Gegnumbrot FH-ingurinn Jóhannes Berg Andrason brýtur sér leið framhjá Eyjamanninum Róberti Sigurðarsyni í Kaplakrika í Hafnarfirði í gær.
Gegnumbrot FH-ingurinn Jóhannes Berg Andrason brýtur sér leið framhjá Eyjamanninum Róberti Sigurðarsyni í Kaplakrika í Hafnarfirði í gær. — Morgunblaðið/Anton Brink
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Garðar Ingi Sindrason var markahæstur hjá Íslandsmeisturum FH þegar liðið tók á móti ÍBV í stórleik 3. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í Hafnarfirði í gær. Leiknum lauk með þriggja marka sigri FH, 33:30, en Garðar Ingi skoraði 6 mörk í leiknum

Handboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Garðar Ingi Sindrason var markahæstur hjá Íslandsmeisturum FH þegar liðið tók á móti ÍBV í stórleik 3. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í Hafnarfirði í gær. Leiknum lauk með þriggja marka sigri FH, 33:30, en Garðar Ingi skoraði 6 mörk í leiknum. FH er með 4 stig í öðru sæti deildarinnar en ÍBV er í sjötta sætinu með þrjú stig.

Eyjamenn byrjuðu leikinn mun betur og leiddu með fjórum mörkum, 6:2, eftir tíu mínútna leik. Þá sneru FH-ingar leiknum sér í vil og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 19:15. Jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks og ÍBV tókst að minnka forskot FH í tvö mörk, 21:19, en lengra komust þeir ekki.

Daníel Freyr Andrésson átti stórleik í marki FH og varði 14 skot en Kári Kristján Kristjánsson var markahæstur hjá ÍBV með 10 mörk.

Össur Haraldsson fór mikinn fyrir Hauka þegar liðið vann sjö marka sigur gegn ÍR, 37:30, á Ásvöllum í Hafnarfirði en Össur skoraði 10 mörk í leiknum. Haukar eru eina lið deildarinnar sem er með fullt hús stiga eða 6 stig á toppnum en ÍR er með 2 stig í níunda sætinu.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var staðan jöfn, 16:16, í hálfleik. Þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka náðu Haukar þriggja marka forskoti, 23:20. ÍR-ingum tókst aldrei að snúa leiknum sér í vil eftir þetta og Haukar fögnuðu sannfærandi sigri í leikslok.

Aron Rafn Eðvarsson varði 10 skot í marki Hauka en Róbert Snær Örvarsson var markahæstur hjá ÍR-ingum með 9 mörk.

Lokaði markinu í Garðabæ

Adam Thorstensen átti frábæran leik í marki Stjörnunnar þegar liðið vann þriggja marka sigur gegn Val í Garðabænum, 28:25, en markvörðurinn gerði sér lítið fyrir og varði 14 skot í leiknum. Stjarnan er með 4 stig í fjórða sætinu en Valur er með 1 stig í tíunda og þriðja neðsta sætinu.

Stjarnan byrjaði leikinn miklu betur og leiddi með fimm marka mun, 10:5, þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður. Stjarnan jók forskot sitt ennþá frekar og leiddi með sex mörkum í hálfleik, 21:15. Garðbæingar voru með yfirhöndina í síðari hálfleik en Valsmönnum tókst að minnka muninn í tvö mörk, 24:22, um miðjan hálfleikinn. Leikurinn var í járnum eftir þetta og munaði tveimur mörkum á liðunum, 27:25, þegar fimm mínútur voru til leiksloka en Garðbæingar voru sterkari á lokamínútunum.

Jóhannes Björgvin, Jóel Bernburg og Starri Friðriksson skoruðu 6 mörk hver fyrir Stjörnuna en Viktor Sigurðsson og Ísak Gústafsson voru markahæstir Valsmanna með 6 mörk hvor.

Reynir Þór Stefánsson var markahæstur hjá Fram með 9 mörk þegar liðið lagði Gróttu á Seltjarnarnesi, 35:31. Fram er með 4 stig í þriðja sætinu en Grótta er í því fimmta, einnig með 4 stig.

Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en Framarar leiddu með einu marki í hálfleik, 16:15. Frömurum gekk illa að hrista Seltirninga af sér og var munurinn áfram eitt mark, 23:22, Fram í vil, þegar síðari hálfleikurinn var hálfnaður.

Framarar sigu hins vegar fram úr eftir því sem leið á leikinn og fögnuðu nokkuð öruggum fjögurra marka sigri í leikslok.

Arnór Máni Daðason varði 12 skot í marki Framara en Jón Ómar Gíslason átti sannkallaðan stórleik fyrir Gróttu og skoraði 11 mörk.

Höf.: Bjarni Helgason