Guðný Gunnlaugsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 6. mars 1928. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 29. ágúst 2024.

Foreldrar hennar voru Gunnlaugur Sigurðsson skipstjóri, f. 28. september 1883 á Efra-Hvoli í Rangárvallasýslu, d. 1965, og Jóna Elísabet Arnoddsdóttir, f. 26. ágúst 1890 í Syðsta-Koti á Reykjanesi, d. 1951. Þau bjuggu á Gjábakka í Vestmannaeyjum. Systkini Guðnýjar voru Aðalsteinn Júlíus, f. 1910, d. 1991, Friðrik Þórarinn, f. 1913, d. 2002, Sigurbjörg, f. 1914, d. 1998, Arnoddur, f. 1917, d. 1995, Guðbjörg Þorsteina, f. 1919, d. 1983, Jón, f. 1920, d. 2007, Elías, f. 1922, d. 2021, og Ingvar, f. 1930, d. 2008. Hálfbræður hennar voru Gunnlaugur Scheving, f. 1906, d. 1992, og Þorsteinn Elís, f. 1908, d. 1909.

Guðný giftist Jens Kristinssyni frá Miðhúsum í Vestmannaeyjum 6. mars 1955. Hann var fæddur 13. september 1922 og lést 12. júlí 2015, eignuðust þau þrjú börn:

1) Elías Vigfús, f. 16. ágúst 1954, giftur Sigríði Gísladóttur, f. 1964. Börn þeirra eru: a) Gísli, f. 1981, giftur Bertu Björk Arnardóttur. Börn þeirra eru Atlas Örn, maki Helena Sigmarsdóttir, og Rakel Heba. Fyrir átti Gísli Aron Elí, maki Steinunn Björg Óladóttir. b) Jens Kristinn, f. 1985, giftur Marsibil Söru Pálmadóttur. Börn þeirra eru Elías Vigfús og Steinunn Eva en hún lést nokkurra daga gömul árið 2016. c) Aníta, f. 1991, maki Eyvindur Aron Jakobsson. Synir þeirra eru Ragnar Elí og Kristófer. 2) Jensína Kristín, f. 4. ágúst 1955, gift Halldóri Bjarnasyni, f. 1953. Börn þeirra eru: a) Guðný, f. 1975, gift Gústafi Adolf Gústafssyni, börn þeirra eru i) Arnar Smári, maki Guðrún Bára Magnúsdóttir. Börn þeirra eru Oktavía Dröfn og Óliver Gauti. ii) Egill Aron, maki Ólína Dröfn Ólafsdóttir. Dóttir þeirra er Saga Móey. iii) Elliði Snær. iv) Rakel Perla. b) Bjarni, f. 1978, giftur Dalreen Carmen Soares. c) Eydís, f. 1990, maki Egill Valur Hafsteinsson. Dóttir þeirra er Hafdís Kristín. d) Bjarki, f. 1997, maki Sirrý Rúnarsdóttir. Dóttir þeirra er Hekla. 3) Guðný, f. 1. janúar 1959, gift Guðmundi Gíslasyni, f. 1963. Börn þeirra eru: a) Viktoría, f. 1987, gift Unnþóri Jónssyni. Synir þeirra eru Bjartur, Jón Ernir, Birnir og Sólmundur. b) Ásgeir, f. 1988, giftur Lóreyju Rán Rafnsdóttur. Synir þeirra eru Freyr Leó, Ísleifur Berg og Eysteinn. c) Sóley, f. 1993, maki Níels Thibaud Girerd. Dóttir þeirra er Lea Guðný Níelsdóttir Girerd.

Guðný var Týrari í húð og hár, lauk íþróttakennaraprófi frá ÍKÍ að Laugarvatni 1946 og fór í Húsmæðraskólann á Laugarvatni árið 1948. Guðný kenndi íþróttir og sund við Barnaskóla Vestmannaeyja frá 1967 til ársins 1995. Einnig kenndi hún eldri borgurum leikfimi og sundleikfimi fram á níræðisaldur. Guðný og Jens byggðu sér hús við Bakkastíg 27 árið 1958 en það hús varð gosinu að bráð. Árið 1974 keyptu þau Höfðaveg 37 sem þau fullbyggðu og bjuggu þar síðan.

Guðný verður jarðsungin frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 20. september 2024, og hefst athöfnin klukkan 12.

Ég man þig – elsku mamma

ég man big alla tíð.

Við þraut svo þunga og ramma

þú þögul háir stríð.

Sem hetja í kvöl og kvíða

þú krýnd varst sigri þeim

sem á sér veröld víða

og vænni en þennan heim.

En þín ég sífellt sakna

uns svefninn lokar brá.

Og hjá þér vil ég vakna

í veröld Drottins þá.

Því jarðlífs skeiðið skamma

er skjótt á enda hér.

Og alltaf á ég, mamma,

minn einkavin í þér.

Ég veit það verõur gaman,

það verður heilög stund,

að sitja aftur saman

sem sátum við í Grund.

Þá gróa sorgarsárin

og söknuðurinn flýr.

Þá þorna tregatárin,

og tindrar dagur nýr.

Þá ljómar Drottins dagur

með dýrð og helgan frið,

svo tær og töfrafagur

um tveggja heima svið.

Þá hverfur raunin ramma

sem risti hold og blóð,

þá geng ég með þér mamma,

um morgunbjarta slóð.

(Rúnar Kristjánsson)

Þín dóttir,

Jensína Kristín (Systa).

Hún mamma er dáin og komin til hans pabba, ég veit að hann hefur tekið fagnandi á móti henni. Þetta er svo óraunverulegt, það er svo stutt síðan að hún var með okkur að taka þátt í lífinu. En stundum er bara betra að hlutirnir gangi hratt fyrir sig. Hún naut þeirra forréttinda, komin á 97. árið, að geta búið heima þar til nokkrum dögum fyrir andlátið.

Mamma var kjarnakona sem gustaði af. Hún hafði ákveðnar skoðanir á hlutunum og fór sjaldan leynt með þær. Hún sagði oft þegar hún var ekki sátt við eitthvað sem varðaði mál eyjanna að ef hún væri pennafær myndi hún skrifa í blöðin en ekki bara tala við eldhúsborðið.

Mamma var mikill náttúruunnandi og fóru þau pabbi í margar ferðir með Ferðafélagi Íslands á árum áður. Var hálendi Íslands í miklu uppáhaldi. Mamma og pabbi gengu mikið um eyjuna með okkur krökkunum og kenndu okkur þannig að njóta útiveru og náttúrunnar á Heimaey. Fyrir það er ég ævinlega þakklát. Þau þóttu nú stundum svolítið skrýtin að vera að þvælast þetta um eyjuna með börnin í engum tilgangi nema að njóta.

Mamma hafði mikið yndi af handavinnu. Hún saumaði heilu veggteppin og fleira sem prýðir heimili hennar. Einnig prjónaði hún mikið, þær eru ófáar peysurnar sem hún prjónaði á barnabörnin og barnabarnabörnin. Nú í sumar prjónaði hún síðustu peysuna sína á yngsta barnabarnabarnið sitt.

Á efri árum fór hún að perla og var hún í hópi góðra kvenna sem hittust í Arnardrangi einu sinni í viku og perluðu, naut hún þessara stunda. Mamma var skáti og átti hún margar góðar minningar úr skátastarfinu sem hún þreyttist ekki á að rifja upp. Einnig var hún mjög virk í íþróttalífi Eyjanna áður en hún stofnaði heimili. Í þá daga þótti það ekki fara saman að æfa íþróttir og hugsa um börn og bú. Mamma var mikill Týrari, ég held ég geti sagt það með sanni að enginn hafi verið meiri Týrari en hún var. Hún gat t.d. ekki horft á leiki milli Týs og Þórs, hafði ekki taugar til þess sagði hún. Pabbi stundaði engar íþróttir nema lundaveiði og bjargsig, en þau mamma sameinuðust í því að horfa á alls konar íþróttir í sjónvarpinu. Þegar ég var unglingur var það föst regla á laugardögum að horfa á ensku knattspyrnuna. Til þess að fá frið til að horfa settu þau slátur í pott og létu það sjóða meðan þau fylgdust með fótboltanum.

Mamma kenndi mér að synda þegar ég var smástelpa. Hún kenndi einnig börnunum mínum og fjöldanum öllum af öðrum börnum í Eyjum. Hún byrjaði að kenna í gömlu lauginni fyrir gos og hélt því svo áfram þegar við fengum nýja laug eftir gos. Án nokkurrar hlutdrægni segi ég það að mamma hafi verið besti sundkennari Eyjanna og þótt víðar væri leitað.

Ég minnist mömmu með mikilli hlýju, hún vildi allt fyrir okkur gera og bar hag okkar alltaf fyrir brjósti. Ég þakka elsku mömmu og líka elsku pabba fyrir allt sem þau voru mér og mínum í gegnum tíðina.

Guðný Jensdóttir.

Hinsta kveðja frá tengdasyni.

Jæja, þá hefur blessunin hún tengdamamma mín, Guðný Gunnlaugsdóttir frá Gjábakka í Vestmannaeyjum, lokið æviskeiði sínu á þessari jörð 96 ára, sátt við guð og menn. Ég efa ekki að það hafa orðið miklir og kærir endurfundir þegar hann Jens tengdapabbi tók á móti sinni heittelskuðu í eilífðarlandinu en hann lést árið 2015.

Tengdó eins og ég kallaði hana var næstyngst níu alsystkina og eins hálfbróður. Mín fyrstu kynni af tengdó voru gosárið þegar við Systa fórum að skjóta okkur saman, voru okkar samskipti alltaf hrein og bein. Hún lá ekki á skoðunum sínum, lét mann heyra það ef henni mislíkaði eitthvað í fari manns og þú snérir henni aldrei ef hún tók eitthvað í sig, þá hafði ég það á tilfinningunni að henni fyndist tengdasonurinn stundum heldur orðljótur en undir niðri held ég að hún hafi haft gaman af því.

Mig langar að minnast með alúð og þakklæti allra kaffibollanna og bakkelsisins sem ég fékk hjá ykkur Jens og síðan hjá þér eftir að hann Jens þinn féll frá 93 ára gamall, það voru ófáir morgnar sem við áttum saman í spjalli yfir kaffibolla og ræddum um menn og málefni og voru það oft skrautlegar umræður.

Tengdó var mikil hannyrðakona, saumaði út, heklaði og prjónaði og undir það síðasta var hún að perla. Gaf hún börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum ófáar prjónaðar flíkur og síðar hluti úr því sem hún perlaði.

Tengdó var alla tíð hraust en fékk samt smjörþef af veikindum en sigraðist á þeim og var heilsuhraust og með skýra hugsun fram í andlátið, þar af leiðandi gat hún búið heima hjá sér þar til yfir lauk.

Ég vil þakka þér, tengdó, fyrir að bjóða mig velkominn í fjölskylduna á sínum tíma, einnig vil ég þakka fyrir allar samverustundirnar sem við áttum saman, ég, Systa og börnin, hvort sem það var á Bröttugötunni, Höfðaveginum, uppi á landi eða erlendis, en við áttum þess kost að fara með ykkur í nokkrar ferðir.

Það er alltaf erfitt að kveðja en maður getur huggað sig við það að á því fimmtíu og eina ári sem við höfum verið samferða hefur aldrei borið skugga á okkar kynni.

Ég ber þá von í brjósti að þið Jens séuð nú saman á ný og séuð í göngu að skoða náttúruna í eilífðarlandinu.

Vil ég votta börnum, tengdabörnum, barnabörnum, barnabarnabörnum og öðrum ættingjum innilega samúð.

Þinn tengdasonur,

Halldór Bjarnason.

Elsku amma, hvar á ég að byrja. Að hafa þau afa í svona mikilli nálægð öll uppvaxtarárin var ótrúlega dýrmætt. Ég gat alltaf leitað til þeirra. Á unglingsárunum skutlaði afi mér út um allt á æfingar og í tónlistaskólann. Þegar ég varð eldri fór ég virkilega að kunna að meta að geta farið til þeirra í kaffi og spjall um allt og ekkert.

Amma var besta kona í heimi. Að koma heim til hennar var alltaf gott í hjartað. Hún tók á móti manni með stóra fallega brosinu sínu og spurði hvort hún ætti ekki að hella upp á kaffi, sama hvað klukkan var. Flestar minningar mínar með ömmu eru frekar hversdagslegar enda leið henni best heima hjá sér með fólkinu sínu. Í einni af mínum heimsóknum til ömmu sagði hún við mig að hún bara skildi ekki hvers vegna fólk færi upp á land, „hvað er þar sem er ekki hér í Eyjum?“ Amma var mér góð fyrirmynd á marga vegu. Hún hreyfði sig daglega á meðan hún gat það, tók vel á móti öllum, var hreinskilin og borðaði mikið af jólaköku. Þó að amma hafi verið heilbrigð kona og íþróttakennari þá bauð hún nánast undantekningalaust upp á bakkelsi og í seinni tíð suðusúkkulaði. Á tímabili afþakkaði ég jólaköku með kaffinu, sérstaklega á virkum dögum, því ég vildi ekki borða kökur oft í viku. Þá sagði amma: „Það þýðir náttúrulega ekkert að bjóða þér svona? Ég hef borðað sykur allt mitt líf og ég er orðin þetta gömul.“ Hún skildi ekkert í mér.

Að fylgjast með ömmu taka á móti öllum sínum afkomendum, knúsa þá og hlæja með þeim er eitt það fallegasta í þessum heimi. Ég átti mér draum í mörg ár að eignast börn áður en amma myndi kveðja. Til að vera örugg með heimferðasett prjónað af ömmu bað ég hana um að prjóna eitt slíkt fyrir þremur árum, hún þá orðin 93 ára og maður veit aldrei. Í desember í fyrra tilkynnti ég ömmu að ég ætti von á barni. Hún var ekki lengi að taka fram heimferðasettið sem hún var löngu búin að prjóna. Ég eignaðist svo mitt fyrsta barn í lok júní. Við fjölskyldan fórum til Eyja um leið og ég treysti mér til svo að dóttir mín gæti hitt langömmu sína og draumur minn myndi rætast. Að sjá ömmu halda á yngsta langömmubarninu sínu og sjá þessa skilyrðislausu ást var dásamlegt. Þær hittust svo aftur 15. ágúst, fjórtán dögum áður en hún lést. Þá var amma eins og alltaf, hress heima hjá sér og bauð upp á kaffi.

Þegar í ljós kom að amma ætti ekki langt eftir fór ég beinustu leið til Eyja til að kveðja hana. Á leiðinni til Landeyjahafnar ákváðum við nýbökuðu foreldrarnir nafn á dóttur okkar. Mig langaði að segja ömmu nafnið áður en hún myndi kveðja. Þegar komið var á spítalann til ömmu var hún enn þá hress og vel hægt að spjalla við hana. Ég bað um næði með ömmu í eitt andartak svo ég gæti sagt henni nafnið. Ég sagði ömmu að við ætluðum að skíra dóttur okkar Lea Guðný. Guðný í höfuðið á henni og mömmu minni. Henni fannst nafnið fallegt en sagði líka: „Er nú samt ekki komið nóg af Guðnýjum í fjölskylduna?“

Ég kveð ömmu með miklu þakklæti og mun ég segja Leu Guðnýju sögur af dásamlegu langömmu sinni.

Sóley Guðmundsdóttir.

Elsku amma mín. Þú varst uppáhaldsmanneskjan mín og skiptir mig svo miklu máli. Þú hefur verið stór hluti af lífi mínu frá því að ég fæddist og það voru forréttindi að alast upp og búa í sömu götu og þið afi. Hjá ykkur fékk ég skilyrðislausa ást og umhyggju og gat alltaf treyst á hlýjar móttökur á ykkar fallega heimili. Minningar úr æsku minni rifjast upp; þú að kenna mér á sundnámskeiði, við Ásgeir með þér í Týsheimilinu að kenna eldri borgurum leikfimi, með afa í bílnum að sækja þig í sundlaugina, að horfa á Lion King á spólu, leggja kapal og hlusta á plötur.

Þú vildir mér allt það besta og barst hag minn alltaf fyrir brjósti. Þér fannst erfitt að vita af mér í krefjandi aðstæðum eða á ferðalögum úti í heimi. Ég aftur á móti óttaðist að missa þig. Þegar þú dast einu sinni fyrir utan heima og afi hringdi til okkar eftir hjálp þá tók ég á rás til þín á sokkunum og hélt undir höfuðið á þér þar til sjúkrabíllinn kom. Þú þreyttist ekki á að minnast á þetta atvik því þér fannst svo merkilegt að ég hafði ekki einu sinni gefið mér tíma til að fara í skó svo umhugað var mér um þig.

Það var mér kappsmál að ná að eignast börn svo þau gætu kynnst þér. Bjartur minn fæddist 2017 og varð strax augasteinninn þinn, þú dýrkaðir hann og áttuð þið einstakt samband. Jón Ernir og Birnir bættust svo við og heilluðu þig upp úr skónum hvor á sinn hátt. Alltaf var það okkar fyrsta verk þegar við komum til Eyja að stökkva til langömmu og svo var farið í heimsókn á hverjum degi þar sem haldin voru kaffiboð með dótabollastellinu með rúsínur í krúsum. Svo tilheyrði að fá suðusúkkulaðimola hjá langömmu og heimabakaða jólaköku sem var sú allra besta. Þið Bjartur áttuð ykkar stund þegar þið spiluðuð blómaspilið og alltaf vann hann enda mikill snillingur að þínu mati. Þú slóst ekki slöku við í að leika við strákana og varst kastandi boltum og beygjandi þig niður í gólf til að kjassast í þeim alveg fram á hið síðasta. Sólmundur minn lýsti upp tilveru þína á dánarbeðinum og er ég óendanlega þakklát fyrir að strákarnir mínir hafi fengið að eiga þig að og ég veit að þeir gáfu þér líka mikið. „Þetta var yndisleg stund,“ sagðirðu jafnan þegar við vorum búin að vera hjá þér.

Undanfarin ár hef ég tekið mikið af myndum og vídeóum af þér með strákunum mínum sem munu hjálpa þeim að muna eftir elsku langömmu sinni og ylja mér um hjartarætur um ókomna tíð. Þig langaði ekkert til að verða 100 ára en verst þótti þér þó að ná ekki að sjá strákana mína vaxa úr grasi enda varstu viss um að þeir ættu eftir að ná langt. Ég mun hugsa til þín á þeirra stóru stundum í lífinu og minna þá á hvað langamma hafði mikla trú á þeim.

Elsku amma mín, takk fyrir alla hlýjuna, ástina, spjallið og kaffið hellt upp á á gamla mátann. Takk fyrir allt fallega prjónið sem ég á eftir þig, perlið og gull-diskamotturnar. Þessir hlutir munu alltaf eiga sinn sess á mínu heimili. Ég mun sakna þín mikið en er umfram allt með hjartað fullt af þakklæti fyrir að hafa verið ömmustelpan þín.

Þín

Viktoría.

Hér sit ég og læt hugann reika og hugsa til hennar elsku ömmu minnar sem átti langa og fallega lífsgöngu

Ég er elsta barnabarnið hennar en oft á tíðum leið mér meira eins og ég væri yngsta barnið hennar. Við áttum mjög gott samband og skipuðu amma og afi afar stóran og mikilvægan sess í æsku minni, enda bjuggum við nánast á sama blettinum. Alltaf var opið hús hjá ömmu og afa fyrir mig og til þeirra var gott að koma eftir skóla og fá knús og nýbakað hjá ömmu og taka í spil eða leggja kapal með afa.

Týr var liðið okkar ömmu, það kom aldrei annað til greina hjá mér en að fara í Tý enda fáir meiri Týrarar en hún amma.

Á yngri árum var amma mikið í íþróttum og spilaði handbolta og varð Íslandsmeistari um miðja síðustu öld. 18 ára fór amma og lærði íþróttakennarann á Laugarvatni og hefur hún í gegnum tíðina kennt ótal börnum að synda. Amma hafði alla tíð brennandi áhuga á sundkennslu og var dugleg að hvetja fólk til þess að iðka sund. Hún fylgdist vel með hinum ýmsu og ólíklegustu íþróttagreinum og var snóker þar í uppáhaldi.

Ung hófum við Gústi búskap í kjallaranum hjá ömmu og afa, það var öryggi í því og gott að geta kíkt upp til þeirra með lítinn gutta í knús, fara út í garð til þeirra þar sem þau eyddu löngum stundum við að fegra fallega garðinn eða bara upp í mat til þeirra. Gústi kom ungur inn í fjölskylduna og áttu hann og amma alltaf alveg einstaklega gott samband og var hún honum kær og var það gagnkvæmt. Ég hugsa þó að á okkar fyrstu árum saman hafi amma og afi nú oft hrist hausinn yfir þessum orkumikla og uppátækjasama dreng sem var kominn í kjallarann til þeirra.

Á sunnudögum kom fjölskyldan til ömmu í kaffi, súkkulaði og gott spjall, alltaf var það jafn gaman og dýrmætar stundir sem ég á eftir að sakna mikið. Það gaf ömmu svo mikið að fá fólkið sitt til sín. Það var einmitt vegna þessara stunda sem elsta barnabarnið okkar fór að kalla ömmu, súkkulaði-ömmu til þess að aðgreina hana frá hinum tveimur ömmum sínum sem heita einnig Guðný, amma hafði gaman af þessu og passaði ávallt að eiga súkkulaði í skál fyrir litla strumpa

Ég fór reglulega til ömmu og oftar en ekki beint í nýbakað og gott spjall um daginn og veginn og með prjóna í hönd. Amma var mikil handaverkskona og er svo margt fallegt handverk til eftir hana ömmu sem við fáum að njóta. Þessar gæðastundir okkar ömmu mun ég geyma vel í hjarta mér.

Hjarta mitt er fullt af þakklæti og það er svo dýrmætt að hafa fengið að eiga þessa yndislegu ömmu í rúm 49 ár, og fyrir allt það sem hún amma var mér, Gústa og börnunum mínum.

Nú er amma loksins komin til elsku afa sem hún saknaði svo sárt og ég efast ekki um að það hafi orðið fagnaðarfundir í sumarlandinu.

Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku amma, þú skilur eftir dásamlegar minningar og yndislegar stundir en ég sakna þín alveg óskaplega mikið.

Hvíldu í friði – ég mun ávallt sakna þín elsku amma – elska þig alltaf.

Þín

Guðný, Gústaf (Gústi) og langömmubörnin.

Takk fyrir allt elsku súkkulaði-amma, við eigum eftir að sakna þín.

Elsku amma mín, þakka þér fyrir allt það góða sem þú gafst mér.

Nú lokið er jarðvist, þú leggur af stað,

létt í spori gengur þú að,

ljósinu bjarta sem logar svo skært.

Úr lindinni tæru þér vatn verður fært.

Að segja oft erfitt, í sárindum er,

frá söknuði þeim er hugurinn ber.

Því orðin þau verða svo viðkvæm og
sár,

á vanganum birtast og mynda þar tár.

En ég færi þér óskir um glaðlegan fund,

frá ættingjum öllum á þessari stund.

Í sál okkar allra þú lifir sem fyrr

og sannlega oss veita í lífinu byr.

(Guðmundur Guðmundsson)

Þín

Oktavía Dröfn, Óliver Gauti og Saga Móey.

Hjartans besta Guðný föðursystir mín hefir kvatt þetta fallega líf og fer til fundar við hann Jens eiginmann sinn, eins og hún sagði við mig þremur dögum áður en hún lést.

Við kölluðum hana Mímí og hún vildi það sjálf. Hún var mér svo mikils virði, hugur minn er eitthvað svo vandræðalegur núna á þriðjudagsmorgnum því þá vorum við alltaf saman á heimili hennar og áttum svo skemmtilegar samræður og upprifjanir.

Við mamma mín fórum til Mímíar hvern þriðjudag á meðan mamma lifði, en hún lést 2002 og síðan höfum við hist tvær og Elli sonur hennar og oft fleiri og bara verið svo skemmtilegt.

Þessi ótrúlega duglega frænka mín orðin 96 ára hélt heimili sjálf, auðvitað með smáhjálp, ekki vildi hún vera að ónáða aðra að óþörfu.

Á sínum tíma lærði Mímí í íþróttaskólanum á Laugarvatni og litaðist líf hennar allt af þeim lærdómi, því hún var alltaf íþróttakennari og sundkennari hér í Eyjum. Hún spilaði líka handbolta og var í fimleikum og allt var svo fágað og fínt í hennar fari, hvort sem var sem kennari eða í lífinu. Allir í Gjábakkaættinni þekkja hana að góðu einu og fallegu.

Ég er svo mikið þakklát fyrir yndislegan og nærandi tíma með henni og Jens og afkomendum þeirra.

Hvíl í friði, elsku frænka mín.

Elísabet Arnoddsdóttir.

Kynslóðir koma og kynslóðir fara. Vinkona mín Guðný Gunnlaugsdóttir hefur fengið eilífðarhvíldina eftir langa og farsæla ævi. Ég var vissulega ekki inni á gafli á hverjum degi en þegar ég brá undir mig betri fætinum og hélt til Vestmannaeyja var yndislegt að heimsækja Guðnýju og fjölskyldu. Það var sönn ánægja að snæða lunda að hætti heimamanna á Höfðaveginum forðum. Gleðin var aðalsmerki fjölskyldunnar og þau hjónin brostu við lífinu og því sem það bauð upp á.

Fallin er hjartans fögur rós

og föl er kalda bráin.

Hún sem var mitt lífsins ljós

ljúfust allra er dáin.

Drjúpa hjóðlát tregatárin

og tómið fyllir allt.

Ekkert sefar hjartasáin

í sálu andar kalt.

Þögul sorg í sál mér næðir,

sár og vonar myrk

en Drottinn ætíð af gæsku græðir

og gefur trúarstyrk.

Hnípin vinur harmi slegin,

hugann lætur reika.

Kannski er hún hinumegin

í heilögum veruleika.

Þú ert laus frá lífsins þrautum

og liðin jarðarganga.

En áfram lifir á andans brautum

ævidaga langa.

Heimur bjartur bíður þar

og bráðum kem ég líka.

Þá verður allt sem áður var

er veröld finnum slíka.

Drottinn verndar dag og nótt

á dularvegi nýjum.

Aftur færðu aukinn þrótt

í eilífð ofar skýjum.

Þú alltaf verður einstök rós,

elsku vinan góða.

Í krafti trúar kveiki ljós

og kveðju sendi hljóða.

(Jóna Rúna Kvaran)

Með þessu ljóði vil ég heiðra minningu ættmóðurinnar Guðnýjar Gunnlaugsdóttur frá Gjábakka í Vestmannaeyjum og senda börnum hennar, Guðnýju, Systu og Ella, og þeirra afkomendum og ástvinum innilegar samúðarkveðjur. Megi minningin um góða konu lifa í hjörtum okkar.

Jóhanna B.

Magnúsdóttir.