Sóley Stefánsdóttir fæddist 14. janúar 1945. Hún lést 3. september 2024.

Útför Sóleyjar fór fram 16. september 2024.

Það var vorið 2019 sem sjö GKG-golfvinkonur tóku sig saman og bjuggu til formlega grúppu utan um golfið sitt. Klæddu sig upp með stæl í fallega hvítt, settu á sig bleika hatta og skörtuðu fjólubláum golfhönskum. Tilefnið var að stimpla sig inn í liðakeppni klúbbsins og golfskvísurnar flottu, sem kölluðu sig Valkyrjur, gerðu það með þokkalegum stæl og skemmtilegri spilagleði. En ekki bara þar; Valkyrjuhópurinn reyndist svo líflegur og skemmtilegur félagsskapur að hann gat ekki annað en stækkað og blómstrað, hvort sem var í golfi, búningagleði eða öðru gamni og hæfilegri alvöru. Áður en við vissum af voru Valkyrjurnar orðnar fjórtán talsins, golfskvísur sem njóta þess að hittast allan ársins hring til að leika sér saman í golfi og njóta félagsskapar hver annarrar á ýmsan máta. Dásamleg vinátta sem hefur eflst með hverju árinu og gefið okkur öllum svo mikið, innan vallar sem utan. Skemmtilega Sóley, elst í hópnum, var líflegasti grallarinn sem gaf okkur hinum ekkert eftir og naut félagsskaparins í botn, eins og við allar hinar. Heldur betur og alltaf tilhlökkun að hitta Valkyrjur. En lífið hefur sinn eigin gang, fallega Sóley okkar hefur kvatt þennan heim og við hinar Valkyrjurnar sitjum eftir hljóðar sem og aðrir golffélagar hennar, ástvinir og aðrir vinir. Mikið ofboðslega sem við eigum eftir að sakna þín dásamlega vinkona og það sem englarnir geta glaðst yfir að fá þig í hópinn sinn. Svo mikið og fallegt sem þú skilur eftir þig gullið okkar kæra og heldur betur sem skemmtilegi andi þinn og útgeislun á eftir að lifa með okkur Valkyrjum svo lengi sem erum til. Hjartans knús á fólkið þitt fallegust og góða ferð.

Þínar kæru Valkyrjur,

Ingibjörg Þ. Ólafsdóttir, Helga Sigríður Sigurgeirsdóttir, Regína Rögnvaldsdóttir, Sólveig Smith, Soffía Dóra Sigurðardóttir, Þorgerður Jóhannsdóttir, Valgerður Friðriksdóttir, Guðrún Jóhanna Benediktsdóttir, Ingibjörg Steinþórsdóttir, Helga Björg Steingrímsdóttir, Óla Björk Eggertsdóttir, Hrönn Steingrímsdóttir, Kristín Inga Grímsdóttir.

Þá er elsku Sóley okkar farin í sumarlandið, laus frá veikindum og þjáningu. Ég trúi því að hún sé ekki farin langt, er ekki bara tjald á milli heimanna? Hinum megin er hún örugglega komin í fang foreldra og annarra vandamanna og farin að munda golfkylfuna sem aldrei fyrr. Sóley elskaði golf og útiveru, hún elskaði líka golfpartnerinn sinn hann Guðmund sinn, essin 3, yndislegu dæturnar þeirra þær Stellu, Sigrúnu og Sunnu, og tengdasynina og svo elskaði hún og dýrkaði öll barnabörnin sín. Ég veit hún vakir yfir þeim öllum. Sóley elskaði líka Breiðablik og fylgdist vel með öllu unga fólkinu þar. Hún stundaði rope yoga í mörg ár og mat það mikils. Við í litla saumaklúbbnum söknum hennar sárt, höfum staðið saman í tugi ára. Í áranna rás hefur kvarnast úr klúbbnum, vorum lengi bara fimm, en Sigrúnu okkar misstum við fyrir þremur árum. Nú erum við bara þrjár eftir; Bára, Hildur og undirrituð. Það var alltaf tilhlökkun að mæta í klúbb til Sóleyjar. Blúndutertan hennar var þvílíkt hnossgæti að seint gleymist. Og ekki slógum við hendinni á móti humrinum, sem Beddi heitinn sendi frá Eyjum. Ekki gleymist heldur handavinnan hennar, sem er alger listasmíð.

Við í saumó þökkum allar samverustundir, sem aldrei bar skugga á, söknum og syrgjum. Guðsblessun til allra í fjölskyldunni. Megi góður Guð umvefja þig og blessa elsku vinkonan okkar.

Guðlaug Guðjónsdóttir (Dulla).

Okkar kæra vinkona Sóley.

Vinaþráður sem aldrei slitnaði var ofinn fyrir löngu …

Við þrjár fórum vestur að Núpi við Dýrafjörð sem var ekki auðvelt og fól í sér mikla breytingu fyrir okkur allar. Við komum hver úr sinni áttinni og þekktumst ekki. Lánið lék við okkur, þrjár vinkonur sem kynntust langt í burtu frá heimkynnum sínum, héldu hver utan um aðra og tengdust ómetanlegum og órjúfanlegum vinaböndum sem aldrei bar skugga á. Fegurð, trygglyndi og einlægni einkenndi vináttu okkar.

Við biðjum góðan Guð að blessa minningu okkar elsku kæru Sóleyjar sem við munum sakna sárt.

Þakklæti er okkur ofarlega í huga fyrir góða ævi okkar kæru vinkonu og hennar yndislegu fjölskyldu.

Við sendum fjölskyldu og vinum Sóleyjar okkar hjartkærustu samúðarkveðjur.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.

Og hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.

Svo, vinur kæri, vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín gæta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Sigurbjörg Pálsdóttir og Kristjana Samper.