Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
„Þessi rauði salur er einstaklega fallegur og einhvern veginn heldur voðalega vel utan um þessi fimmtán hundruð manns sem geta komist þar fyrir,“ segir trommuleikarinn Ólafur Hólm Einarsson um Eldborg í Hörpu. Fáir þekkja betur að koma fram í Eldborgarsalnum en Ólafur, sem á laugardag mun spila í hundraðasta sinn í tónleikasalnum glæsilega þegar hljómsveitin Nýdönsk heldur sína árlegu stórtónleika.
Ólafur segir að þegar Harpa hafi verið nýlega opnuð hafi tónleikagestum þótt það afskaplega hátíðlegt að fara í Eldborg og því hafi stemningin kannski verið svolítið stíf fyrir vikið, „en þegar fólk var búið að koma nokkrum sinnum þá fór að losna um og í dag er einstaklega góð stemning í þessum sal.“
Auk Nýdanskrar hefur Ólafur leikið í Eldborg með hljómsveitinni Todmobile, þar sem hann spilaði meðal annars með John Anderson og Steve Hackett, hljómsveitinni Dúndurfréttum og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þá hefur hann spilað á hinum og þessum tónleikum og sýningum í Eldborgarsalnum.
Hann segist sjálfur halda skrá yfir það sem hann hefur spilað og segir það greinilega vera í blóðinu því nýlega hafi hann fundið skrá yfir það sem afi hans spilaði árið 1945. „Þetta virðist vera mín leið til að fá eitthvert utanumhald um óreiðuna í lífinu,“ segir trymbillinn og hlær.
Með Nýdanskri frá upphafi
Ólafur hefur trommað með Nýdanskri frá upphafi eða síðan 1987. Aðspurður segir hann merkilega gott samkomulag vera innan hljómsveitarinnar. „Við erum fínir vinir allir og núningurinn minnkar alltaf með hverju árinu. Við höfum líka passað að vera ekki að spila of mikið og fyrir vikið ekki verið of mikið ofan í hver öðrum.“ Segir hann engin stórmál hafa komið upp. „Menn byrja meira að púrra hver aðra og þá hefur verið gott aðeins að bakka,“ segir Ólafur.
Uppselt er á tónleikana sem verða kl. 21 annað kvöld en enn eru lausir miðar á aukatónleikana sem hefjast kl. 17 sama dag. Ólafur Hólm lofar miklu stuði og hvetur að sjálfsögðu alla til að næla sér í miða á tix.is.