Elín Jónsdóttir fæddist á Ísafirði 20. febrúar 1941. Hún lést 5. september 2024.
Foreldrar hennar voru Rannveig Elísabet Hermannsdóttir frá Ysta-Mói í Skagafirði, f. 1916, d. 1981, og Jón Jónsson frá Hvanná á Jökuldal, f. 1910, d. 1963. Systur Elínar eru þrjár: Kristín, f. 1940, Nanna, f. 1944, d. 2019, og Gunnþórunn, f. 1946, d. 2023.
Elín gekk í hjónaband árið 1962 með Þorvaldi Guðmundssyni, f. 1941, d. 1992. Þau slitu samvistir 1974. Þeirra börn eru: 1) Þóra, f. 1960, eiginmaður hennar er Jóhannes Tómas Sigursveinsson, f. 1956, þeirra börn eru Þorvaldur Emil, f. 1978. Sambýliskona hans er Hanna Margrét Einarsdóttir, f. 1973, hennar börn eru Margrét Birta, f. 2003, Ólafur, f. 2005, og Teitur, f. 2010. Hrefna Huld, f. 1980, dóttir hennar og fv. sambýlismanns, Adolfs Sveinssonar, f. 1975, er Júlía Jana, f. 2006. Dóttir Hrefnu og fv. eiginmanns hennar, Jóns Magnússonar, f. 1971, er Birta Huld, f. 2012. 2) Guðmundur, f. 1963. Stjúpbörn hans eru Árný Rós, f. 1978, eiginmaður hennar er Patrekur Súni Reehaug, f. 1975, þeirra börn eru Jón Darri, f. 2004, og Laíla, f. 2007. Hákon Blöndal, f. 1983. Eiginkona hans er Berghildur Árnadóttir, f. 1978. Stjúpsynir Hákonar eru Hjörtur Ísak, f. 1999, sambýliskona Caroline Rós, f. 2000, og Ívar Breki, f. 2002, sonur hans og Guðnýjar Ásu Bjarnadóttur, f. 2003, er Maron Dagur, f. 2024. Synir Berghildar og Hákonar eru Heimir, f. 2012, og Hugi, f. 2016. 3) Rannveig, f. 1970. Dóttir hennar og fv. sambýlismanns, Eyþórs Ármanns Eiríkssonar, f. 1963, er María Dís, f. 1993. 4) Ingunn, f. 1973. Sonur hennar og fv. sambýlismanns, Sigurðar Gísla Þorsteinssonar, f. 1971, er Gísli Þór, f. 1992. Unnusta hans er Thelma Sigurðardóttir, f. 1995, börn þeirra eru Tryggvi Hrafn, f. 2019, og Bergdís Erla, f. 2023. Börn Ingunnar og fv. eiginmanns, Eyjólfs Eyjólfssonar, f. 1969, eru Katrín, f. 2002, og Ásgeir, f. 2003. Núverandi sambýlismaður er Jóhannes Magnússon, f. 1967. Hans börn eru Stefán, f. 1996, Þórdís, f. 1997, og Magnús, f. 2005.
Elín lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Ísafjarðar vorið 1958. Hún starfaði sem talsímakona hjá Pósti og síma á Ísafirði á 7. áratugnum til ársins 1972. Þá hóf hún störf sem læknaritari á heilsugæslu og sjúkrahúsinu á Ísafirði. Læknaritarastarfið varð hennar ævistarf og frá hausti 1974 starfaði hún við Barna- og unglingageðdeild Landspítalans í Reykjavík.
Útför hennar fer fram í Áskirkju í dag, 20. september 2024, klukkan 11.
Margs er að minnast á kveðjustund. Hún mamma var einstaklega hæfileikarík í tónlist og þótt hún hafi farið í gegnum hefðbundið tónlistarskólanám kunni hún mun betur við að spila eftir eyranu en fylgja nótum. Tónlist var eitt af hennar helstu áhugamálum og hafði hún einstaklega gaman af að fara á tónleika og hlusta á hvers kyns tónlist. Hún var líka mikill leikhúsunnandi og ég minnist þess frá unga aldri að fara með mömmu í leikhús bæði að sjá barnaleikrit og fullorðinsleikrit, þótt ekki væri ég há í loftinu. Oft var haldið upp á afmælið mitt með leikhúsferð en þann sið held ég enn í. Mamma var líka listræn og hvers kyns handverk lék í höndunum á henni. Eftir hana liggur fjöldinn allur af verkum sem bera sköpun hennar og litagleði fagurt vitni.
Mamma var bókmenntaunnandi og hafði unun af að velta fyrir sér vel unnum texta. Allar gerðir bókmennta hugnuðust henni. Ævisögur og skáldsögur voru í uppáhaldi og bækur um ýmiskonar lífsspeki átti hún allmargar. Hún var mikill pælari og texti sem fór á dýptina var henni að skapi. Hún las líka allar tegundir ljóða og átti fjölmargar ljóðabækur. Hún var hrifin af gömlu meisturunum en hafði líka gaman af að velta fyrir sér nútímaljóðum.
Hún mamma var mikil fjölskyldukona. Öll komumst við systkinin vel á legg og var hún afar stolt af okkur öllum og þeim leiðum sem hvert okkar valdi sér. Hún vildi að hver og einn fengi svigrúm til að vera hann sjálfur og var ánægð og stolt af öllum afkomendum sínum, þó sjaldan, ef nokkurn tíma, hafi tekist að ná hópnum öllum saman. Það var svolítið hennar saga, það vantaði alltaf einhvern í hópinn. Mamma kvaddi þessa jarðvist fallegan haustdag í byrjun september og kom okkur öllum á óvart eins og henni einni var lagið. Hún var einstakur ferðafélagi, fór sínar eigin leiðir, gat verið hrjúf og þrjósk en geymdi glóandi kærleika undir yfirborðinu sem hún gaf okkur óspart af.
Ég mun sakna stundanna við kertaljósin, að ræða um bókmenntir og orðsins snilli þeirra sem við höfðum lesið og deila með henni gleði og sorgum. Hún var engum betri í að ræða við um það sem við bar frá degi til dags. Oft vissi hún líka hvað mér lá á hjarta án þess að ég þyrfti að segja henni það. Þá tók hún upp spilastokkinn, stokkaði, lagði spilin og spáði og spekúleraði. Það voru notalegar stundir sem gott er að minnast.
Ég er þakklát fyrir að það var einmitt hún sem var mamma mín. Þessi litríka og hæfileikaríka kjarnakona, sem með visku sinni og lífsreynslu var stöðugt að stappa í mig stálinu og hvetja mig til að sinna mínum hugðarefnum og ekki síst standa á mínu í lífsins ólgusjó.
Í fórum mömmu fann ég nýlega handskrifaðan miða með ljóði sem hefur hrifið hana og segir svo mikið um það hvernig hún gat hugsað og pælt.
Hlustaðu á ljósið
sem logar kyrrlátt í brjóstinu
hvernig sem viðrar
Rödd þess er mjúklega björt
og bylgjast um þig
í mildri þögn
og því verður að hlusta vandlega
Einungis þögn nemur þögn
Og þá fyrst andar ljósið
lifandi birtu
(Njörður P. Njarðvík)
Takk fyrir samfylgdina, elsku mamma mín.
Þín
Rannveig.
Skömmu áður en Ella kvaddi þennan heim lét hún hafa eftir sér að ég væri búinn að vera tengdasonur hennar svo lengi að ég væri eiginlega orðinn sonur hennar, næstum hálfa öld, sagði hún. En það skakkaði kannski örfáum árum, hvaða máli skiptir það? Nú þegar Elín tengdamóðir mín er horfin á braut koma minningarnar upp í hugann. Hún reyndist mér vel, var velviljuð og ráðagóð. Elín mætti alltaf í afmælið mitt, jafnvel þótt ég héldi ekki upp á það var hún mætt með blóm og gjöf.
Elín var músíkölsk og spilaði meðal annars á píanó, harmónikku og munnhörpu. Þegar við Þóra og börnin okkar heimsóttum hana var ekki óalgengt að hún settist við píanóið og tæki lagið og henni fannst ekki slæmt ef gestirnir sungu með.
Elín hafði gaman af að grípa í spil. Stundum var spilað þegar hún kom í heimsókn eða þegar við heimsóttum hana.
Einnig var hún lunkin og vinsæl spákona og spáði oft fyrir fólki en hún spáði ekki fyrir hverjum sem var. Hún vildi velja fyrir hverjum hún spáði. Í minningunni sé ég og heyri hana segja: Það er hérna maður sem greiðir götu þína, sagði hún við þann sem hún spáði fyrir, þá vissi maður að bjart var fram undan fyrir þann sem spána fékk.
Elín hafði gaman af sumarbústaðaferðum og ferðalögum almennt, utanlands og innanlands. Hún var alltaf best nestuð þegar ferðast var innanlands, þá vildi hún stoppa á góðum stað á leiðinni, setjast niður, borða nesti og deila með öðrum. Henni fannst ekki síður mikilvægt að eiga góða stund saman.
Ferð til Siglufjarðar er mér minnisstæð en þá gistum við á sveitabæ sem var nálægt Ysta-Mói í Fljótum þar sem amma hennar og afi, Elín og Hermann, höfðu búið. En þar hafði Ella oft dvalið. Það er hvergi fallegra sólarlag en í Skagafirði, sagði hún. Þessi staður var henni greinilega mjög kær. Við sáum heim að Ysta-Mói þaðan sem við gistum. Hún tilkynnti okkur þar að þetta væri líklega í síðasta skipti sem hún kæmi á þennan stað, það reyndist rétt.
En auðvitað þótti henni einnig vænt um Ísafjörð, bæinn sem hún fæddist og ólst upp í. Þar giftist hún Þorvaldi Guðmundssyni sem nú er látinn og eignaðist með honum fjögur börn. Þau fæddust öll á gamla sjúkrahúsinu þar sem nú er safnahúsið. Heimili þeirra var lengst af á Seljalandsvegi 26 en Elín og Þorvaldur slitu samvistum árið 1974. Eftir að Elín flutti suður til Reykjavíkur talaði hún alltaf fallega um gamla bæinn sinn, Ísafjörð. Þegar vel lá á henni rifjaði hún oft upp minningar sínar um Ísafjörð og samferðamenn.
Lestur góðra bóka var eitt af hennar aðaláhugamálum og einnig hafði hún gaman af því að fara í leikhús og á tónleika. Hún hlustaði mikið á tónlist og var eitt af uppáhaldslögunum „We'll meet again“ sem Vera Lynn söng svo eftirminnilega.
Ella var áhugasöm um afkomendur sína, leiðbeindi þeim og hjálpaði eftir bestu getu. Hennar verður nú sárt saknað í jólaboðum og öðrum selskap.
Um leið og ég þakka Ellu samfylgdina í gegnum árin segi ég takk fyrir allt. Einnig sendi ég afkomendum og ættingjum mínar dýpstu samúðarkveðjur.
„We'll meet again!“
Jóhannes T. Sigursveinsson.
Það er svo óraunverulegt að hún amma sé farin frá okkur. Í einu af okkar samtölum bað hún mig að skrifa um sig minningargrein og að sjálfsögðu verð ég við ósk hennar. Við amma áttum dýrmæt tengsl. Við vorum duglegar að heyra hvor í annarri og hittast þegar við gátum. Þá spjölluðum við mikið saman um lífið og draumana okkar. Spurningin sem við spurðum hvor aðra alltaf var: Jæja, hvað dreymdi þig svo í nótt? Hún trúði því að fólk gæti verið berdreymið og við sögðum hvor annarri draumana okkar og veltum fyrir okkur hvað þeir þýddu. Oft rættust þeir seinna og þá minntum við hvor aðra á drauminn sem við höfðum talað um.
Náttúran var ömmu svo kær og hún kenndi mér að njóta hennar. Eitt af því sem amma kenndi mér var að skoða steina. Alltaf þegar við fórum í gönguferðir leituðum við að og skoðuðum steina. Í gegnum tíðina fundum við marga fallega steina. Merkilegastir fannst henni þeir steinar sem voru með einhvers konar andlit eða sem við sáum eitthvað út úr.
Frá því hún kvaddi þennan heim hef ég verið að skoða öll kortin sem amma hefur skrifað til mín í gegnum tíðina. Hún lagði mikið í að skrifa innihaldsrík kort, sem voru með uppbyggjandi og hvetjandi skilaboðum. Svo valdi hún líka spakmæli sem henni fannst passa inn í hvert kort. Þetta gerði hún bæði með afmæliskort og jólakort og dýrmætt er að eiga þau öll. Eitt af spakmælunum sem hún skrifaði í kort til mín var: Við þurfum næði til að láta okkur dreyma, næði til að rifja upp og minnast, næði til að nálgast hið óendanlega, næði til að vera til.
Amma elskaði tónlist og við hlustuðum oft saman á alls konar lög. En það er eitt lag sem hún kynnti mér sérstaklega með því að segja við mig brot úr textanum við hin ýmsu tækifæri. Ég sem barn og unglingur vissi ekki að þetta væri texti úr lagi en þegar ég varð eldri sýndi hún mér plötuna og þá gat ég fundið lagið á netinu og eftir það spiluðum við það oft og sungum með. Þetta lag mun alltaf minna mig á elsku ömmu Ellu. „I love you for a hundred thousand reasons, but most of all I love you cause you're you.“
Þín
María Dís.
Í dag berum við elsku ömmu Ellu til hinstu hvílu. Ég fyllist þakklæti þegar ég dreg fram allar góðu minningarnar um hana.
Amma var mögnuð kona og fór gjarnan sínar eigin leiðir. Hún átti mikið af skemmtilegum munum, steinum og alls kyns fígúrum sem hún leyfði okkur barnabörnunum óhindrað að skoða og leika með.
Mér þykir mjög vænt um að sonur minn hafi einnig fengið að upplifa að koma á heimili hennar í Árbænum þar sem hann fékk oftar en ekki að taka með sér eitthvert glingur heim.
Ég hef alltaf haldið því fram að amma hafi verið rammgöldrótt enda hafði hún dálæti á því að spá í spil og tók lengi vel að sér að spá fyrir fólki. Það endurspeglaðist þegar við Thelma gerðum okkur ferð til hennar með það fyrir augum að segja henni að við ættum von á okkar fyrsta barni, honum Tryggva Hrafni. Við ákváðum að draga spil og fá hana til þess að spá fyrir okkur og niðurstaðan gaf sterklega til kynna að það væri barn á leiðinni. Það var þá sem við sögðum henni gleðitíðindin en hún svaraði einfaldlega: „Ég vissi það nú.“
Uppáhaldið mitt sem barn var þegar amma sagði mér sögur enda var það henni í blóð borið. Eitt skiptið þegar ég gisti hjá henni sagði hún mér sögu af fyrrverandi sjómanni sem bjó við Ægisíðuna og var ætíð með hatt á höfði. Daginn eftir tókum við strætó niður í bæ og á leiðinni sáum við mann, sem passaði nákvæmlega við lýsingarnar í sögunni, ganga meðfram sjónum með hatt á höfði.
Elsku amma mín, takk fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman, hafðu það gott í sumarlandinu.
Gísli Þór Sigurðsson.
Okkur þótti mjög vænt um Ellu langömmu. Það var gaman að heimsækja hana þegar við komum til Íslands. Henni þótti vænt um okkur og hún var alltaf góð við okkur. Hún hafði áhuga á okkur og sýndi okkur kærleik og var alltaf að hvetja okkur áfram í því sem okkur fannst skemmtilegt. Hún var alltaf til í að leika við okkur, taka með nokkur selfí í I-padnum og þegar við fórum í sumarbústaðinn lék hún broddgölt sem reyndi að ná okkur í heita pottinum á Flúðum, við vorum bara litlar stelpur en hún orðin gömul kona. Við eigum margar skemmtilegar minningar um Ellu ömmu. Hún vildi líka alltaf gefa okkur grjónagraut og slátur þegar við komum og var alltaf svo mikið að passa upp á okkur. Hún mundi alltaf eftir afmælunum okkar og sendi okkur kveðjur og gjafir þótt við ættum heima í útlöndum. Takk fyrir að þú varst alltaf svona góð við okkur. Guð geymi þig, elsku Ella amma, eins og þú sagðir alltaf við okkur.
Þínar langömmustelpur,
Júlía Jana og
Birta Huld.