Lúðvík Andreasson fæddist í Reykjavík 6. mars 1945. Hann varð bráðkvaddur þann 8. september 2024.

Foreldrar hans voru Andreas L. Guðmundsson, f. 1921, d. 1972, og Björndís Þórunn Bjarnadóttir, f. 1918, d. 2006. Systur hans eru Margrét, f. 1949, d. 2022, og Jórunn, f. 1953.

Hann ólst upp á Seljavegi og frá 11 ára aldri á Rauðalæk 63.

Lúðvík kvæntist Guðnýju Hinriksdóttur, f. 27.1. 1945. Þau giftust 26. júní 1965. Synir þeirra eru Andreas, kvæntur Narelle Corless frá Ástralíu og búa þau í Sydney, og Stefán Þór, í sambúð með Hildi Dögg Jónsdóttur og búa þau í Vestmannaeyjum. Börn Stefáns úr fyrra hjónabandi eru þau Agnes, Bríet og Jason.

Þau bjuggu í Árbæ í 34 ár, lengst í Brekkubæ 34 en Lúðvík leit alltaf á sig sem Árbæing og var mikill Fylkismaður. Bjuggu síðan 14 ár í Grafarvogi en hafa verið búsett í Vesturbænum síðustu sjö ár.

Lúðvík gekk í Miðbæjarskóla og síðan Laugarnesskóla og lauk verslunarskólaprófi 1964. Hann var skiptinemi AFS í Scottsbluff í Nebraska, BNA. Þegar heim kom vann hann hjá Skrifstofuvélum á Hverfisgötu frá 1964 þar til hann keypti Íslenska verslunarfélagið 1983. Hann rak það í 12 ár en réð sig þá til Nýherja 1995 og starfaði þar til starfsloka.

Lúðvík var mikill félagsmálamaður og starfaði m.a. fyrir Junior Chamber, knattspyrnudeild Fylkis, knattspyrnuráð Reykjavíkur og KSÍ. Var síðan í Lionsklúbbnum Tý síðastliðin 30 ár. Hann var formaður í Medic Alert í mörg ár eftir að starfsævi lauk. Hann heillaðist af golfi fyrir um 30 árum og var iðinn á golfvellinum hjá GR og í Flórída.

Útförin fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 20. september 2024, klukkan 13.

Það er með sorg í hjarta sem við bræðurnir og tengdadætur þínar kveðjum þig elsku pabbi. Þú varst yndislegur maður í alla staði og góðhjartaður með eindæmum.

Það var alveg sama á hverju gekk þú vildir alltaf allt fyrir okkur og alla gera. Það kom strax í ljós á okkar yngri árum hversu áhugasamur þú varst um það sem við bræðurnir tókum okkur fyrir hendur, í öllum veðrum stóðst þú á hliðarlínunni til að hvetja okkur fótboltamarkmennina í Fylki til dáða.

Þegar þú vannst hjá Skrifstofuvélum á Hverfisgötunni komum við bræðurnir oft og heimsóttum þig í vinnuna. Við urðum vitni að því hvernig þú byggðir upp teymi í kringum þig og hversu vel liðinn þú varst.

Við vorum heppnir að fá að vinna með þér og mömmu í þau ár sem þú rakst Íslenska verslunarfélagið, Addi sem fastur starfsmaður öll árin og litli bróðir fékk að koma í alls konar verkefni. Ef það var eitthvað sem þú kunnir þá var það að fá menn með þér en minningin um kokteilboðin stendur aðeins upp úr enda oft mikið fjör.

Líklega eru það einu skiptin sem við höfum heyrt þig blóta, þegar þú horfðir á þína menn í Man. Utd í en þeir voru ekki alltaf að skemmta þér heyrðist okkur.

Þegar Addi ákvað að fara til Danmerkur til náms varst þú hans helsti stuðningsmaður, sama var það þegar hann ákvað að flytja til Nýja-Sjálands og Ástralíu, þá komuð þið í heimsókn til að sjá hvernig lífið væri hjá honum hinum megin á hnettinum og þegar hann hafði kynnst henni Narelle sinni þá hentust þið yfir hálfan hnöttinn í brúðkaupið þeirra.

Sama var þegar Stefán flutti til Eyja og stofnaði Eyjablikk, það var mætt við opnunina og haldin ræða eins og þér einum var lagið. Já, það var nefnilega eitt af því sem við bræðurnir gátum verið vissir um að ef það væri veisla í fjölskyldunni þá var pabbi með ræðu, ekki með skrifað orð á blaði heldur bara ruddir þessu út úr þér og útkoman alltaf upp á 10.

Það voru forréttindi að fá hafa þig í stjórn Eyjablikks og núna síðustu árin sem stjórnarformann fyrirtækisins. Alltaf var komið í smiðjuna í öllum heimsóknum til Eyja til að hitta starfsmenn og fá sér kaffibolla og spjall.

Alltaf voruð þið mamma til staðar þegar við bræðurnir komum í bæinn eða heim frá útlöndum í heimsókn, eins og þú sagðir alltaf, þá voruð þið mamma einstæðir foreldrar í Reykjavík, enda annar í Ástralíu og hinn í Vestmannaeyjum.

Barnabörnin hafa líka notið góðmennsku þinnar og mömmu í pössun og matarboðum í gegnum árin og hefur „afi Lúlli“ alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá þeim öllum. Það er mjög líklegt að allir læknar sem þú hefur farið til síðustu árin viti að Agnes og Bríet eru í læknisfræði, þeir fengu sko alveg að vita það og það mátti sjá spennu í augum þínum þegar Jason var farinn að banka á dyrnar í meistaraflokknum í handboltanum.

Tengdadætrunum Narelle og Hildi Dögg tókstu opnum örmum og eru þær ævinlega þakklátar fyrir hversu vel þú tókst á móti þeim í fjölskylduna.

Elsku pabbi, hvíldu í friði. Þín verður sárt saknað en minningarnar munu lifa að eilífu. Þú mótaðir okkur til lífstíðar.

Takk pabbi.

Stefán Þór Lúðvíksson, Andreas Lúðvíksson, Narelle Corless,
Hildur Dögg Jónsdóttir.

Einn okkar bestu vina, Lúðvík Andreasson eða Lúlli, lést úr hjartaáfalli að morgni sunnudagsins 8. september sl. Kannski kom það ekki mjög á óvart því að Lúlli hefur átt við hjartveiki að stríða í áratugi en alltaf er það jafn átakanlegt og kemur á óvart þegar góðir vinir falla frá.

Lúlli og Sigrún mín kynntust í barnadeild Laugarnesskóla, en ég kem í skólann í fyrsta bekk í gaggó og lenti í sama bekk og þau. Stutt var á milli heimila okkar og myndaðist fljótt innileg vinátta sem aldrei hefur borið skugga á og urðum við hálfgerðir heimagangar hvor hjá öðrum. Við Sigrún vorum mjög ung þegar við fórum að leiðast og sjálfsagt hefur það verið smitandi því ári seinna kynntust Lúlli og Nína og byrja saman og hefja sinn lífsferil, alltaf mjög ástfangin. Eftir fyrsta bekk í gaggó fór Lúlli í Verslunarskóla Íslands, ég hins vegar í landspróf og í MR. Vináttan og umgengnin hélst samt alltaf og vörðum við mörgum góðum stundum heima hjá Lúlla við segulbandsupptökur á vinsælustu tónlist þess tíma úr kanaútvarpinu og Radio Luxembourg. Partíin heima hjá Lúlla urðu því geysivinsæl, alltaf nýjasta og besta tónlistin. Unglingsárin liðu og alltaf jafn gaman hjá okkur krökkunum úr Gaggó Laugarnesi og enn er gaman. Til marks um það þá höfum við '45-árgangurinn hist reglulega í gegnum árin og núna síðasta miðvikudagskvöldið þremur dögum áður en Lúlli lést. Daginn eftir töluðum við Lúlli einmitt um hvað þessir hittingar eru skemmtilegir og mættu ekki lognast út af.

Bæði við Sigrún og Nína og Lúlli vorum mjög ung þegar við eignuðumst okkar fyrstu börn, þau tvo stráka, Andreas og Stefán, og við þrjár stelpur. Með okkar mikla samgangi myndaðist einnig góð vinátta barnanna á milli. Við byggðum húsin okkar í Selásnum nánast á sama tíma, tengdumst fljótt Fylki, þó sérstaklega þau með tvo kraftmikla stráka sem elskuðu að spila fótbolta. Lúlli fór snemma að starfa fyrir Fylki, varð formaður knattspyrnudeildarinnar, var í aðalstjórn og einnig í KRR. Á þessum árum hittumst við mjög oft heima hjá hvert öðru, fórum í sumarbústaðarferðir, á skíði, til útlanda og spiluðum badminton tvisvar í viku áratugum saman. Við störfuðum saman í JC Reykjavík og í marga áratugi í Lionsklúbbnum Tý í Reykjavík. Golfbakterían greip þau Nínu fyrir um það bil tveimur áratugum. Margoft fóru þau í golfferðir, mest til Ameríku þar sem þau væru í dag ef elsku Lúlli hefði ekki fallið frá.

Í mörg ár höfum við verið í símasambandi tvisvar til þrisvar sinnum í viku þar sem allt milli himins og jarðar var rætt en aðallega þó til að fá fréttir af vinum og heyra af afdrifum barna og barnabarna hvor annars. Við höfum alltaf verið friðarins menn og minnist ég þess ekki að okkur hafi nokkurn tíma orðið sundurorða eða verið ósáttir hvor við annan. Það er ómetanlegt að hafa átt svo góðan vin í gegnum lífið.

Við kveðjum með söknuði góðan vin til rúmlega 65 ára og sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Nínu, Adda og Narelle, Stefáns og Hildar og barnabarnanna Agnesar, Bríetar og Jasons.

Góð minning lifir.

William og Sigrún.

Í dag þegar við minnumst vinar okkar, Lúlla, eins og hann var kallaður í okkar hópi, leitar hugurinn til baka allt að 65 árum hjá sumum okkar. Lúlli og Nína voru í skemmtilegum hópi sem hittist við alls konar tækifæri en aðallega í matarboðum.

Hann var alltaf hress og jákvæður og það var gaman að sjá hvað þau hjónin voru samrýnd. Hann var ágætis golfari og þau spiluðu reglulega saman enda gerðu þau flesta hluti saman. Seinustu árin gekk Lúlli ekki heill til skógar en hann lét það ekki stoppa sig. Þau hjónin voru á leið til Orlando í sex vikna golfferð hinn 15. þessa mánaðar. Hann hafði hlakkað mikið til, og farinn að telja niður dagana til að fara í góða veðrið á Flórída. Spila golf og njóta veðurblíðunnar.

Lúlli er þriðji félaginn sem hverfur frá borði í þessum hópi.

Við munum minnast góðs félaga sem var alltaf jákvæður og í góðu skapi.

Elsku Nína og fjölskylda. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Megi minning um góðan dreng lifa í hjörtum okkar.

Steinunn og Reidar,
Anna og Gunnar, Rúna.

Við Fylkismenn kveðjum nú mætan mann og góðan félaga, allt frá þeim árum er Íþróttafélagið Fylkir var að stíga sín fyrstu skref. Óeigingjarnt starf þeirra sem þá lögðust á árarnar með fremur óburðugu ungu íþróttafélagi í Árbænum, átti eftir að ávaxta sig vel og leggja grunn að íþróttaiðkun og uppbyggilegu félagslífi mikils fjölda ungmenna, er fram liðu stundir.

Lúðvík lauk prófum frá Verslunarskólanum. Hann starfaði á árum áður hjá Skrifstofuvélum við Hverfisgötu, en lengst af hjá Nýherja. Hann hafði yndi af félagsstörfum, starfaði í Lionsklúbbi og var formaður Medic Alert um árbil.

Það var þó ekki síst íþróttaiðkun og íþróttahreyfingin sem áttu hug hans og hjarta. Auk annarrar íþróttaiðkunar á yngri árum hóf Lúðvík snemma að iðka golf og var félagi í Golfklúbbi Reykjavíkur. Hann varði umtalsverðum frítíma sínum í íþróttahreyfinguna og þess naut Fylkir svo um munaði. Hann var mikill stuðningsmaður síns félags, mætti reglulega á leiki meistaraflokks og lét sig ekki vanta á árlega viðburði félagsins, eins og Herrakvöld Fylkis.

Lúðvík var formaður knattspyrnudeildar Fylkis 1981-85 og sat í Knattspyrnuráði Reykjavíkur fyrir Fylki á árunum 1986-90. Hann þótti einstaklega góður stjórnarmaður, skipulagður, ráðagóður, samvinnuþýður og traustur félagi.

Lúðvík var sæmdur gullmerki Fylkis, gullmerki Knattspyrnuráðs Reykjavíkur og gullmerki Knattspyrnusambands Íslands.

Við Fylkismenn kveðjum vin og traustan félaga með virðingu og söknuði.

Fyrir hönd Íþróttafélagsins Fylkis,

Björn Gíslason
formaður.

Hin gullna regla vináttunnar er sögð vera sú að hlusta á aðra á sama hátt og þú vilt að aðrir hlusti á þig. Við undirrituð vorum svo heppin að góðir vinir greiddu götu okkar á LH-helgi aldamótárið 2000. Þetta var tilboð um að temja sér aðferð til þess að gera gott hjónaband betra. Lykillinn fólst í að ræða málin í ljósi tilfinninga en læsa sig ekki í slæmum venjum og orðaflækjum. Framhaldsverkefni fólst í myndun samtalshóps okkar fimm LH-hjóna, sem þó þekktumst lítið sem ekkert fyrir.

Á vettvangi þessa hjónastarfs höfum við hlustað á Lúðvík og Guðnýju í röska tvo áratugi og sagt þeim á móti okkar sögur og tjáð okkar tilfinningar. Enginn skyldi halda að þetta hafi verið auðvelt en með tímanum og LH-aðferðinni óx fram í hópnum vinátta og traust í öguðu samtali sem opnaði allar gáttir. Það er mannbætandi að eiga slík djúp samtöl og meðtaka reynslu annarra.

Lúðvík hefur nú lokið sinni hérvist en svo samrýmd voru þau hjón að erfitt er að tala um þau sitt í hvoru lagi. Þau voru félagslynd bæði tvö og drifkraftar í fjölskyldu- og félagsmálum af ýmsu tagi. Það fylgdi þeim glaðvær æðruleysistónn í öllum samskiptum og þau voru snillingar í að búa sér til tilhlökkunarefni í hversdeginum. Það er mikill missir fyrir Guðnýju að hafa ekki Lúðvík sem gleðigjafa og félaga sér við hlið en hún hefur sterk bein.

Lúðvík bar með sér heimsmannsbrag þegar við kynntumst, hann hafði fengist við atvinnurekstur, sölustjórn og markaðsmál um dagana og bjó að margvíslegum persónulegum tengslum m.a. erlendis. En þrátt fyrir þjálfaða framgöngu var honum það ekki tamt frekar en mörgum karlmanninum að flíka tilfinningum sínum. Hann opnaði sig þó í samtölum okkar sem var dýrmætt fyrir hann og hópinn.

Lúðvík og Guðný gengu í hjónaband rúmlega tvítug vorið 1965 og urðu meðal frumbyggja í Árbænum. Þar ólu þau upp syni sína tvo, Andreas og Stefán, og fjölskyldan varð Fylkis-fjölskylda. Lúðvík valdist fljótt til forystu í Fylki og þótt þau Guðný flyttu síðar í önnur hverfi fylgdi þeim ávallt Fylkisandinn og gleðin yfir því að hafa gegnt trúnaðarstörfum fyrir knattspyrnuhreyfinguna. Lúðvík var einnig virkur í Lions og tók m.a. forystu fyrir verkefni Lionshreyfingarinnar Medic Alert.

Lúðvík og Guðný ferðuðust víða, lengst eftir að eldri sonur þeirra kvæntist og settist að í Ástralíu. Þau stunduðu golfíþróttina af miklum áhuga en eftir að Lúðvík gekkst undir stóra hjartaaðgerð fyrir tæpum áratug var ljóst að hann gekk ekki heill til leiks. Hugurinn var þó óbugaður. Þau hjón kláruðu 25 golfhringi á þessu kalda og vindasama sumri sem nú er að kveðja og horfðu með tilhlökkun til að leika í veðurblíðu á Flórída þegar kallið kom. Einn úr hópnum slysaðist til þess að setja niður langt pútt á lokaholu við klúbbhúsið á Korpuvelli í sumar, og kvað þá við fagnaðaróp. Þar fögnuðu Lúðvík og Guðný sem voru að leggja af stað í hring, glæsileg og glaðbeitt að vanda. Þannig lifir Lúðvík í minningunni, jákvæður, hlýr og hvetjandi!

Við vottum sonum þeirra, tengdadætrum og barnabörnum einlæga samúð okkar.

Steinunn Jóhannesdóttir og Einar Karl Haraldsson, Guðbjörg Björgvinsdóttir og Magnús H. Sigurðsson, Kolbrún Þórarinsdóttir og Björn Eiríksson, Jóhanna Th. Þorleifsdóttir.