Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir
Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir
Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir engan vafa leika á því að sjálfstæðismenn í Reykjavík séu mótfallnir samgöngusáttmálanum eins og hann var lagður fyrir. Sandra Hlíf Ocares varaborgarfulltrúi…

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir engan vafa leika á því að sjálfstæðismenn í Reykjavík séu mótfallnir samgöngusáttmálanum eins og hann var lagður fyrir. Sandra Hlíf Ocares varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði með sáttmálanum í borgarstjórn á dögunum en aðrir borgarfulltrúar D-listans greiddu atkvæði á móti og einn sat hjá.

„Enginn af aðalborgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins samþykkti sáttmálann og það segir allt sem segja þarf. Almenn skoðun meðal sjálfstæðismanna í borginni er að þetta mál sé á villigötum og að borgin hafi dregið stutta stráið í þessum samgöngusáttmála. Sú skoðun er því víðar en hjá okkur borgarfulltrúum og það er ekkert leyndarmál. Margir hefðu viljað að sáttmálinn væri endurskoðaður,“ segir Ragnhildur Alda þegar Morgunblaðið spyr hana út í stöðuna.

Kostnaðurinn vanmetinn

Hvað áttu við þegar þú segir að Reykvíkingar hafi dregið stutta stráið?

„Kostnaðurinn er algerlega vanmetinn og það er vitað. Opið er í hinn endann varðandi kostnaðinn og fólki finnst erfitt að skuldbinda sig til að greiða eitthvað sem er eins og opinn tékki. Sjálfstæðismenn hafa víða gagnrýnt þá stöðu en í Reykjavík teljum við að Reykvíkingar fái ansi litlar vegabætur miðað við að borga ansi mikið. Auk þess finnst mér ekki hægt að bjóða kjósendum upp á að bíða í umferðarhnútum í tíu ár til viðbótar. Það er bara ekki hægt.“

Spurð um afstöðu sjálfstæðismanna í sveitarfélögum í nágrenninu segir Ragnhildur Alda að hún liggi ekki alveg fyrir.

„Í Reykjavík er búið að taka málið til afgreiðslu en ef ég man rétt þá hefur það ekki verið tekið fyrir í Kópavogi, Mosfellsbæ eða á Seltjarnarnesi,“ segir Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir. kris@mbl.is