Flugvél á vegum Icelandair neyddist til þess að snúa við á sjötta tímanum í gærkvöldi skömmu eftir flugtak og lenda á ný á Keflavíkurflugvelli, þar sem nefhjól vélarinnar fór ekki upp eftir flugtakið

Flugvél á vegum Icelandair neyddist til þess að snúa við á sjötta tímanum í gærkvöldi skömmu eftir flugtak og lenda á ný á Keflavíkurflugvelli, þar sem nefhjól vélarinnar fór ekki upp eftir flugtakið.

Mikill viðbúnaður var á flugvellinum þegar vélinni var snúið við, og lenti vélin um hálfsexleytið. Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, reyndist um bilun í vökvakerfi flugvélarinnar að ræða. Var vélin, sem er af gerð Boeing 757, send í viðgerð í gær og er gert ráð fyrir að hún verði komin í lag fljótlega.

Flugvélin var á leiðinni til Seattle. Sagði Guðni að önnur flugvél og áhöfn hefði verið ræst út til þess að flytja farþega fyrri vélarinnar á áfangastað og lagði hún af stað frá Keflavík þegar klukkuna vantaði um korter í átta.