Svíar hyggjast lækka skatta í því skyni að efla hagvöxt, sagði ríkisstjórnin í gær í drögum að fjárlögum fyrir árið 2025 sem kynnt voru á blaðamannafundi. Stjórnarandstaðan mótmælti fjárlögunum sem voru sögð vanrækja loftslagsmál með lækkuðum sköttum á bensín og olíu og að aukinn hagvöxtur yrði á kostnað velferðarkerfisins.
Mikil verðbólga undanfarin tvö ár hefur hamlað hagvexti í landinu og þegar ríkisstjórn Ulfs Kristensens komst til valda árið 2022 var lækkun verðbólgu og verðlags í landinu eitt af helstu málum ríkisstjórnarinnar. „Við höfum nú unnið þá baráttu,“ sagði Elisabeth Svantesson fjármálaráðherra á blaðamannafundi í gær. Vonast er til að skattalækkanir komi efnahagslífinu á skrið, en hagvöxtur dróst saman um 0,3 prósent á öðrum ársfjórðungi.
Verðbólga undir 2% í ágúst
„Í framhaldinu verður að tryggja að verðbólgan haldist niðri og hrinda í framkvæmd umbótum og fjárfestingum sem byggja upp blómlegri og öruggari Svíþjóð fyrir komandi kynslóðir,“ segir í fjárlögunum.
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir 60 milljörðum sænskra króna, að útgjöldum til hermála frátöldum. Rúmur helmingur þeirrar upphæðar er ætlaður til skattalækkana sem ríkisstjórnin segir að muni auka eyðslugetu heimilanna. Gert er ráð fyrir í drögunum að skattbyrði verði lægri en hún hefur verið frá árinu 1980.
Fjárlögin eru sögð marka umskipti frá varkárri fjármálastefnu sem miðar eingöngu að því að berjast gegn verðbólgu yfir í víðtækari stefnu sem miðar að því að skapa langtímavöxt og samkeppnishæfni.