Sesselja Ósk Gísladóttir (Ósk Gísladóttir) fæddist í Mundakoti á Eyrarbakka 17. mars 1935. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Kirkjuhvoli, Hvolsvelli, 5. september 2024.
Foreldrar Óskar voru Guðríður Vigfúsdóttir frá Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, f. 3. desember 1912, d. 1. apríl 1989, og Gísli Jónsson frá Mundakoti á Eyrarbakka, f. 27. febrúar 1906, d. 22. september 1965.
Ósk hóf ung störf við að tína saman vörur í Kaupfélaginu á Eyrarbakka samhliða því að huga að yngri systkinum og heimilisverkum í Mundakoti.
Systkini Óskar eru Jón Gunnar, f. 14. maí 1939, Helgi, f. 28. janúar 1943, Jóhann Gíslason, f. 14. apríl 1949, d. 8. október 2016, og Gísli Ragnar, f. 18. ágúst 1952.
Ósk var gift Guðna Vilberg Sturlaugssyni, f. 30. maí 1933, d. 6. febrúar 1987.
Börn Óskar og Guðna eru: 1) Vigdís Heiða, f. 28. nóvember 1958. Börn Heiðu eru: Guðni Vilberg Baldursson. Börn Guðna Vilbergs eru: Kolfinna Ríkey og Orri Vilberg. Þorgils Óttar Vilberg Baldursson. Sambýliskona Óttars er Ragnhildur Guðbjörg Sigurðardóttir. Börn Óttars eru: Íris Eva og Bastían Baldur. Leó Baldursson. Leó er giftur Júlíönu Karvelsdóttur. Börn Leós og Júlíönu eru: Heiðrún Elísabet, f. 6. júní 2017, d. 12. janúar 2018, Hilmar Gísli og Eydís Gígja. Ösp Vilberg Baldursdóttir. Ösp er gift Tómasi Karli Baldvinssyni. Stjúpsonur Heiðu úr fyrra hjónabandi er Kristófer Rúnar Baldursson. Eiginkona Rúnars er Lilja Bjarkar. Þau eiga fimm börn og þrjú barnabörn. 2) Gísli, f. 27. mars 1961. Gísli er giftur Jónu Guðlaugsdóttur. Börn Gísla og Jónu eru: Guðlaugur Orri. Sambýliskona Guðlaugs er Rannveig Júlíusdóttir. Börn Guðlaugs og Rannveigar eru: Jóna Kristín og Júlíus Berg. Fyrir átti Guðlaugur Bríeti Hrefnu. Guðni Berg. Guðni er giftur Hildi Þóru Friðriksdóttur. Börn Guðna og Hildar eru: Sveinn Ingi og Sigrún Ýr. Fyrir átti Gísli Óskar. Sambýliskona Óskars er Jóhanna Kristín Aðalsteinsdóttir. Barn Óskars og Jóhönnu er: Lína Sólveig. Fyrir átti Óskar Garðar Orra. 3) Sturlaugur Vilberg, f. 13. maí 1965, Sturlaugur er giftur Guðrúnu Petreu Ingimarsdóttur. Börn Sturlaugs og Guðrúnar eru: Aðalbjörg Ósk og Kristján Vilberg.
Við upphaf sjöunda áratugar síðustu aldar fluttust þau hjónin á Selfoss. Ósk og Guðni festu kaup á bát 1963 í félagi við annan. Upphaflega var gert út frá Stokkseyri en síðar frá Þorlákshöfn þar sem einnig var stofnuð fiskvinnsla. Ósk sá um rekstur útgerðarinnar í landi. Ósk og Guðni fluttu frá Þorlákshöfn til Selfoss 1984. Árið 1985 rak Ósk söðlaverkstæði á Selfossi til ársins 1997. Ósk hefur störf það sama ár á söðlasmíðaverkstæði Ástundar og hætti störfum sjötug. Guðni lést árið 1987. Ósk flutti til Hveragerðis árið 1999. Árið 2022 flytur Ósk á Kirkjuhvol á Hvolsvelli þar sem hún bjó allt fram til síðasta dags.
Útför fer fram í Hveragerðiskirkju í dag, 20. september 2024, klukkan 14.
Elsku mamma.
Það er engin handbók til um það hvernig maður orðar hinstu kveðju til móður. Nú þegar þú hefur kvatt þetta jarðlíf sit ég og hugsa til baka.
Elstu minningar mínar af þér eru sunnudagsbíltúrarnir sem við fórum þegar ég var barn. Það eru sennilega einu skiptin þar sem þú varst kyrr. Ég sá svo sem aldrei á mælaborðið. Bíltúrarnir enduðu jafnan hjá fjölskyldumeðlimum þar sem við ræktuðum sambönd og styrktum tengsl við ættingja.
Aðrar minningar eru hraðar. Þær eru allar litaðar af dugnaði, framtakssemi, elju og sjálfstæði.
Öðrum minningum fylgir ilmur; sjávarilmurinn þegar við leituðum að netahringjum og kúlum á ströndinni,
ilmurinn af sunnudagslærinu, ilmurinn af flatkökunum sem ég vissi vart hvað ég átti að gera við,
nýupptekið grænmeti hjá afa og ömmu á haustin.
Og aðrar minningar einkennast af fegurð; hannyrðirnar sem munu ylja mér, börnum mínum og barnabörnum um ókomin ár, minningar af þér með bílfarm af handverki, kræsingum og kærleika í hvert barnaafmæli, ást, alúð og þolinmæði sem þú sýndir börnum mínum og barnabörnum, sjálfstæðið, framsýnin og útsjónarsemin
Ég vona að þú hafir fengið hvíldina. Ég er þakklát fyrir öll þessi ár sem sem við áttum með þér. Minning þín lifir áfram.
Takk fyrir allt, mamma.
Heiða.
Elsku Ósk amma.
Mig grunar að ég hafi aldrei miðlað því til þín meðan þú lifðir hversu mikilvægt hlutverk þú leikur í mínu lífi.
„Það læra börn sem fyrir þeim er haft.“
Minningarnar eru perlur og gersemar sem ég geymi og varðveiti. Það sem þú færðir mér er svo miklu meira. Það eru verkfæri, gildi og veganesti til frambúðar. Það er það sem fyrir mér var haft.
Það er í verki sem við sýnum úr hverju við erum gerðar og ég held áfram að rækta það og fylgja þínu fordæmi. Það er sama hvort það er uppskrift að útsaumuðu bútasaumsteppi þegar ég er döpur, heitar pönnukökur af því það er sunnudagur eða hnallþórur því það er hátíðisdagur – við sýnum það í verki.
Hér er frumsamin uppskrift sem ég vona að þú kunnir að meta:
Ósk amma
300 grömm af kærleika
450 grömm af óyrtri ást
1 teskeið af stolti
hálft kíló af seiglu
Takk fyrir allt, amma mín.
Ösp.
Elsku systir, mágkona og frænka, Ósk Gísladóttir, hefur kvatt þennan heim.
Ósk var elst í fimm systkina hópi og jafnframt eina stelpan. Hún var fljótt farin að hjálpa til heima við og kom strax í ljós að hún var hamhleypa til allra verka. Störfin urðu mörg og margvísleg og kom hún víða við á starfsævi sinni, til dæmis við útgerð og söðlasmíði. Sem unglingur var hún sú eina þeirra systkina sem hafði lag á heimilishrossinu Blakki. Mögulega kveikti glíman við Blakk neistann og hélt hún hross langt fram eftir ævinni. Sú reynsla kom sér vel þegar hestamenn og aðrir gestir mættu í kaffispjall á söðlasmíðaverkstæðið og var þar iðulega gestkvæmt og gott með kaffinu, rétt eins og á heimili Óskar. Þórhildur varð þeirrar ánægju aðnjótandi að dvelja sumarlangt hjá Ósk og vinna á verkstæðinu.
Í gegnum tíðina fóru Ósk og bræður hennar ásamt fjölskyldum sínum saman í ferðalög, oftar en ekki á slóðir ættmenna
í Skaftafellssýslu. Í ferðalögunum léku allir sér saman, stórir og smáir. Ósk hafði gaman af því að gera grín að sjálfri sér og tók sig ekki mjög hátíðlega. Þannig gat henni dottið í hug að bregða á leik með húllahring, sjálfri sér og viðstöddum til ógleymanlegrar skemmtunar og kátínu.
Ósk var mjög skemmtileg og gestrisin heim að sækja og mátti ekki til þess hugsa að nokkur færi svangur frá sér. Ef svo ólíklega vildi til að ekkert væri til með kaffinu mátti alltaf skella saman homeblest-kexi með þeyttum rjóma, það var gott báðum megin. Iðulega voru þó gestir leystir út með góðgæti í poka, rúgbrauði, flatkökum, kleinum eða öðru sem húsmóðirin virtist galdra fram úr annarri erminni.
Væntumþykja og umhyggja Óskar fyrir fjölskyldu okkar birtist í einlægum áhuga á að vita hvað hver og einn hefði fyrir stafni, hvort allir væru hressir og kátir og hvað væri að frétta frá því síðast.
Ósk hafði sterkar skoðanir á gangi mála í samfélaginu. Jafnframt fylgdist hún vel með veðurfréttum enda tengdist það að vissu leyti flatkökubakstrinum, sem ekki var hægt að sinna í norðanátt.
Lengi vel var Ósk búsett í Hveragerði en um hríð vann hún í Ástund í Reykjavík. Hún dvaldi því hjá Helga og Þuru á Kársnesbrautinni á virkum dögum og fór heim um helgar. Það var dýrmætur tími og margt haft fyrir stafni, meðal annars tók Ósk að sér að kenna húsmóðurinni og fleirum bútasaum og tókst það ljómandi vel enda kennarinn sérlega þolinmóður og laginn við nemendur.
Að okkar mati var Ósk sannkallaður listamaður. Allt lék í höndunum á henni, hún hafði næmt auga fyrir litum og litasamsetningum og báru verk hennar þess glögglega merki. Má segja að minningar okkar um Ósk séu samofnar þeim litríku og fallegu listaverkum sem prýða heimili allra í fjölskyldunni og eru okkur ómetanleg. Þar má nefna bútasaumsteppi og dúka, perlumyndir, glerlampa og jafnvel skrautlega málaðan álf að glugga í spennandi bók.
Við kveðjum elsku Ósk okkar þakklát fyrir samverustundirnar og vottum Heiðu, Gísla, Sturlaugi og fjölskyldum innilega samúð.
Helgi, Þuríður (Þura), Guðríður (Gurrý), Þórhildur, Jóhanna, Þórey og fjölskyldur.