SNR) um endurnýjun kjarasamninga fyrir lögreglumenn eru að þokast af stað þessa dagana en lögreglumenn kolfelldu í sumar nýjan kjarasamning sem fulltrúar LL og ríkisins undirrituðu í júní.

Haldinn hefur verið einn samningafundur eftir að viðræður fóru í gang á nýjan leik og boðað er til annars fundar í dag.

Afstaða lögreglumanna var nokkuð afdráttarlaus þegar greidd voru atkvæði um gerðan samning í sumar. Alls tóku 82,8% félagsmanna þátt og sögðu 67,9% nei en 30,9% já. Á kjörskrá voru 809 lögreglumenn.

Aðalástæða þess að samningurinn var felldur er rakin til mikillar óánægju meðal lögreglumanna með stofnanasamning frá árinu 2021 og framkvæmd hans, sem þeir telja að ekki hafi verið staðið við og hafi ekki skilað þeim ávinningi sem vonast var til.

„Við gerðum könnun á ástæðum þess að kjarasamningurinn var felldur og fengum það út úr henni að ástæðan væri óánægja með stofnanasamninginn vegna meintra vanefnda á honum,“ segir Fjölnir Sæmundsson, formaður LL.

Landssambandið fékk Vörðu, Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, til að greina þetta betur með því að leggja könnunina í sumar fyrir lögreglumenn um áherslur þeirra og voru þeir einnig spurðir um fjárhagsstöðu sína o.fl. Svöruðu 539 lögreglumenn könnuninni.

Í umfjöllun um niðurstöður könnunarinnar á vef LL segir að ráða megi af þeim að aðrar ástæður en óánægja með stofnanasamninginn, á borð við krónutöluhækkanir og prósentuhækkanir, séu það langt á eftir í svörum lögreglumanna að ljóst sé að kjarasamningurinn hafi fyrst og fremst verið felldur í sumar vegna óánægju með stofnanasamninginn. 72% þeirra sem tóku afstöðu vilja sjá breytingar á honum. „Þær breytingar sem lögreglumenn vilja sjá á stofnanasamningi eru í langflestum tilvikum að teknar verði upp aftur sjálfvirkar starfsaldurshækkanir. Þar langt á eftir koma áherslur um að meira verði greitt fyrir námskeið og endurmenntun og að greitt sé fyrir háskólamenntun. Um 31% vill fella stofnanasamning úr gildi og þá sögðust 26% vilja að sömu starfsstig fengju sömu grunnlaun. Þá svöruðu tæplega þrír af hverjum fjórum því til að stofnanasamningur skili sér ekki hærri launum […],“ segir í umfjölluninni.

Fjölnir segir óánægjuna fyrst og fremst snúa að launatengdum þáttum í stofnanasamningnum, margir vilja innleiða sjálfvirkar starfsaldurshækkanir á nýjan leik. Könnunin sýndi þó einnig að sumir vilja að hækkanir í stofnanasamningi eigi sér stað á grundvelli persónubundinna þátta. Ljóst sé að lagfæra þurfi stofnanasamninginn í viðræðum við ríkið en þar bendi svolítið hver á annan, ríkið á lögreglustjórana og lögreglustjórarnir á ríkið. Stofnanasamningar eru gerðir við embættin sem segjast aftur á móti ekki fá nógu mikið fé frá ríkinu til að geta staðið við þá.

Í umfjöllun LL um könnunina kemur fram að um 70% svarenda telja að grunnlaun þurfi að hækka á bilinu 121-160 þúsund krónur á þeim samningstíma sem fyrri tillaga að kjarasamningi fól í sér. Almennt feli launahækkanir nýgerðra kjarasamninga í sér um 90 þúsund króna hækkanir á um fjögurra ára samningstíma.

Fjárhagsstaða almennt betri en annarra hópa

Einnig var spurt um fjárhagsstöðu lögreglumanna og kemur fram að samkvæmt mati Vörðu eftir greiningar og samanburð við aðra hópa, þá sé fjárhagsstaða lögreglumanna almennt séð betri en annars launafólks á alla mælikvarða fjárhagsstöðu.

„Þannig eiga lögreglumenn auðveldara með að ná endum saman, þeir meta fjárhagsstöðu sína betri núna en fyrir ári, lægra hlutfall þeirra býr við efnislegan skort og lægra hlutfall er með yfirdrátt, smálán eða önnur skammtímalán heldur en samanburðarhópar. Þá er lægra hlutfall meðal lögreglumanna en annarra sem ekki hafa haft efni á grunnþáttum fyrir börn sín,“ segir í umfjöllun LL.

Eftir sem áður býr hluti lögreglumanna við slæma fjárhagsstöðu. „Þannig sögðust 7% eiga erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman en þetta hlutfall er þó mun lægra en hjá öðrum viðmiðunarhópum þar sem það liggur í um 15%. Þá segjast 6% búa við skilgreinda fátækt en hlutfallið almennt í öðrum mælingum er um 11%. Þá höfðu um 7% ekki efni á fjórum eða fleirum þeirra grunnþátta sem spurst var fyrir um og varða börn. Þrátt fyrir að hér sé ekki um stóran hóp LL-félaga að ræða er ljóst að taka verður þessum niðurstöðum alvarlega,“ segir á vef LL.