Sigríður Kristjánsdóttir fæddist í Reykjavík 26. maí 1967. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 8. september 2024.
Móðir hennar er Ásta Guðmundsdóttir, f. í Reykjavík 28.1. 1948. Faðir hennar var Kristján Jóhann Agnarsson, forstjóri Kassagerðar Reykjavíkur hf., f. í Reykjavík 4.7. 1946, d. 20.11. 2002. Þau skildu.
Systkini Sigríðar eru: 1) Unnur Helga, f. 22.11. 1969. Eiginmaður hennar er Páll Kolka Ísberg. Börn hennar eru a) Ásta Sigríður Harðardóttir, f. 12.12. 1990, og b) Gunnar Sigurðsson, f. 10.2. 1997. 2) Systkini Sigríðar samfeðra eru: a) Kristján Jóhann, f. 7.12. 1977, hans sonur er Loki, f. 10.4. 2011. b) Þorvaldur Símon, f. 2.10. 1981. Eiginkona hans er Ragnheiður Guðrún Magnúsdóttir. Þeirra börn eru: Rakel, f. 20.2. 2012, Magnús, f. 13.5. 2015, og Brynja, f. 3.12. 2016. c) Margrét Sesselja, f. 13.9. 1986. Eiginmaður hennar er Ásgeir Atlason. Barn þeirra er Andrea Bára, f. 6.10. 2019. Móðir þeirra, seinni kona Kristjáns, er Andrea Guðnadóttir.
Eiginmaður Sigríðar er Sigríkur Jónsson, f. 15.12. 1965. Börn þeirra eru: 1) Bryndís, f. 30.10. 1993. Eiginmaður hennar er Ómar Friðriksson, f. 5.3. 1993. Börn þeirra eru a) Daníel Andri, f. 13.1. 2017, og b) Alma Líf, f. 13.4. 2020. 2) Rikka, f. 7.3. 2000. Unnusti hennar er Jón Þórðarson, f. 30.6. 1992. Sonur þeirra ónefndur, f. 21.7. 2024. 3) Sara, f. 9.11. 2005.
Sigríður tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1987 og lauk búfræðinámi á hestabraut frá Háskólanum á Hólum 1989.
Að námi loknu hófu hún og Sigríkur að starfa við landbúnað og hrossarækt á ýmsum stöðum á landinu. Hófu þau sína hrossarækt á þessum árum og var þetta góður undirbúningur fyrir að stofna sinn eigin búrekstur. Lengst af dvöldu þau í Skagafirði, frá 1993-2000. Þar vann Sigríður bæði við tamningar og bústörf á Hvíteyrum í Lýtingsstaðahreppi.
Árið 2000 flytja Sigríður og Sigríkur til Bandaríkjanna og þar ráku þau hestabúgarð og stóðu að innflutningi á íslenskum hestum til sölu innan Bandaríkjanna. Þau fluttu aftur til Íslands árið 2002 og fjárfestu þá í jörðinni Syðri-Úlfsstöðum í Austur-Landeyjum þar sem þau ráku tamningastöð og stunduðu hrossarækt. Sigríður hóf fljótlega störf hjá Sýslumanninum á Suðurlandi og starfaði þar allt til lokadags. Sigríður undi hag sínum vel í Landeyjunum, tengdist þar góðu fólki og tók virkan þátt í félagslífi í sveitinni og var í kvenfélaginu. Sigríður var mikil fjölskyldukona, átti stóran vinahóp og naut þess taka til verks utandyra og vék sér aldrei undan verki.
Útför Sigríður verður gerð frá Krosskirkju í Austur-Landeyjum í dag, 20. september 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.
Kveðjustundin er komin, alltof fljótt finnst mér. Hvernig má það vera að stelpan mín sé farin? Aðeins 57 ára og átti svo margt eftir að gera í lífinu og njóta, ekki síst barna og barnabarna.
Hún var bara sjö ára þegar við Kristján faðir hennar hófum sambúð árið 1974. Hún og systir hennar Unnur Helga urðu minn bónus í okkar hjónabandi. Þær hafa báðar auðgað mitt líf og kennt mér svo margt. Ég er þakklát Ástu mömmu þeirra fyrir að hafa fengið að deila þeim með henni svona farsællega.
Þegar ég eignaðist sjálf börn var Sigga mín stóra systir í orðsins fyllstu merkingu. Hún tók fagnandi á móti litla bróður, sagðist vera aukamamma hans og var einbeitt í að aðstoða pabba sinn þegar ég var í burtu vegna vinnu, passaði upp á að allt væri gert rétt.
Við fjölskyldan byrjuðum snemma að stunda hestamennsku og var áhugi Siggu einna heitastur, hana skorti aldrei vilja til að fara í hesthús og ríða út. Sveitin kallaði alltaf á hana og lífsstíll hennar var alltaf litaður af áhuga á hestum og lífinu í sveitinni. Hún kynntist Rikka sínum í Hólaskóla þar sem þau voru bæði við nám í hrossatamningum. Þau urðu ástfangin og hestamennska og bústörf urðu starfsvettvangur þeirra. Við hjónin keyptum Syðri-Úlfsstaðahjáleigu í Austur-Landeyjum. Eftir að hafa unnið við sveitastörf á Íslandi og í Bandaríkjunum og eftir fráfall föður Siggu fluttu þau Rikki heim og festu kaup á næstu jörð, Syðri-Úlfsstöðum. Þau tóku að sér að sjá um og sinna að öllu leyti jörðinni okkar eftir að Kristján lést, og er ég afar þakklát fyrir það. Samveran og það að hafa þau í næsta nágrenni var ómetanlegt og átti ég og fjölskyldan öll margar góðar stundir með þeim við sveitastörf og hestamennsku.
Sigga mín var ákveðin og sterk kona, einstaklega dugleg og hörð af sér. Hún var beinskeytt og ófeimin við að segja sína skoðun á hlutunum, og hún gat líka verið hrókur alls fagnaðar á mannamótum. Ósköp á ég eftir að sakna hennar, hún skilur eftir sig stórt skarð í hjarta mínu.
Verndi þig englar, elskan mín,
þá augun fögru lykjast þín;
líði þeir kringum hvílu hljótt
á hvítum vængjum um miðja nótt.
(Steingrímur Thorsteinsson)
Andrea Guðnadóttir.
Stóra systir. Þú varst alltaf fremst og fyrst. Leiðtoginn og baráttukonan, varðir okkur og alla sem þú elskaðir með kjafti og klóm. Varst alltaf trú sjálfri þér, alltaf sönn og samkvæm sjálfri þér, sama hvað þú valdir að gera eða fara.
Hálfsystir var mér sagt einhvern tímann. Þú varst engin hálfsystir, enda öll til staðar, nánast alltaf, alveg eins og Helga. Þú varst bara stóra systir og Helga næststærsta systir. Og ég þessi litli gaur, smá svona utan við sig en til í allt. Og það var alltaf fjör í kringum þig. Svo kom Doddi bróðir. Sætasta barn sem við tvö höfðum nokkurn tíman séð. Og þá skildi ég hvað var að vera stóri bróðir. Þú varst búin að sýna mér skrefin. Svo ég fór með Dodda allt. Alveg eins og þú með mig á Schwin-hjólinu með risahnakknum. Þetta hjól dempaði ekki mikið, en ég hékk á hnakknum sama hvað gerðist og þú hjólaðir eins og þessi leðurblaka út úr helvíti, eða þannig kýs ég að muna þetta. Svo ég fór með Dodda allt eins og þú kenndir mér.
Svo kom Magga. Elskaði að fá litlu systir. Það var svo gott að eiga eldri systur svo það var tími kominn á litlu systur. Ekkert nema fjör þegar við vorum fimm saman.
Svo fórstu út í sveit. Fórst á Hóla, þú ætlaðir að vera bóndi. Fannst þennan gullmola hann Rikka. Svo kom Skagafjörðurinn. Við komum öll, ég, Doddi og Magga. Áttum öll okkar augnablik hjá ykkur Rikka fyrir norðan. Þú eignaðist þína fjölskyldu. Þrjár yndislegar stelpur, eina á eftir annarri, ljóshærðar með bros sem bræddu.
Svo margt gerðist á stuttum tíma. Pabbi og mamma keyptu jörð og byggðu hús í Landeyjum. Ég var úti í Barcelona, þú í Bandaríkjunum. En svo veiktist pabbi og fór frá okkur alltof fljótt. Þið fluttuð svo heim og völduð að setjast að í Landeyjum á bænum við hliðina á landi mömmu og pabba. Tengdust svo mörgu góðu fólki í sveitinni sem ég veit að munu sakna þín.
Síðustu árin með þér voru verðmæt. Að stússa með þér og Möggu í húsinu saman. Ég, þú og Magga sameinuðumst um að halda Hjáleigunni í fjölskyldunni. Í rauninni þá var þetta fyrir mig og Möggu bara leið til að fá að vera nálægt þér. Vera í þínu lífi.
Svo kom meinið. Þú barðist eins og þér var líkt. Við trúðum því ekki að þetta mein myndi vinna þig. Þú varst svo sterk. Þegar ég horfði í augun á stelpunum þínum, svo tilbúnar að takast á við heiminn, þá sá ég þennan styrk. Þær vissu hvað var að koma og voru yfirvegunin uppmáluð. Þú lifir áfram í þeim, mismunandi hlutar af þér í þeim öllum og börnunum sem eru komin og munu koma. Ég er svo stoltur af þér og Rikka, stoltur að sjá allt þetta góða sem þú gafst þínu umhverfi í gegnum ótal marga vini og vaxandi fjölskyldu.
Við urðum að segja bless allt of snemma. Allt þetta fólk sem elskar þig svo mikið því að það var bara ein Sigga. Við berum öll ummerki af því hafa haft þig í lífi okkar, erum sterkari og ríkari fyrir vikið. Við elskum þig og munum sakna þín ávallt. Við vitum að þú ert núna hjá pabba, eins og þú sagðir við mig rétt áður en þú sagðir bless við þetta líf.
Þú verður ávallt forystukindin okkar.
Þín systkin,
Kristján Jóhann (Krissi)
og Margrét (Magga).
Bless, elsku systir.
Ég mun sakna þeirra tíma sem við áttum saman. Lífið er ekki sanngjarnt og þú ert farin frá okkur allt of snemma. Ég þekki tómarúmið sem hefur myndast hjá stelpunum þínum og elsku Rikka. Ég veit samt að þau hafa styrk til að lifa með þessu og standa saman, tíminn mildar sársaukann að einhverju leyti.
Ég vil þakka þér fyrir þær stundir sem við áttum og þátt ykkar Rikka í að gera mig að þeim manni sem ég er í dag. Tíminn sem ég átti með ykkur í Háubrekku í Skagafirði er mér ómetanlegur. Þið treystuð mér fyrir yndislegu Bryndísi, þrátt fyrir að hún væri bara ungbarn, þar sem ég passaði upp á hana hvort sem það væri yfir mjaltatímann eða kvöldstundir með vinum. Elja og dugnaður var eitthvað sem litaði mig frá tíma mínum með ykkur, að smala, mjólka, girðingarvinna og hestaferðir. Kannski sýndi maður það ekki eða kunni ekki að meta á þeirri stundu en þið áttuð mikinn þátt í að styrkja mig, líkamlega og andlega.
Við áttum góðar stundir sem fullorðnir einstaklingar, þó við værum ólíkir karakterar. Ég meira til baka og hlustaði frekar en að fylla þögnina, en það var heldur ekki þörf á því þar sem þú varst lífið í herberginu og alltaf með nóg að ræða, stoltið svo mikið af öllu sem þitt fólk var að gera í lífinu. Ég elskaði okkar stundir að fá okkur bjór saman, hvort sem það var í stóra glerstígvélinu um áramótin eða við eldhúsborðið ykkar á Syðri-Úlfsstöðum.
Við Ragga áttum svo margar stundir í Hjáleigunni og með ykkur fyrir austan, Rikka ávallt mætt til okkar í leik eða tilbúin í ferðalag, eins og þegar Ragga tók Rikku og Bryndísi með til Víkur í Mýrdal að horfa á mig spila körfubolta og kaupa ís. Það var svo yndislegt að vita af ykkur þarna hinum megin.
Svo var auðvitað skotveiðin sem dró mig ávallt aftur austur og fjöldinn allur af gaurum sem fengu að fylgja með og upplifa gæsa- og andaveiði á Syðri-Úlfsstöðum og í Hjáleigunni.
Takk fyrir allt, elsku Sigga, takk fyrir hundana þína sem voru mér svo nánir, Kolku og Öskju. Takk fyrir stelpurnar þínar og að leyfa mér að vera hluti af þeirra lífi. Takk fyrir að ná í Rikka, hann er demantur og mun alltaf fá minn stuðning þegar hann þarf. Takk kærlega fyrir augnablikin sem við horfðum á hvort annað og engin orð voru nauðsynleg til að við gætum hlegið innra með okkur.
Skilaðu kveðju til pabba frá mér, þið eigið saman tómarúmið í hjarta mínu núna.
Bless, elsku Sigga mín.
Þorvaldur Símon (Doddi bróðir).
Sigga systir hefur kvatt. Veit ég að vel var tekið á móti henni á þeim stað sem hún er nú.
Minningarnar flæða í gegnum hugann. Hvernig manneskja og vinur Sigga var, minningar um hana sem systur og okkar samband í 55 ár. Þessar minningar eru fallegar, góðar og sumar ljúfsárar. Minnist ég hennar hér með fátæklegum orðum sem minnar stóru systur og lífsfélaga.
Sigga passaði upp á mig þegar við vorum krakkar. Hún tók jafnan orðið fyrir okkur þegar á reyndi og varði litlu systur þegar á þurfti að halda. Hún, eins og flest eldri systkin, þurfti einnig að drattast með mig út að leika með sínum vinum, ekki alltaf vinsælt, en hún lét sig oftast hafa það þótt hún reyndi stundum að hrista mig af sér. Þegar við sigldum inn á unglingsárin þá kynnti hún mér ýmislegt og þreifuðum við okkur áfram í gegnum þau flóknu ár saman. Hún leyfði mér að vera með í partíum, alltaf til í að lána mér föt, herðapúða og lakkrísbindi og elti ég hana í ýmsu á þessum tíma. Eftir stend ég sterkari og þroskaðri.
Við vorum samherjar í lífinu. Vorum ólíkar í mörgu en áttum sameiginlegar rætur sem aldrei visnuðu og byggðu þann grunn sem við stóðum ávallt saman á. Við fórum til að mynda ólíkar leiðir í vali á námi og búsetu sem mótuðu okkar fullorðinsár. Sigga elti ástina á dýrum, aðallega hestum, og náttúrunni. Í Háskólanum á Hólum kynnist hún Rikka sínum sem var á hestabraut eins og hún. Þar hófu þau saman sína vegferð, svo ung og full af áhuga og ástríðu fyrir hrossarækt og bústörfum. Krafðist það af þeim til að byrja með að búa á mismunandi stöðum, við mismunandi störf og aðstæður. Sigga lét það ekki á sig fá og var alla tíð hörkudugleg til vinnu og krafðist ekki mikils. Dáðist ég að einurð hennar og staðfestu. Það var svo yndislegt þegar þau Rikki keyptu jörðina Syðri-Úlfsstaði við hliðina á jörð sem pabbi og Andrea fjárfestu í fyrir hesta og frístundir. Þar voru þau komin á sitt framtíðarheimili og umhverfi sem hún unni mjög.
Ég kveð Siggu systur með sorg og skarð í hjarta en minning hennar lifir. Þegar ég hugsa til þessara vegamóta þá kemur í huga erindi úr laginu „Brothers in Arms“:
Það eru svo margir heimar,
svo margar mismunandi sólir.
Við eigum aðeins einn heim
en lifum samt í mismunandi heimum.
Unnur Helga.
Sigga var systurdóttir mín og fyrsta barnabarnið í okkar fjölskyldu. Mér fannst það mikill happafengur að fá svona yndislega hvíthærða og smágerða fegurðardís inn í fjölskylduna. Ég elskaði að passa hana og svo tveimur árum síðar yngri systur hennar líka. Ég tengdist þeim sterkum böndum sem hafa haldist síðan. Síðar taldi ég mig heppna þegar hún hóf nám eftir stúdentspróf í Bændaskólanum á Hólum á hestabraut, en þá bjó ég í Skagafirði og fékk hana því reglulega í heimsókn.
Fljótlega fór hún að koma með efnilegan ungan mann með sér sem var einnig nemandi á Hólum. Þetta var auðvitað Sigríkur sem varð eiginmaður hennar. Þau urðu óaðskiljanleg upp frá þessu og þrátt fyrir að vera að ýmsu leyti ólík og með ólíkan bakgrunn voru þau algerlega samstíga á sinni lífsgöngu – deildu saman áhuga á búskap, uppeldi á börnunum og á lífsgildum. Hjá þeim kom aldrei til greina annað en að verða bændur – rækta land, hross og fé og eignast börn.
Sigga var sterk mamma – hún elskaði dætur sínar endalaust – ekkert var henni mikilvægara en velferð þeirra. Þær urðu að vera vel undirbúnar til að standa á eigin fótum og það eru þær svo sannarlega í dag. Sigga var afar stolt af þeim og við áttum oft fjörugar og uppbyggilegar samræður um dætur okkar – sigra þeirra og áskoranir þeirra.
Sigga var næm og fljót finna út hvaða mann fólk hafði að geyma. Hún lét því suma vera en aðra tók hún alveg inn að hjartarótum og lét engu skipta þó að einhver sérviska væri í spilunum – það var jafnvel betra þannig. Því eignaðist hún trygga vini á öllum aldri, átti nánar æskuvinkonur og vinnufélagar hennar á sýslumannsskrifstofunni voru hennar Ljós í veikindunum eins og hún sagði sjálf.
Við Sigga og Rikki höfum átt gjöfulan tíma saman í gegnum árin. Sá tími sem stendur þó upp úr og er mér ómetanlegur er þegar við Ingvar bjuggum í Merkigarði í Skagafirði og þau Sigga og Rikki á næsta bæ í Háubrekku. Þá var mikið brallað í hestum, matarboðum, ferðalögum, smölun, girðingarvinnu o.m.fl. Það toppaði þó allt þegar dæturnar Bryndís og Rikka bættust í fjölskylduna og ég fékk meira að segja nöfnu.
Sigga brást við veikindum sínum eins og henni var svo lagið þegar erfiðleikar bönkuðu upp á. Hún var raunsæ í öll þessi fimm ár sem hún var veik. Hún hafði sterkan lífsvilja og hún sagði strax þeim sem heyra vildu að þetta væri óvinnandi krabbi og því aðeins spurning um hversu lengi væri hægt að hemja hann. Í samráði við sinn eiginmann og frábæra lækni sýndi hún gríðarlega þrautseigju við að reyna allar aðferðir til að lengja líf sitt eins og framast væri unnt. Hún hafði ekki þörf fyrir flugeldasýningar eða heimsreisur þó að hún vissi hvert stefndi. Hún vildi umfram allt fylgja sínu fólki hverja stund fram á veg og taka þátt í lífi þess hér og nú. Hún rak sitt heimili og vann sína vinnu allt fram á síðustu vikurnar.
Klára fallega Sigga okkar, glæsilegust allra á hestbaki, er fallin frá allt of ung og við munum sakna. Elsku Rikki, Bryndís, Rikka, Sara og við öll skulum halda minningu hennar ljóslifandi.
Bryndís S.
Guðmundsdóttir.
Elsku Sigga mín með fallega brosið og sætu spékoppana er farin frá okkur.
Það er þrautin þyngri að finna eirðina til að setjast niður og kveðja svona góða vinkonu en okkar leiðir lágu saman fyrir um 47 árum.
Við vorum rétt byrjaðar í níu ára bekk þegar hún Sally, labradortíkin hennar Siggu, hafði eignast hvolpa og af þessu tilefni fannst mér alveg upplagt að verða besta vinkona hennar. Hún grínaðist stundum með það þegar við vorum að kynnast nýju fólki að þetta væri vinátta byggð á algerlega fölskum forsendum. Við vorum báðar miklir dýravinir og var það í gegnum fjölskylduna hennar sem mín fyrstu kynni voru af hestamennsku og var það nokkuð sem við deildum alla tíð.
Við vorum ekki lengi bekkjarsystur en Sigga flutti í Arnarnesið í grunnskóla og þaðan fór hún í Menntaskólann í Reykjavík en ég var áfram í Æfingadeildinni og fór í Menntaskólann í Hamrahlíð. Við héldum alltaf sambandi þótt oft væri ansi langt á milli okkar. Þegar Sigga flutti norður og ég til útlanda ákváðum við að við myndum alltaf gefa hvor annarri jólagjafir til að við myndum hittast allavega einn dag á ári. Eftir að Sigga flutti með fjölskylduna í Austur-Landeyjar varð aftur mikill samgangur á milli okkar og var ég svo heppin að búa fyrir austan í Hjáleigunni á Syðri-Úlfsstöðum í tvö ár, sem var einstaklega góður tími fyrir okkar vinskap.
Það var Siggu ákaflega dýrmætt að eignast jörð og hún bókstaflega faðmaði þúfurnar sínar. Prinsessan mín úr Arnarnesinu var fædd sveitakona og leið hvergi jafn vel og heima í sveitinni sinni. Það var alltaf stutt í kátínuna hjá Siggu, glaðlynd, stríðin og í barnæsku alveg sérlega uppátækjasöm. Í seinni tíð fannst henni alveg einstaklega gaman að þræta við mömmu mína um pólitík.
Ég veit að Sigga er núna að sinna hrossum, þræta við pabba sinn, leika við hundana okkar og drekka Negroni með David Bowie. Takk elsku besta fyrir þessa einstöku vináttu, veröldin verður aldrei söm án þín.
Ég vil senda fjölskyldu Siggu mínar innilegustu samúðarkveðjur á þessari sorgarstundu. Hugur minn er hjá ykkur.
Lokið er þrautum, ljósið mitt
lagt á himnaveginn.
Ég veit að blíða brosið þitt
bíður mín hinumegin.
Minningin lifir mild og klökk,
móðurhjartað stynur,
og kveður þig með kærri þökk.
Hvíldu í friði vinur.
(I.G.)
Nadia Katrín Banine.
Ég var tólf ára þegar ég kynntist nýju stelpunni í bekknum mínum. Hún var flutt í sömu götu og ég, aðeins nokkur hús á milli okkar. Sigga með spékoppana varð vinkona mín. Ég var fljótt tekin inn í fjölskyldu hennar og átti ófáar og skemmtilegar stundir með henni. Sigga varð heimagangur hjá mér og minni fjölskyldu. Hún var eins og stormsveipur, blátt áfram, stundum óþægilega hreinskilin en oftast hlægilega hreinskilin, fyndin, töff og töggur í henni. Hún var hláturmild og ein af þeim fáu sem misstu ekki eiginleikann að fá óstjórnleg hlátursköst á fullorðinsaldri.
Við fylgdumst að í gegnum gaggó og svo áfram í Menntaskólann í Reykjavík. Sigga naut sín þó ekki þar en fann sig á Bændaskólanum á Hólum. Þar blómstraði hún, þó að ég hafi grun um að Sigríkur hafi átt stóran þátt í því. Rikki og Sigga urðu par, svo hjón og svo foreldrar þriggja yndislegra dætra. Sú elsta hefur veitt henni tvö barnabörn og miðjan nýverið það þriðja. Sigga dýrkaði þau öll. Það var einnig einstakt það samband sem hún átti við tengdasyni sína. Hún kom fram við þá eins og sín eigin börn eftir að hún hleypti þeim að sér.
Sigga fylgdi mér og fjölskyldu minni sl. júní út í kirkjugarð Garðakirkju þegar faðir minn var jarðsettur. Eftir það notuðum við tækifærið og rifjuðum upp ýmislegt úr æsku sem umhverfið minnti á. Fjölskylda Siggu var með hesta í litlu hesthúsi við hliðina á kirkjunni. Einn daginn ákváðum við að sundríða í sjónum, þótt það væri harðbannað. Í fjörunni tókum við hnakkana af, þannig að pabbi Siggu sæi ekki blauta hnakka. Til viðbótar þótti okkur sniðugt að afklæðast svo að blaut föt kæmu ekki upp um okkur heldur. Berbakt og í nærfötum riðum við langt út í sjó og ég upplifði ótrúlega stund af frelsi, sitjandi á syndandi hesti með eina bestu vinkonu mína mér við hlið. En fljótt fóru að renna á okkur tvær grímur því að öldugangur var mikill og sjórinn jökulkaldur. Þarna greip um sig nokkur ótti hjá hetjunum en við komumst í land og þótti þetta eftir á drepfyndið.
Ætlun mín, þegar ég keyrði ásamt Hrönn, vinkonu okkar, á Selfoss morguninn 8. september, var að þakka Siggu fyrir galsann, ævintýrin, þau hættulegu og þau saklausu, ferðalögin, trúnaðinn og vinskapinn, en við komum of seint. Okkar elskulega vinkona kvaddi þennan heim stuttu áður en við lögðum bílnum við sjúkrahúsið.
Það lýsir Siggu svo vel hvernig hún tókst á við þessi fimm ár frá krabbameinsgreiningu fram að lokadegi þessa lífs. Á meðan ég grét í símann við fréttirnar af greiningunni huggaði hún mig. Hún mætti ávallt í vinnuna. Hún sagði já við öllu sem henni þótti skemmtilegt. Hún sinnti félagsstörfum af krafti. Hún vildi halda í normalt líf eins vel og hún gat og það gerði hún svo sannarlega.
Hver önnur en Sigga færi að grínast og gantast í krabbameinslækninum sínum? Hún sagði oft sögur af samskiptum þeirra og á Sigurður Böðvarsson krabbameinslæknir þakkir skilið fyrir að gera þetta skelfilega ferðalag meðferða og lyfja ekki einungis bærilegra fyrir Siggu heldur stundum húmorískt.
Góður vinskapur er dýrmætur og skilur Sigga sannarlega eftir skarð í vinkonuhópnum sem ekki verður fyllt. Hún mun aldrei gleymast og verður ávallt ein af okkur.
Elsku Rikki, Bryndís, Rikka og Sara, við Óli vottum ykkur okkar hjartans samúð.
Kæru Ásta og Andrea, systkini, tengdasynir og fjölskylda, hugur minn er hjá ykkur öllum.
Bryndís Eva Jónsdóttir.
Elsku Sigga er farin frá okkur alltof fljótt. Við munum ekki heyra aftur bjartan og glaðlegan hlátur hennar eða eiga hreinskiptin samtöl um heima og geima.
Kynni okkar hófust þegar Sigga flutti í Garðabæinn og kom tólf ára í Flataskóla. Þar voru drögin lögð að vinskap sem hefur varað í 45 ár. Æskuvinkvennahópurinn fylgdist að frá þessum tíma í gegnum grunn- og framhaldsskóla. Frekara nám tók við, fjölskyldulíf og barneignir en alltaf héldust sterk bönd á milli okkar. Í amstri dagsins gafst oft ekki mikill tími til að hittast svo það var tekinn upp sá siður að gera það alltaf fyrir jólin. Við fórum út að borða eða elduðum saman í heimahúsi eftir því sem hentaði og náðum að halda þeim sið alla tíð. Þetta voru dýrmætar stundir þar sem farið var yfir það sem á daga hafði drifið. Það var alltaf eins og við hefðum hist í gær þar sem við áttum sameiginlegan bakgrunn og þekktumst svo vel.
Við náðum líka að ferðast aðeins saman. Fórum í helgarferð til Prag árið sem við urðum fertugar, til Amsterdam í fimmtugsferð, heimsóttum Stavanger og fórum í sumarbústaðaferðir á Íslandi. Við söfnuðum ómetanlegum minningum sem nú ylja okkur sem eftir stöndum.
Við vottum fjölskyldu Siggu okkar dýpstu samúð. Minningin um fallegu, glaðlyndu Siggu sem var alltaf hrein og bein lifir með okkur.
Hrönn, Jenný og Gréta.
Sigga var engin venjuleg kona og þar af leiðandi engin venjuleg samstarfskona. Hún var öflugur liðsmaður sem lét sér annt um hag og orðspor vinnustaðarins okkar. Samstarf okkar á sýsluskrifstofunni varði í tæp 20 ár og aldrei bar þar skugga á þótt skoðanaskipti okkar gætu verið hvöss, beinskeytt og jafnvel hávær. Þannig vildum við bara hafa það. Ekkert var ósagt – alltaf var hún sönn og traust, sagði skoðun sína umbúðalaust, jafnt umbeðin sem óumbeðin, vinsæl skoðun eða óvinsæl – skipti ekki máli. Hún var kona andstæðna, því á sama tíma skein í þetta undurblíða ljós, stóra hjarta, mildi og umhyggju fyrir náunganum – og hún hvatti mig áfram. Falleg og fínleg, prúð og kurteis, hressasta samkvæmisljónið þegar þannig stóð á. Hún var eldklár, skörungur, hamhleypa til verka, en samt yfirmáta nákvæm, vandvirk og þjónustulunduð. Garðabæjarsnót af Arnarnesinu sem gerðist hrossabóndi í Landeyjunum – já kona andstæðna.
Leiðir okkar lágu saman utan vinnu í sameiginlegu áhugamáli og áttum við Sigga og Rikki góðar stundir tengdar hestamennsku. Við áttum ýmislegt annað sameiginlegt, pabbastelpur sem þurftum að sjá á eftir feðrum okkar langt fyrir aldur fram. Það voru einhver bönd sem við bundumst og erfitt er að útskýra. Hún þekkti mig. Stundum fannst mér hún sjá í gegnum mig, lesa hug minn. Ég las líka stundum úr augum hennar eitthvað sem hún þurfti ekki að segja. Sterkur strengur.
Og nú er hún farin frá okkur. Burtför hennar úr þessu jarðneska lífi var orðin fyrirsjáanleg, hvort sem við vildum viðurkenna það eða ekki. Engu að síður bar kveðjustundina brátt að, vonin hvarf og lífið fjaraði út á örskotsstundu. Fimm ára bardaga lokið þar sem Sigga hafði oft yfirhöndina. Hugurinn ber mann hálfa leið og trúin flytur svo sannarlega fjöll.
Haustkvöld. Langvegir.
Ljósafjöld sveitanna slokknuð
og allt þagnað
nema einn lækur
einn hestur sem þræðir
beinan stíg
og ber mig í dimmunni
yfir heiðalönd feðra minna
til fjarlægs staðar.
Engu þarf að kvíða.
Nú kular úr opnum skörðum
og lækurinn hljóðnar
í lautunum mér að baki.
Engu þarf að kvíða
klárinn fetar sinn veg
- stefnir inn í nóttina
með stjörnu í enni.
(Hannes Pétursson)
Góða ferð hetjan mín. Þú barðist til hinsta dags.
Þín verður sárt að sakna en gott að minnast.
Ég, ásamt samstarfsfólkinu hjá Sýslumanninum á Suðurlandi, sendi fjölskyldu Siggu samúðarkveðjur og bið þeim öllum Guðs blessunar.
Kristín Þórðardóttir.