Ég ákvað að gefa listinni alvöru tækifæri eftir að hafa prófað aðra grein í háskóla, en hún hentaði mér ekki og ég er mjög þakklát að hafa hlustað á hjartað og mömmu. Árið 2021 ákvað ég að fara í grunnnám í hönnun við Marbella Design Academy á Spáni. Þar lærði ég margt en uppgötvaði líka að ég hef alls ekki gaman af því að sitja við tölvu. Ég fann mig mikið í innanhússhönnun og mun líklega bæta við mig menntun eða reynslu í framtíðinni á því sviði,“ segir Unnur Stella.
Fann sig í listnámi í Flórens
Eftir námið á Spáni ákvað Unnur Stella að fara í nám við Leonardo di Vinci-skólann í Flórens á Ítalíu þar sem hún fékk að mála og lærði keramik. „Þar fann ég mig algjörlega, lærði fullt af nýjum aðferðum og var með frábæran kennara sem leyfði mér að prófa mig áfram til að finna minn stíl. Svo fór ég í keramikkennslu í lítilli vinnustofu hjá fjölskyldu þar sem enginn talaði ensku. Ég var mjög heppin að fá að læra hjá fólki sem hefur verið að vinna með leir allt sitt líf. Einn daginn labbaði inn stelpa með 66°Norður-tösku og frá þeim degi gat ég talað íslensku við hana en reyndi samt áfram við ítölskuna,“ útskýrir hún.
„Þegar ég kom heim frá Ítalíu fékk ég að nota aðstöðu hjá leirlistakonu fyrir norðan – þar lærði ég að handbyggja með leirnum. Í fyrstu var erfitt að reyna að fullkomna verkin en svo áttaði ég mig á því að kannski ætti ég að fara alveg í öfuga átt, hætta að spá í fullkomnun og bara finna jafnvægið. Þegar ég finn eitthvað sem mér finnst gaman að gera reyni ég að staldra við um stund og endurtaka það. Þá fór ég að gera það sem ég kalla „ugly“ bollana mína – þeir eru litríkir og langt frá því að vera fullkomnir. Engir tveir eru eins og ég held að ég hafi gert um hundrað stykki, ef ekki fleiri,“ bætir hún við.
„Ég mála heiminn eins og ég vil sjá hann, fullan af litum og smá furðulegan. Ég reyni að mála nákvæmlega það sem ég vil og ekki pæla of mikið í hvað öðrum finnst. Svo fékk ég beiðni um sérpöntun í sumar sem var fyrir utan þægindarammann, en það er einmitt það sem mér finnst ég þurfa stundum svo ég festist ekki í einhverju einu, en fylgi samt mínum stíl,“ segir Unnur Stella.
„Ég mála mikið af upplifunum með mat og víni, stólar við borð og annað sem kemur upp í hugann. Mig langar helst að verkin mín geri einhvern hamingjusaman, hvort sem það eru litirnir, maturinn eða kettirnir sem ég mála mikið, þótt ég sé ekki beint kattaaðdáandi,“ bætir hún við.
Hvaðan sækir þú innblástur?
„Fyrir „borðhöldin“ sem ég mála mikið kemur innblásturinn helst úr umhverfi mínu þar sem ég hef unnið lengi í veitingageiranum, en einnig út frá því að einfaldlega borða góðan mat með fjölskyldunni. Ég neyddist til að búa með þremur köttum í Bandaríkjunum og fékk þá mikinn innblástur til að mála þessar litlu skepnur sem gera nákvæmlega það sem þær vilja, svo mér fannst viðeigandi að mála þær með sígó og glas í hendi.
Ég fæ einnig mikinn innblástur frá öðrum listamönnum, litum og hlutum sem ég sé út um allt. Hönnun er alls staðar í kringum okkur og það er bara ekki hægt að leiða hana hjá sér þegar maður er byrjaður að opna augun.“
Hvað er það við sköpunarferlið sem heillar þig mest?
„Það sem mér finnst mest heillandi er að geta málað hvað sem ég vil, hvaða hugmynd sem ég fæ, og deilt henni með öðrum. En það er einmitt líka það sem getur verið mest krefjandi, eins og þegar ég fæ kannski fimm hugmyndir í einu. Ég kann að meta að geta komið því sem ég vil á framfæri með litum og formum og veit að ég mun bara verða betri í því að tjá mig í gegnum listina. Listin og tækin eru lifandi og í stöðugri þróun, en þannig vil ég hafa það.“
Mikilvægast að hafa gott andrúmsloft á vinnustofunni
Unnur Stella er með fallega vinnustofu í JMJ-húsinu á Akureyri um þessar mundir. Henni þykir mikilvægt að vera á vinnustofu með góðu andrúmslofti og leggur mikið upp úr því að öllum líði vel á vinnustofunni, bæði henni sjálfri og gestum.
„Mér finnst best að hafa vinnustofuna mína frekar hráa svo ég geti leyft listinni að vera sem litríkust! Plöntur, tónlist, góð setustofa og kaffivél hjálpa svo mikið til við að skapa góðan anda. Ég hef líka verið með nokkrar vinnustofur þar sem ég hef verið búsett síðustu ár, í Malmö, Svíþjóð og New Orleans, en heima er alltaf best! Nú er ég í leit að vinnustofu í Hollandi fyrir ný verkefni,“ segir hún.
Áttu þér uppáhaldsverk sem þú hefur gert?
„Þetta er einmitt erfiðasta spurningin! Eins og er, þá er það stórt málverk sem ég gerði sérstaklega fyrir nýjan veitingastað á Akureyri, Terían Brasserie. Það er mynd af hjónum sem ég fann í gömlu myndaalbúmi frá ömmu. Það verk fór með mig langt út fyrir þægindarammann, en ég er mjög sátt með litapallettuna og lokaútkomuna.“