Staðan kom upp á opnu alþjóðlegu skákmóti sem lauk fyrir skömmu í Las Palmas á Kanarí. Sigurvegari mótsins, stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson (2.526), hafði svart gegn hinum þrautreynda Bojan Kurajica (2.409) sem teflir núna undir fána Króatíu. 46. … Hxe2! og hvítur gafst upp enda taflið tapað t.d. eftir 47. H1xe2 Hxe2 48. Kxe2 b2. Vignir fékk 7 1/2 vinning af 9 mögulegum og varð einn efstur á mótinu. Fimm skákmenn deildu öðru sætinu með 7 vinninga. Alþjóðlegu meistararnir Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2.366) og Dagur Ragnarsson (2.322) fengu 6 1/2 vinning og lentu í 7.-17. sæti. Alexander Oliver Mai (2.182) fékk 5 vinninga. Vignir vann samtals fjögur alþjóðleg mót í sumar og teflir þessa dagana á fyrsta borði fyrir íslenska liðið í opnum flokki á ólympíuskákmótinu í Búdapest í Ungverjalandi, sjá skak.is.