Ólafur Gíslason fæddist 16. nóvember 1936. Hann lést 28. ágúst 2024.
Útför fór fram 19. september 2024.
Við Ólafur kynntumst í 2. bekk Gagnfræðaskóla Austurbæjar haustið 1950. Hann kom úr Vesturbænum og var auðvitað í KR, og það breyttist ekki, þótt fjölskyldan flytti nú á Miklubraut 54. Við vorum saman í skóla næstu níu árin, gegnum landspróf, Menntaskólann í Reykjavík og fyrri hluta verkfræðináms í Háskóla Íslands. Þá skildi leiðir. Ég valdi eðlisfræði í Þýskalandi en hann hélt til Danmerkur með öðrum skólabræðrum að ljúka námi í byggingarverkfræði þar.
Með KR varð Óli landsliðsmaður í fótbolta, en við náðum ekki að fylgja honum þar. Hann var vel fær á skíðum og dreif mig með sér í skíðaskála KR í Skálafelli. Faðir Óla spilaði bridds með vinum sínum og Óla þótti við ekki mega minni vera. Þar hófust vikuleg spilakvöld strax í gagnfræðaskóla sem entust vel fram í menntaskóla og þróuðust síðar yfir í ævilangan spilaklúbb skólabræðra eftir heimkomu þeirra frá Danmörku. Gísli, faðir Óla, var aðalgjaldkeri Rafmagnsveitna Reykjavíkur og Sogsvirkjunar og fyrir hans tilstilli fengum við Óli vinnu við uppsetningu stálmastra háspennulínunnar frá Soginu til Reykjavíkur sumarið 1953. Það var áhættustarf, en sumarlaun okkar voru þreföld á við laun feðra okkar. Óli tók þátt í ýmsum prakkarastrikum skólafélaganna og þá kom sér stundum vel að vera frár á fæti. Fyrir eitt hlaupið hlaut hann viðurnefnið Bannister í minningu þess sem fyrstur hljóp enska mílu undir fjórum mínútum.
Þegar Óli lauk prófi í byggingarverkfræði í Kaupmannahöfn 1962 voru verkfræðingar á Íslandi í verkfalli og þeir ráðlögðu nýjum verkfræðingum að halda sig erlendis um tíma. Óli hóf störf hjá Carl Bro A/S í Kaupmannahöfn, en árið 1964 réðst hann til E. Phil & Søn og starfaði hjá þeim og dótturfyrirtækinu Ístaki hf. alla sína starfsævi fyrir utan störf hjá Breiðholti hf. á árunum 1968-71. Fyrsta verkefnið 1964-67 voru tvenn jarðgöng nærri Klakksvík í Færeyjum. Heimamönnum þótti verkfræðingurinn djarfur að bora göngin frá báðum endum og kviðu því að þau færu á mis. Manni með próf í landmælingum frá Finnboga Rúti Þorvaldssyni skeikaði ekki.
Óli reyndist frábær verkstjórnandi og næstu árin gegndi hann starfi staðarverkfræðings eða yfirverkfræðings í fjölmörgum krefjandi verkefnum hér á landi og erlendis. Frá því verður greint á öðrum vettvangi.
Þegar dró að 50 ára stúdentsafmæli 2006 fóru stúdentar MR '56 að rækta gömul kynni með hádegissúpu í hverjum mánuði, vorferðum um landið og haustferðum til annarra landa og þá gjarnan í heimsókn til skólafélaga, sem sest höfðu að erlendis. Óli, og eiginkona hans Gerða, tóku virkan þátt í þessu félagslífi. Hann kveið því að hafa að litlu að hverfa við starfslok og beitti sér fyrir því með félögum úr stúdentahópi og skíðahópi að farið væri í reglubundnar gönguferðir. Af því spratt gönguhópurinn Alviðra, sem gengið hefur í Elliðaárdalnum þrisvar í hverri viku, hvernig sem viðrar, í 17 ár. Því miður varð Ólafur hins vegar að láta undan, þegar ættgengur sjúkdómur hans tók smám saman völdin. Við söknum góðs vinar.
Sveinbjörn Björnsson.
Við vorum 20 félagarnir sem hófum nám í verkfræði við Háskóla Íslands haustið 1956 og var vinur okkar Ólafur Gíslason í þeim hópi. Eftir þriggja ára nám í HÍ luku níu fyrrihlutaprófi í verkfræði og haustið 1959 héldum við allir til framhaldsnáms erlendis. Einn okkar fór til Þýskalands í eðlisfræði, Sveinbjörn Björnsson, en við hinir átta til Kaupmannahafnar í DtH (heitir nú DtU), þ.e. Bergsteinn Gizurarson, Jóhann Már Maríusson, Jón Birgir Jónsson, Jónas Elíasson, Ólafur Gíslason, Þór Þorsteinsson og undirritaðir, Hilmar og Sigfús.
Við Kaupmannahafnarfélagarnir héldum þétt hópinn og vináttan sem hófst við upphaf námsins í HÍ þróaðist jafnt og þétt og hefur haldist fram á þennan dag og aldrei borið skugga á. Við hittumst reglulega ásamt eiginkonum okkar og er fram liðu stundir hófum við að ferðast saman og fórum margar ferðir vítt og breitt um heiminn. En nú er skarð fyrir skildi og erum við einungis tveir eftirlifandi.
Að loknu kandídatsprófi (mastersprófi) í verkfræði, árið 1962, réðu flestir okkar sig til starfa í Kaupmannahöfn og þar á meðal Óli, vinur okkar sem nú er horfinn á braut.
Hann réð sig til verkfræðistofunnar Carl Bro A/S sem hönnunarverkfræðingur.
Sú verkfræðistofa hafði þá nýverið auglýst eftir verkfræðingi sem til viðbótar verkfræðistörfum gæti verið liðtækur í fótboltaliði fyrirtækisins! Óli var fótboltamaður góður og lék með úrvalsliði KR og landsliði Íslands og sú reynsla hefur örugglega verið aukabónus við ráðninguna.
Þar var hann í tvö ár en réð sig svo til verktakafyrirtækisins E. Phil og Søn og þar með hófst farsæll ferill hans við verktakastörf víðsvegar um heim. Óli var yfirleitt í stöðu yfirverkfræðings eða staðarverkfræðings á sínum starfsferli og vann við mörg og margvísleg verkefni. Má þar nefna veggangagerð í Færeyjum og Oddsskarðsgöng á Íslandi, hafnarframkvæmdir í Þorlákshöfn, Helguvík, Reykjavík, Ísrael og Sómalíu, vegagerð á Íslandi, brúargerð á Jamaíku, íbúðabyggingar á Grænlandi og Íslandi, orkuver í Ísrael og skólpútræsi á Srí Lanka. Þessi verkefni vann hann hjá E. Phil og Søn A/S, Breiðholti hf. og Ístaki hf.
Á Kaupmannahafnarárunum hafði Óli frumkvæði að því að stofna bridgeklúbb þar sem spilað var einu sinni í viku í heimahúsum. Sú spilamennska lá að mestu niðri eftir að Óli hóf störf í Færeyjum og annar stofnfélagi flutti heim en þegar Óli flutti heim frá Færeyjum 1967 og aðrir félagar voru einnig fluttir heim hafði hann frumkvæði að endurlífgun spilaklúbbsins og hefur hann starfað óslitið síðan. Það var okkur félögum þungbært vorið 2020 þegar Óli treysti sér ekki til að spila lengur. Þá var hann orðinn veikur af þeim sjúkdómi sem hann varð að búa við til hinstu stundar.
Nú þegar leiðir skilur þökkum við Óla fyrir trausta vináttu og ótalmargar ánægjulegar samverustundir og vottum eftirlifandi eiginkonu hans, Gerðu S. Jónsdóttur, börnum og fjölskyldum þeirra innilega samúð.
Hilmar Sigurðsson, Sigfús Thorarensen.
Við fyrrverandi samstarfsmenn Ólafs hjá Ístaki viljum kveðja góðan félaga til áratuga. Þegar við vorum að hefja störf sem nýútskrifaðir verkfræðingar var Ólafur þegar búinn að standa vaktina í góðan tíma sem verkfræðingur og yfirstjórnandi verklegra framkvæmda hérlendis og víða erlendis. Hann varð einn af þeim sem leiðbeindu okkur við störf verktakans, bæði varðandi stjórnun stórra og krefjandi verkefna, tilboðsgerð og að finna tæknilegar eða verkfræðilegar lausnir. Ólafur var lunkinn við að leysa ágreiningsmál við verkkaupa þar sem hans virðulega framkoma og rökfesta vógu þungt. Hann var okkur ungu verkfræðingunum góð fyrirmynd og lærifaðir.
Þegar nefnd eru lönd þar sem Ólafur kom að verkefnum má nefna, auk Íslands, Danmörku, Færeyjar, Grænland, Srí Lanka og ekki síst árin í Ísrael við ýmsar hafnarframkvæmdir. „Vits er þörf þeim er víða ratar.“
Já Ólafur var reyndur verkfræðingur á heimsvísu.
Verkefnin erlendis gátu verið misauðveld enda ekki fyrir hvern sem er að standa fyrir stórum verkefnum á erlendri grundu, en nú áratugum síðar eru erfiðleikarnir gleymdir og hjá okkur sem störfuðum með Ólafi í Ísrael standa eftir einstakar minningar frá Ísrael þar sem tekist var á við öðruvísi vandamál og auk þess að hafa lokið góðum verkefnum kynntumst við landi og þjóð.
Ólafur var alltaf glaðlegur og þægilegur í samskiptum og hafði gott lag á því að leiða verkin og þannig munum við sem störfuðum með honum alltaf minnast hans.
Hann var einn af þeim lykilmönnum sem byggðu upp Ístak.
Við sendum samúðarkveðjur til fjölskyldu Ólafs.
Fv. samstarfmenn hjá Ístaki,
Gísli Hansen Guðmundsson og Hermann Sigurðsson.