Mótmæli Myndin af Qussay Odeh á mótmælunum vakti mikla athygli í maí.
Mótmæli Myndin af Qussay Odeh á mótmælunum vakti mikla athygli í maí. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Það hljómar asnalega en ég finn dálítið til með lögreglunni sem var þarna,“ segir Qussay Odeh, Palestínumaður sem hefur búið á Íslandi í 25 ár og er gestur Dagmála í dag. Mynd af Qussay þar sem hann heldur utan um palestínskan fána með…

Iðunn Andrésdóttir

idunn@mbl.is

„Það hljómar asnalega en ég finn dálítið til með lögreglunni sem var þarna,“ segir Qussay Odeh, Palestínumaður sem hefur búið á Íslandi í 25 ár og er gestur Dagmála í dag.

Mynd af Qussay þar sem hann heldur utan um palestínskan fána með báðum höndum á mótmælum á meðan lögregluþjónn spreyjar piparúða í andlit hans vakti mikla athygli í maí og varð síðar innblástur að málverki eftir íslenska listamanninn Þránd.

„Maður horfir daglega á fólkið að deyja, börnin, allt sem er að gerast á Gasa. Svo kemur smá piparúði – þetta er ekki neitt.“

Ekki reiður lögreglu

Hann segir ekki réttlætanlegt að lögreglan hafi gripið til slíkra ráðstafana og að hún hljóti að hafa upplifað mikið stjórnleysi fyrst hún greip til ofbeldis gegn friðsamlegum mótmælendum. Hann sé því ekki reiður lögreglu.

Stjórnvöld ættu að hans mati að hlusta á þjóðina og stíga fastar til jarðar í afstöðu sinni gagnvart framgöngu Ísraelsmanna á Gasa-svæðinu, enda séu Íslendingar réttsýn þjóð. Kveðst Qussay eiga erfitt með að skilja hvernig heimurinn haldi áfram á meðan slíkar hörmungar dynji á.

„Við erum að horfa upp á þjóðarmorð í beinni útsendingu.“

Hann segir það rétt og skyldu Palestínumanna að gera uppreisn gegn kúgun og hernámi sem hafi verið við lýði síðan 1948. Það sé áróður og einföldun að lýsa því sem hryðjuverkum án þess að líta á heildarmyndina. Enginn fordæmi það að Úkraínumenn berjist gegn Rússum eða dragi rétt Ísraelsmanna til að verjast í efa.

Jerúsalem borg allra

„Það er náttúrulega alltaf hræðilegt þegar það er stríð eða árás eða dráp. Alltaf. Það er alveg sama hvar, hvenær og hverjir lenda í því. En það er ekki skrítið að 7. október gerðist og muni gerast aftur,“ segir Qussay.

Hann segir ásakanir gegn Palestínumönnum og þeim sem gagnrýni síonisma um gyðingaandúð fráleitar, enda hafi palestínskir gyðingar búið á svæðinu áður en Ísraelsríki var stofnað.

Það að saka þau um slíkt sé fátt annað en áróður. Mörg í broddi frelsishreyfingar fyrir Palestínu eru sjálf gyðingar enda sé verið að berjast gegn hernámi ekki trú. Það séu Ísraelar sjálfir sem setji samasemmerki á milli síonismans og gyðingdómsins.

„Jerúsalem er borg allra. Palestínumenn eru kristnir, múslímar og gyðingar.“