Anna Jóa
Á Kjarvalsstöðum stendur yfir forvitnileg sýning sem ber heitið Átthagamálverkið. Þar má sjá myndir af heimahögum ýmissa lærðra sem leikra íslenskra málara frá liðinni öld. Myndirnar eru af því tagi sem margir kannast við af stofuveggjum heimila eða byggðasafna víða um land, en slík verk eru einnig varðveitt í listasöfnum. Á sýningunni kennir ýmissa grasa og er komið við í mörgum landshlutum. Þarna birtast æskuslóðir listamanna eins og Þórarins B. Þorlákssonar í Vatnsdal, í blýantsteikningu gerðri af ungri Kristínu Jónsdóttur sést Hjalteyri og þar hjá er einnig málverk frá sama stað eftir „Kötu saumakonu“, eða Katrínu Jósepsdóttur, sem hóf sjálflærð að mála á efri árum. Sjá má mynd frá Patreksfirði eftir Kristján Davíðsson, Hornafjarðarmynd eftir Svavar Guðnason og Herðubreið eftir Stefán Jónsson frá Möðrudal, Stórval, en náttúra æskustöðvanna leitaði sterkt á huga þessara listamanna. Sumir þeirra vitjuðu heimaslóða sinna reglulega og má þar nefna Flóann í verkum Ásgríms Jónssonar, Borgarfjörð eystra í myndum Kjarvals og Vestmannaeyjar Júlíönu Sveinsdóttur, en þessir staðir voru þeim mikilvæg uppspretta sköpunar. Í tilviki Páls Guðmundssonar frá Húsafelli er umhverfið þar miðlægur sköpunarvettvangur listamannsins. Fjölbreytni einkennir sýninguna og er ljóst að sýningarstjórinn Markús Þór Andrésson hefur leitað víða að listamönnum og verkum þeirra. Þarna má kynnast verkum eftir prýðilega áhugalistamenn og sjaldséðum verkum þekktari listamanna.
Á yfirlitssýningu af þessu tagi verða þó óhjákvæmilega einhverjir út undan sem allt eins hefðu átt heima þar. Má þar nefna Magnús Jónsson (1887-1958), prófessor, alþingismann og ötulan listmálara, en verk hans frá ýmsum stöðum má finna á heimilum, söfnum og stofnunum víða um land auk altaristaflna í Mælifellskirkju og Viðvíkurkirkju í Skagafirði og Svalbarðskirkju á Svalbarðsströnd. Umrædd sýning á staðháttamálverkum frá síðustu öld er kveikjan að þessum pistli um verk Magnúsar, en ég þekki vel til verka hans og raunar var hann langafi minn.
Til er fjöldi verka eftir Magnús og eru myndverk eftir hann reglulega boðin upp hér á landi og jafnan kennd við Magnús Jónsson dósent. Hann hóf feril sinn við guðfræðideild Háskóla Íslands sem dósent og festist sá titill við hann, var reyndar gjarnan kallaður Mangi dós, einnig eftir að hann fékk prófessorsstöðu. Ég ólst upp við myndir hans á stofuveggjum og til er saga af mér þriggja ára þegar ég kom ásamt móður minni í fundarherbergi sjúkrahússins á Sauðárkróki, þar sem faðir minn var við læknisstörf, og sýndi hún mér mynd eftir langafa þar á vegg. Þegar við komum aftur í fundarherbergið nokkru síðar benti ég á myndina: „Sjáðu, þarna er myndin eftir afa löngutöng!“
Magnús Jónsson fæddist í Hvammi í Norðurárdal, sonur Skagfirðingsins Jóns Ólafs Magnússonar prests og Steinunnar Guðrúnar Þorsteinsdóttur húsmóður frá Úthlíð í Biskupstungum. Eldri bróðir hans var Þorsteinn Jónsson, þekktur sem rithöfundur undir skáldanafninu Þórir Bergsson. Fjölskyldan flutti árið 1888 til Skagafjarðar, þar sem bræðurnir ólust upp á prestsetrunum á Mælifelli og síðar Ríp í Hegranesi. Magnús Jónsson var þjóðkunnur maður á sinni tíð og fjölhæfur með eindæmum. Hann var sem fyrr segir kennari í guðfræði við Háskólann og starfaði m.a. einnig sem prestur í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum og á Ísafirði, gegndi stöðu rektors Háskóla Íslands, var alþingismaður, ráðherra, ritstjóri, formaður fjárhagsráðs, útvarpsráðs og Listvinafélagsins, og samdi verk á sviði guðfræði, stjórnmála og sögu – m.a. bækur um Alþingishátíðina 1930, Pál postula og skagfirskt mannlíf til forna – og þótti leiftrandi ræðumaður. Til er kostuleg saga af erlendum gestum sem vissu vart hvaðan á þá stóð veðrið þegar þeir voru kynntir fyrir framámönnum á ýmsum vettvangi og hittu þá í þrígang sama manninn, nefnilega Magnús Jónsson.
Eitt af því sem einkenndi þennan atorkumann var lifandi áhugi fyrir umhverfinu og þörf fyrir að birta það í myndum og máli, stundum reyndar bundnu máli. Hann varð snemma listhneigður og var 15 ára gömlum „komið til húsa hjá Jóni Helgasyni dósent við Prestaskólann, síðar biskupi“, eins og segir í bók Björns Th. Björnssonar, Íslenzk myndlist. Þar fékk Magnús litakassa og vatnslitapappír í jólagjöf og tók að stæla myndir Jóns „með dæmalausu kjarkleysi“, að eigin sögn, en fór svo að mála landslagsmyndir að ári liðnu. Síðar naut hann leiðsagnar Ásgríms Jónssonar, varð á fullorðinsárum liðtækur olíu- og vatnslitamálari og sýndi verk sín á einkasýningum og samsýningum.
Magnús málaði staði víða um landið en einnig erlendis. Háskóli Íslands á röð vatnslitamynda sem hann málaði í Palestínu árið 1939 og eru slíkar myndir einnig í bók hans og Ásmundar Guðmundssonar, Jórsalaför. Þá prýða vatnslitamyndir hans frá ferð til Kína árið 1956 bókina Kínaævintýri eftir Björn Þorsteinsson sagnfræðing. Ljósmyndun og framköllun varð snemma áhugamál og má nefna ljósmyndir hans og eiginkonunnar, Bennie Lárusdóttur, frá starfsdvöl meðal Vestur-Íslendinga 1912-15. Þótt dagar Magnúsar væru annasamir vissi hann fátt betra en að bregða sér á vinnustofuna í lok dags eða, eins og Björn Th. orðar það, „átti hann til að fleygja málaradóti sínu upp í bíl og þeysast upp á Kjalarnes“, þar sem hann reisti trönur sínar úti í náttúrunni og gaf sig málaralistinni á vald. Slík málverk, einkum á síðari hluta ferilsins, voru gjarnan frjálslega máluð, undir áhrifum frá síðimpressjónisma, Ásgrími og Kjarval. Litir og trönur voru gjarnan með í för á ferðum um landið og hann átti það til að mála mynd af æskustöðvum fólks eftir pöntun og gerði staðháttum iðulega góð skil. Verk hans hafa því mikið heimildargildi. Og vitaskuld málaði Magnús átthaga sína; landslag og mannvirki í Norðurárdal og Skagafirði. Í viðtali einu nefnir hann hversu vænt honum þyki „um Skagafjörðinn – Mælifellshnjúkinn, og það hefir mikið að segja að þykja vænt um fyrirmyndina sína“. Einnig liggur eftir Magnús nokkur fjöldi verka frá Snæfellsnesi, m.a. frá Bjarnarhöfn þar sem faðir hans tók við búi eftir að hann lét af prestsskap. Síðar varð Reykjavík heimahaginn, þar sem hann bjó ásamt fjölskyldu sinni á Laufásvegi 63. Þar leigði Jóhannes Kjarval hjá þeim herbergi um það leyti er hann hafði vinnuaðstöðu í Landspítalanum sem þá var í byggingu. Leiguna greiddi Kjarval í formi forláta málverks frá Þingvöllum sem amma mín fékk síðar í brúðkaupsgjöf en er nú í vörslu Listasafns Íslands. Sjálfum þótti Magnúsi skemmtilegast að mála á Þingvöllum: „litirnir, gjárnar – öll jörðin er þar mögnuð einhverju afli, sem hvergi annars staðar er að finna.“
Varðandi sérstöðu Magnúsar í íslensku listalífi bendir Björn Th. réttilega á að þótt hann hafi verið að mestu sjálflærður í listinni var hann að öðru leyti hámenntaður og setur það vissulega svip á myndlistariðkun hans. Hann var alla tíð ötull stuðningsmaður menningar og lista og leit á sig sem þátttakanda í þeirri gerjun. Um fyrstu einkasýninguna, í Listvinasalnum á Freyjugötu árið 1954, segir í Vísi að hátt í 2.000 manns hafi sótt hana, að það sé mesta aðsókn á sýningu í Listvinasalnum og að fjölmörg verk hafi selst. Önnur einkasýning hans, í Bogasal Þjóðminjasafnsins, var yfirstandandi við andlát hans 2. apríl 1958. Þá tók hann þátt í samsýningum, m.a. sýningu Listvinafélagsins í Barnaskólanum árið 1921 og Listsýningu Bandalags íslenzkra listamanna í Garðastræti árið 1941. Í tilefni sjötugsafmælisins 26. nóvember 1957 birtist sama dag viðtal við hann í Alþýðublaðinu þar sem hann segir, aðspurður um málaralistina: „Já, það er gott að eiga hugðarefni. Maður kemur heim til sín og sezt að því, þá gleymir maður öllum erjum dagsins, hverfur inn í nýja veröld, unir þar sem nýr maður. Ég fékk pappír og liti hjá föður mínum og málaði alla postulana, síðan málaði ég oft, og því meir, sem aldurinn færðist yfir mig og mest eftir sextugt. Það er annað líf mitt í þessu lífi. […] Ég ann málaralistinni mjög. Ég gæti ekki unnið eins og ég hef gert, hefði ég ekki notið hennar.“
Höfundur er myndlistarmaður og listfræðingur.