Edda Kjartansdóttir fæddist 29. október 1936. Hún lést 1. september 2024.

Edda var jarðsungin 18. september 2024.

Elsku góða tengdamóðir mín er farin frá okkur inn í draumalandið þar sem eiginmaður hennar Jónas Hólmsteinsson tekur vel á móti henni.

Edda var ljúf kona sem studdi okkur fjölskylduna í okkar málum ef eftir því var leitað og með hlýju og góðum straumum ávallt frá henni tókst okkur að sigla í gegnum ólgusjó og komast heilu og höldnu í land með bros á vör.

Ég kynntist Eddu þegar ég fór að venja komur mínar í Álftamýrina með Kjartani vini mínum og bekkjarbróður í MH. Þar kynntist ég fjölskyldunni vel og síðar varð Guðrún Soffía systir Kjartans eiginkona mín. Það var alltaf líf og fjör í Álftamýrinni enda systkinin fimm og mikið um gestakomur. Dóttir okkar, Edda Rún, bættist síðan við barnahópinn en við Guðrún vorum enn í námi þegar hún fæddist. Það var alltaf rúm fyrir alla hjá Eddu og Jónasi.

Elsku kæra tengdamóðir mín, ég sakna þín en veit og trúi að þú sért komin á góðan stað og minning mín um þig mun ávallt lifa.

Þinn tengdasonur,

Ragnar Atli Guðmundsson.