Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Mikill ótti ríkir meðal almennings í Líbanon í kjölfar þess að þúsundir símboða og talstöðva í fórum liðsmanna Hisbollah-samtakanna, sem hafa bækistöðvar þar í landi, sprungu á þriðjudag og miðvikudag.
Her Líbanons sagði í gær í færslu á samfélagsmiðlinum X, að sérsveitir hersins hefðu sprengt grunsamlega símboða og fjarskiptatæki á ýmsum stöðum í landinu.
Þá hvatti herinn almenning til að halda sig fjarri svæðum þar sem slíkar aðgerðir stæðu yfir og tilkynna um grunsamleg tæki eða hluti.
Firass Abiad heilbrigðisráðherra Líbanons sagði í gær að 37 hefðu látið lífið og 2.931 særst þegar símboðar og talstöðvar sprungu í vikunni.
Hassan Nasrallah leiðtogi Hisbollah flutti sjónvarpsávarp í gær og sagði að samtökin hefðu orðið fyrir áfalli vegna fordæmalausra árása Ísraelsmanna, sem hefðu farið út fyrir öll mörk með því að sprengja fjarskiptatækin. Sagði hann að þessar árásir kynnu að vera stríðsglæpir eða að minnsta kosti stríðsyfirlýsing. Ísrelsmenn hefðu ekki skeytt um að saklausir borgarar og börn yrðu fyrir árásunum. „Þetta er hrein hryðjuverkastarfsemi,“ sagði Nasrallah og bætti við að Hisbollah myndi ekki hætta hernaðaraðgerðum gegn Ísrael fyrr en stríðinu á Gasa-svæðinu lyki.
Nasrallah sagði að árásin hefði náð til um 4 þúsund símboða en hluti þeirra hefði ekki verið í notkun. Hann sagði að rannsókn væri hafin á því innan Hisbollah hvernig staðið hefði verið að árásinni.
Á meðan Nasrallah flutti ávarp sitt gerði Ísraelsher loftárásir á skotmörk á yfirráðasvæði Hisbollah í suðurhluta Líbanons og herþotur rufu hljóðmúrinn yfir höfuðborginni Beirút. Í yfirlýsingu sagði herinn að um væri að ræða hluta aðgerða sem ætlað væri að tryggja að um 60 þúsund íbúar í norðurhluta Ísraels, sem hafa verið fluttir frá svæðinu vegna átaka Ísraelsmanna og Hisbollah við landamæri Ísraels og Líbanons, gætu snúið aftur heim.
Boðað hefur verið til funda r í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag um málið. Najib Mikati forsætisráðherra Líbanons hvatti ráðið í gær til að lýsa harðri andstöðu við „tæknistríðið“ sem Ísraelsmenn heyi gegn Líbanon.
Flókin skipulagning
Breska ríkisútvarpið BBC segir að þær raddir heyrist, að Ísraelsmenn kunni að hafa brotið alþjóðalög með því að koma fyrir sprengiefni í búnaði, sem ekki er ætlaður til hernaðarnota, og valdið almenningi skaða. En Ísraelsmenn hafi ekki viðurkennt að hafa staðið á bak við símboðaárásina og muni hugsanlega aldrei gera það opinberlega.
Bandaríska dagblaðið New York Times sagðist í gær hafa rætt við tólf þarlenda núverandi og fyrrverandi embættismenn á sviði varnarmála og leyniþjónustu sem hefðu fengið upplýsingar um málið og rætt við blaðið í skjóli nafnleyndar. Þeir hafi allir sagt að Ísraelsmenn stæðu á bak við aðgerðirnar sem hefðu verið flóknar og skipulagning þeirra hefði tekið langan tíma.
Leiðtogar Hisbollah voru sannfærðir um að Ísraelsmenn hefðu brotist inn í farsímakerfi þeirra og nýtt sér það til að gera árásir á þá. Hassan Nasrallah hafði lengi hvatt til þess að liðsmenn samtakanna notuðu frekar símboða en farsíma til að eiga samskipti og í febrúar sl. flutti hann sjónvarpsávarp þar sem hann sagði liðsmönnum sínum að grafa símana eða setja þá í lokaða kassa.
Ísraelska leyniþjónustan sá þarna tækifæri til að búa til einskonar nútíma trójuhest og byrjaði fyrir tveimur árum að undirbúa aðgerðina með því að stofna skúffufyrirtæki sem litu út fyrir að vera alþjóðlegir símboðaframleiðendur.
Eitt þeirra hafi verið ungverska fyrirtækið B.A.C. Consulting, sem gerði samning við fyrirtæki í Taívan, Gold Apollo, um að framleiða símboða fyrir það. En New York Times hefur eftir þremur embættismönnum innan leyniþjónustunnar, að fyrirtækið hafi í raun verið á vegum Ísraelsmanna. Tvö önnur slík fyrirtæki hafi verið stofnuð til að fela að þeir sem í raun framleiddu símboðana voru ísraelskir leyniþjónustumenn.
Öryggislögreglan í Búlgaríu tilkynnti í gær, að verið væri að rannsaka hvort þarlent fyrirtæki tengdist símboðamálinu. Að sögn AFP-fréttastofunnar var tilkynningin birt í kjölfar fréttar á ungverska fréttavefnum Telex, þar sem haft var eftir ónafngreindum heimildum að fyrirtækið Norta Global, sem skráð er í Sofíu, hafi flutt inn símboða og síðan sent þá áfram til Hisbolla. Norta Global var skráð í fyrirtækjaskrá í Sofíu 2022 en það er í eigu Norðmanns.
New York Times segir, að B.A.C. hafi gert samninga við aðra viðskiptavini um að framleiða venjulega símboða. En eini viðskiptavinurinn sem skipti máli var Hisbollah og símboðarnir sem voru framleiddir fyrir þau samtök voru langt frá því að vera venjulegir og rafhlöðurnar í þeim innihéldu öflugt sprengiefni, að sögn leyniþjónustumannanna sem blaðið ræddi við.
Byrjað var að flytja þessa símboða til Líbanons árið 2022 í litlu magni, en framleiðslan var aukin til muna á þessu ári eftir sjónvarpsávarp Nasrallah. Þúsundir símboða voru fluttar til Líbanons í sumar og þeim var dreift til yfirmanna Hisbollah, að sögn tveggja bandarískra leyniþjónustumanna, sem New York Times talaði við.
Í augum Hisbollah voru símboðarnir vörn gegn fjarskiptanjósnum Ísraelsmanna en í Ísrael töluðu leyniþjónustumenn um þá sem „takka“ sem hægt væri að ýta á þegar rétti tíminn kæmi. Sá tími virðist hafa verið nú í vikunni og á sl. þriðjudag var gefin skipun um að virkja símboðana.
Deild 8200
Fullyrt er að ísraelska leyniþjónustan Mossad hafi skipulagt símboðasprengingarnar en Reuters-fréttastofan hefur eftir ónafngreindum vestrænum öryggismálafulltrúa að sérstakur hópur innan leyniþjónustu hersins, Deild 8200, hafi einnig tekið þátt í undirbúningnum. Deild 8200 hafi þannig rannsakað hvernig hægt væri að koma fyrir sprengiefni í símboðunum.
Ísraelsher vildi ekki tjá sig um þetta við Reuters en fyrrverandi leyniþjónustumenn, sem Reuters ræddi við, sögðu að í þessari deild störfuðu nokkrir af bestu starfsmönnum hersins sem væru sérstaklega valdir til að þróa og nota tækni til að afla upplýsinga.
Deildin er þekkt fyrir vinnumenningu sína, þar sem áhersla er lögð á að hugsað sé „út fyrir rammann“ til að undirbúa viðbrögð við atburðum og kringumstæðum, sem ekki hafa komið upp en kunna að gera það.
Deildin er þannig í raun hluti af viðvörunarkerfi hersins en eins og aðrar leyniþjónustudeildir Ísraels varð hún að axla hluta af ábyrgðinni á því að hafa ekki komið í veg fyrir árás Hamas-samtakanna á Ísrael 7. október á síðasta ári. Yfirmaður deildarinnar sagði þannig af sér í síðustu viku og í uppsagnarbréfi, sem ísraelskir fjölmiðlar birtu, sagðist hann ekki hafa uppfyllt starfsskyldur sínar.