Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Mikil óánægja er meðal eigenda heilsárshúsa og sumarhúsa við Hafravatn vegna áforma bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ um stórfellda efnistöku úr Seljadalsnámu sem er skammt austan vatnsins. Þetta kemur fram í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar þar sem umsagnir þeirra um fyrirhugaðan námugröft eru birtar.
Þar kemur fram að Mosfellsbær áformi útboð á efnistöku á allt að 230 þúsund rúmmetrum af steinefnum í námunni í Seljadal og er tilgangurinn sagður öflun fyrsta flokks steinefnis fyrir malbik á höfuðborgarsvæðinu.
Efnistaka hefur farið fram með hléum í Seljadalsnámu frá árinu 1986, en ekki hefur verið unnið efni úr námunni síðan árið 2016. Nú er ætlunin að vinna fyrrgreint efnismagn í námunni næstu 13 til 19 árin sem þýðir vinnslu á um 12 til 18 þúsund rúmmetrum á ári. Skv. áformunum sem lýst er á vef Skipulagsstofnunar mun engin forvinna efnis fara fram í námunni og óheimilt verður að vinna í námunni í júní, júlí og ágúst.
Stjórn Félags sumarhúsaeigenda við Krókatjörn, Myrkurtjörn og Silungatjörn mótmælir harðlega meginniðurstöðu skýrslunnar og telur hana byggða á röngum forsendum og villandi upplýsingum. Að mati stjórnarinnar mun framkvæmdin þvert á móti hafa verulega neikvæð áhrif á hljóðvist og ásýnd náttúrunnar á umræddu svæði, loftgæði og dýralíf ásamt því að leiða til óafturkræfs rasks á náttúru svæðisins. Mótvægisaðgerðir dugi ekki til að milda neikvæð áhrif fyrir eigendur frístundahúsa sem kjósa að dvelja í þeim allt árið.
Margvíslegar athugasemdir eru gerðar við efnistökuáformin. Fullyrt er að hávaði frá sprengingum í námunni, af gröfu við stórgrýtismokstur eða af akstri grjótflutningabíla hafi aldrei verið mældur, en hávaði af slíkum akstri muni „enduróma af fjallinu og inn í dalinn. Þá virðist iðulega gleymast að fjallið endurkastar hljóðum inn dalinn og yfir byggðina,“ segir í umsögninni. Þá segir félagið að sumarhúsaeigendur á svæðinu muni verða fyrir lækkun á verðmæti fasteigna sinna og lóða með tilkomu námuvinnslunnar.