Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Annarra manna peningar eiga að vera frjáls gæði. Annarra manna fasteignir eiga að vera „óhagnaðardrifin eign“.

Vilhjálmur Bjarnason

Íslensk umræðuhefð gerir ráð fyrir því að allt sem greiða þarf fyrir sé rán. Umræðuhefðin gerir jafnframt ráð fyrir því að seðlar og mynt séu algildur sannleikur. Þegar málefni verða örlítið flóknari en ein vídd, eins og þegar hlutlægar mælingar, eins og neysluverð, eru mátaðar við algildan sannleik, þá flækjast málefni í höfðum fólks.

Að ekki sé talað um þriðju víddina, sem kann að vera harður gjaldmiðill, eins og steinsteypa.

Annarra manna peningar eiga að vera frjáls gæði. Annarra manna fasteignir eiga að vera „óhagnaðardrifin eign“. Það þarf ekki merkilega málvísindamenn til að leiða rök að því að óhagnaður þýðir tap.

Hvað á það að þýða að segja fólki að danskir lífeyrissjóðir stundi „óhagnaðardrifna“ leigustarfsemi? Íslenskir lífeyrissjóðir hafa aðeins eina skyldu og hún er að greiða sjóðfélögum lífeyri eftir að starfsævi lýkur. Framlag í lífeyrissjóð er ekki skattur. Framlag í lífeyrissjóð byggir upp fjáreign fyrir sjóðfélaga, enda þótt sú eign kunni að vera skilyrt og með skattakvöð, eins og í sameignarsjóðum. Séreignarsparnaður er fjáreign með skattakvöð. Hvorugs er getið í skattframtölum einstaklinga.

Peningar og lánsfé

Reyndar er það svo að peningar í víðasta skilningi eru fjáreignir, fasteign er ekki peningar, því fasteign er almennt ekki samþykkt til lúkningar skulda. Það er skilyrði til að geta kallast peningar að fjáreignin sé almennt samþykkt til lúkningar skulda.

Það er eðlilegt að gerðar séu sérstakar kröfur til þeirra fyrirtækja sem höndla með almannahagsmuni í bráð og lengd.

Á heimasíðu fjármálaeftirlits Seðlabankans er fjallað um einingar tengdar almannahagsmunum. Þar segir:

· Lánastofnanir, vátryggingafélög, lífeyrissjóðir og útgefendur verðbréfa, sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum markaði, eru í lögum um endurskoðendur og endurskoðun nr. 94/2019 og lögum um ársreikninga nr. 3/2006 skilgreind sem einingar tengdar almannahagsmunum (e. public interest entities).

Ritari telur að bæta megi við þessa upptalningu veitufyrirtækjum og samgöngufyrirtækjum, eins og skipafélögum og flugfélögum, olíufélögum og jafnvel fyrirtækjum í smásöluverslun sem búa við fákeppnisskilyrði, þar sem fyrirtækin koma sér í aðstöðu til að hafa það gott. Neytendur eiga að fá sérstaka vernd fyrir þessum fyrirtækjum. Til þess er Samkeppnisstofnun og til þess er Fjármálaeftirlit.

Innlán er ekki félagsleg aðstoð við lántaka, banka og ríkissjóð.

Ekki veita verkalýðsrekendur neina vernd. Sennilega eru þeir verri en engir!

Hagaðilar þessara fyrirtækja eru hluthafar, lánveitendur og neytendur. Starfsfólk fær sín laun greidd samkvæmt samkomulagi, og það á ekki að verðlauna starfsfólk til að fara í áhættudrifna starfsemi til að auka hlut sinn, án áhættu fyrir sig, en með ríkisábyrgð á launum.

Oftast er það mjög illa ígrundað að „samþætta hagsmuni hluthafa og starfsfólks“ með kaupaukasamningum. Það er óskiljanlegt að lífeyrissjóðir, einingar tengdar almannahagsmunum, taki þátt í slíkum samningum.

Vaxtaákvarðanir banka og sértæk skattlagning

Það er undarleg þráhyggja að álíta að skattlagning á banka sé „skattlagning á banka“. Það er hræsni. Skattlagning á banka er skattlagning á neytendur. Bankar verðleggja þjónustu sína að teknu tilliti til sértækra skatta og velta skattinum yfir á viðskiptavini sína.

Það er ótrúlegt sjá þá, er telja sig sérstaka verndara almannahagsmuna, eins og verkalýðsrekendur og vinstra sullið, krefjast bankaskatts! Stór fyrirtæki koma sér undan bankaskatti með lántökum í löndum siðaðs fólks, þar sem ekki eru óeðlilegir bankaskattar.

Það er lítið réttlæti í því að eigendur fasteigna borgi fyrir óvarlegar lánveitingar til flugfélaga og aðrar illa grundaðar lánveitingar.

Eðlilegt er að fasteignalán taki tillit til þeirrar áhættu sem í slíkum lánum felst. Vaxtamunur, munur á kostnaði við fjármögnun og lánveitingu, á að taka tillit til kostnaðar af vöxtum af innlánum og annarrar lánsfjármögnunar bankans, svo og þeirrar áhættu sem fylgir fasteignalánum, og rekstrarkostnaðar fjármálafyrirtækisins auk eðlilegs hagnaðar, ekki ofurhagnaðar.

En hvaðan kemur þessi 10% arðsemiskrafa bankanna? Arður á þjóðveldisöld?

Þegar Arion banki hf. og Íslandsbanki hf. hækka vexti á „verðtryggðum“ lánum vegna hækkunar á eigin lántökum þá þurfa verndarar neytenda að bregðast við og leita skýringa.

Trúir því nokkur maður að fínstilling ójöfnuðar á „verðtryggðum“ eignum og „verðtryggðum“ skuldum þarfnist vaxtahækkunar?

„Ójöfnuður“ „verðtryggðra“ eigna og skulda hefur hingað til ekki gefið tilefni til vaxtalækkunar.

Það verður að hafa í huga að breytileiki vaxta í lánasamningum er ekki mjög skýr í íslenskum lánasamningum. Það er alls ekki boðlegt að fela sterkari aðila í lánasamningi allan ákvörðunarrétt með tilvísun í „fjármögnunarkostnað“.

Nóg er lagt á lántaka að þurfa að horfa til vaxta á verðtryggðum innlánum þótt ekki bætist við hlutdeild í „ójöfnuði“ verðtryggðra eigna og skulda. Hvernig á lántaki að reikna það á grundvelli almennt fáanlegra upplýsinga? Og hvar er neytendavernd Fjármálaeftirlitsins?

Svo er það efni í enn eina grein um skattlagningu fjáreignatekna, þar sem verkalýðsrekendur sjá blómlega akra til skattlagningar.

Ábending

Það er í hæsta máta óeðlilegt að málefni fjármálamarkaða skuli vistuð í fjármálaráðuneytinu í Stjórnarráði Íslands. Fjármálaráðuneyti á að fjalla um tekjur og gjöld, og eignir og skuldir ríkissjóðs, þar á meðal eignir ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum.

Vistun málefna fjármálamarkaða í fjármálaráðuneyti gæti bent til þess að fjármálamarkaður sé öðru fremur andlag til skattlagningar.

Og það er rétt að benda forseta Alþingis á að rétt er að kenna alþingismönnum mun á nafnvöxtum og raunvöxtum, og að læra mun á tekjum og verðbreytingum. Og hleypa ekki rugludöllum í pontu fyrr en þeir þekkja námsefnið.

Enginn

„Enginn þekti mig og ég þekti aungvan. Mér fanst ég ekki vera ég sjálfur lengur. Það var af því að enginn þekti mig.“

Enginn leitar til ritara um raunvexti og verðbreytingar. Þaðan af síður um eðlilega skattlagningu.

Höfundur var alþingismaður.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason