Sigurður Helgi Guðjónsson fæddist 24. mars 1953. Hann lést 5. september 2024.
Jarðarför Sigurðar Helga var gerð 18. september 2024.
Sigurður Helgi Guðjónsson var óvenju mörgum góðum kostum gæddur. Nærvera hans var með eindæmum góð og gengu allir glaðir í bragði og léttari í lund eftir að hafa átt með honum samverustund.
Margir koma til með að minnast Sigurðar Helga sem mikils fjölskyldumanns, afburða fræðimanns, leiðtoga, sveitamanns, hundavinar, safnara og áfram mætti telja. Flestir munu þó vera sammála um að nú sé fallinn frá einn alskemmtilegasti lögfræðingurinn. Haldi menn að það sé auðvelt að öðlast þann titil þegar sú stétt á í hlut þá er það mikill misskilningur. Uppátæki Sigurðar Helga voru óteljandi, kímnigáfa og hugmyndaauðgi gætu verið efni í bók. Einu sinni varð ég þó vitni þess að hann náði ekki athyglinni. Það var árið 1990 þegar mikið húllumhæ var á Hólmavík í tilefni af 100 ára afmæli verslunarstaðarins. Meðal ótal atriða á dagskrá var ókeypis lögfræðiaðstoð. Við Sigurður Helgi sátum dagpart við borð og vænti hann mikillar þátttöku af sveitungum sínum. Hjá okkur var hins vegar lítið sem ekkert að gera. Öðru máli gegndi um næsta bás hjá spákonunni þar sem löng biðröð myndaðist strax.
Þegar ég heimsótti hann á Landspítalann fyrir nokkru var að vanda létt yfir honum þrátt fyrir að hafa fengið hjartastopp skömmu áður. Sjá mátti gamla góða glettnisglampann í augunum og brosviprur léku um munnvikin þegar hann rifjaði upp hversu gaman hefði verið nokkum vikum áður í afmæli stórvinar hans á Eyjólfsstöðum í Vatnsdalnum þar sem hann var ásamt sambýliskonu sinni Marilyn Melk. Hann hafði orð á því hversu góð tilfinning það væri að vera orðinn ástfanginn á ný og að hafa áform um sameiginlega vegferð.
Ég kvaddi Sigurð þennan dag með því að minna á að hann ætti sjö líf eftir en hann hafði fyrir nokkrum árum verið ranglega greindur með illkynja krabbamein og talinn eiga aðeins nokkra mánuði eftir ólifaða. Eftir að hafa endurheimt líf sitt sagði hann af þessu margar skemmtisögur. Ekki reyndist ég þó sannspár því að næsta dag var hann látinn. Ég get næstum því séð fyrir mér hvernig hann myndi gera sér mat úr þessum orðum mínum með ærlegri skemmtisögu. En öllu gamni fylgir alvara og staðreyndin er sú að andlát Sigurðar Helga var harmafregn enda dauðsfallið ótímabært og óvænt.
Að leiðarlokum kveð ég Sigurð Helga með virktum og votta aðstandendum mína dýpstu samúð.
Valtýr Sigurðsson.
Nú fyrir síðastliðna helgi bárust okkur hjá Húseigendafélaginu þau sorgartíðindi að Sigurður Helgi væri fallinn frá. Sigurður hafði verið kyndilberi félagsins og forystumaður í um 47 ár, eða allt frá árinu 1977, er hann tók við sem lögfræðingur og framkvæmdastjóri þess.
Samhliða störfum sínum hjá Húseigendafélaginu var Sigurður fulltrúi á lögmannsstofu og gegndi síðar embætti dómarafulltrúa hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík árin 1983-1985. Á árunum 1985-1992 rak Sigurður Helgi lögmannsstofu í félagi við Ragnar Aðalsteinsson, Viðar Má Matthíasson og fleira gott fólk, árin 1985-1992. Í kjölfarið hóf Sigurður störf að nýju hjá Húseigendafélaginu sem framkvæmdastjóri og lögfræðingur þess, og tók við sem formaður árið 1995. Hann starfaði frá þeim tíma óslitið hjá félaginu til síðastliðins vors 2024.
Sigurður sat jafnframt í jafnréttisráði og síðar kærunefnd jafnréttismála, í samninganefnd lögfræðinga í ríkisþjónustu, stjórn Lögfræðingafélags Íslands, ásamt því að sinna kennslu við lagadeild Háskóla Íslands. Sigurður var jafnframt mjög stoltur af samískum uppruna sínum. Hann kom með skáldinu Einari Braga að stofnun SAMÍS árið 2003, vináttufélags Íslendinga og Sama, og sat í fyrstu stjórn þess.
Málefni fasteignaeigenda voru Sigurði Helga alla tíð ofarlega í huga. Hann lét hagsmunamál þeirra til sín taka og var hann flestum öðrum fremri í þeirri þekkingu hér á landi. Hann samdi frumvarp til nýrra laga um fjöleignarhús sem lögfest voru árið 1994, sem og frumvarp til húsaleigulaga sem einnig voru lögfest sama ár. Óhætt er að segja að lagasetning á þessum sviðum hafi tekist með eindæmum vel. Fjöleignarhúsalöggjöfin fól í sér miklar réttarbætur fyrir fasteignaeigendur og húsaleigulögin tryggðu leigjendum góða réttarstöðu og –öryggi án þess þó að hagsmunir leigusala væru fyrir borð bornir.
Sigurður Helgi hafði yfirgripsmikla þekkingu og vald á íslenskunni og var hárbeittur penni. Hann gat ritað um hvað eina sem tengdist eignarréttinum á sinn einstaka, hnyttna og kjarnyrta hátt. Greinarnar héldu lesandanum við efnið og gerðu honum kleift að skilja flóknustu mál á einfaldan og skýran hátt. Þetta er listdans sem ekki er á allra færi, og reyndar þekkist varla hjá lögfræðingum, sem hafa öllu fremur einstakt lag á að flækja hlutina svo um munar.
Það er erfitt að horfast í augu við að ekki sé lengur mögulegt að hringja til Sigurðar og fá innsýn hans í þau ýmsu og ólíku mál sem leitað er með til Húseigendafélagsins. Hann var fyrst og fremst réttsýnn maður, sanngjarn og fylginn sér, en ekki síður ljúfur og góður vinur, sem á var treystandi þegar eitthvað bjátaði á. Það er ávallt mikil eftirsjá að mönnum sem bera slíka kosti eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Í þeirri sorgartíð sem nú gengur yfir sendum við aðstandendum Sigurðar Helga, vinum og öðru samferðafólki hugheilar samúðarkveðjur. Minninguna um hann geymum við sem eftir lifum í hjarta okkar, með þakklæti fyrir liðnar stundir.
F.h. Húseigendafélagsins,
Sigurður Orri Hafþórsson framkvæmdastjóri.
Við Sigurður Helgi kynntumst snemma árs 1989 þegar ég sem formaður stórs húsfélags í Kópavogi leitaði til Húseigendafélagsins vegna umfangsmikilla framkvæmda á vegum húsfélagsins. Mér mættu góðar viðtökur og úrvalsþjónusta og voru veittar leiðbeiningar sem einkenndust bæði af fagmennsku og einfaldleika svo að allir gátu skilið.
Í framhaldi af góðri viðkynningu við Sigurð Helga bað hann mig að bjóða mig fram til setu í stjórn Húseigendafélagsins og var ég kosinn í aðalstjórn þess á árinu 1990. Sat ég í stjórn félagsins samfellt til vors þessa árs. Frá hausti 1991 er ég og fjölskylda mín flutti til Vestfjarða leit ég á mig sem fulltrúa landsbyggðarinnar í stjórn félagsins og talaði fyrir bættri þjónustu við fasteignaeigendur utan höfuðborgarsvæðisins. Sigurður Helgi studdi mig ávallt með ráðum og dáð og aðstoðaði á allan hátt við undirbúning og framkvæmd funda fyrir félagsmenn utan höfuðborgarsvæðisins. Annað áhugamál mitt voru fjármál og rekstur félagsins sem og skattar og álögð gjöld á fasteignir s.s. fasteignagjöld og tryggingaiðgjöld. Þar veitti Sigurður mér sinn ýtrasta stuðning og tókum við málefnin fyrir á mörgum fundum, á ráðstefnum og í vinnuhópum. Má þar t.d. nefna starfshóp Sambands íslenskra sveitarfélaga, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Félags eldri borgara, Félags atvinnurekenda og Húseigendafélagsins um endurskoðun á grunni álagningar á fasteignir. Hópurinn skilaði skýrslu vorið 2023 um málið til stjórna framantalinna félagasamtaka sem og ráðuneytis málaflokksins.
Enn á ný átti Sigurður Helgi eftir að reynast mér vel þegar ég flutti til Reykjavíkur frá Patreksfirði í lok árs 2019 að hann bauð mér starf á skrifstofu félagsins við Síðumúla 29 sem skrifstofustjóri í hálfu starfi og með fjármál sem aðaláhersluþátt starfsins. Það hentaði mér ákaflega vel og störfuðum við Sigurður náið saman frá þeim tíma þar til við létum báðir af störfum hjá félaginu, ég í lok janúar á þessu ári og hann á aðalfundi félagsins í maí sl.
Utan vinnunnar og starfsins í stjórn félagsins kynntist ég Sigurði Helga enn betur þegar við fórum árið 2022 í veiðitúr á sjó á opnum báti hans frá Hólmavík, drógum fjölmarga þorska úr djúpi hafsins, flökuðum aflann og ýmist gáfum eða tókum með okkur heim. Gist var í sumarhúsi Sigurðar sem stendur á fallegum stað á nesi rétt áður en komið er til Hólmavíkur. Töluðum við margoft um að endurtaka leikinn og vorum einmitt að skipuleggja næsta veiðitúr sem aldrei verður við skyndilegt fráfall míns ágæta samstarfsmanns og vinar.
Megi hann hvíla í friði.
Ég votta fjölskyldu Sigurðar Helga og samstarfsfólki hans mína dýpstu samúð.
Þórir Sveinsson, fv. stjórnarmaður og starfsmaður Húseigendafélagsins.
Við Sigurður störfuðum saman í um 10 ár hjá Húseigendafélaginu og var hann minn mentor. Frá honum fékk ég fullt traust frá fyrsta degi. Sigurður sparaði aldrei stóru orðin og hvatti mig ávallt til að fylgja minni sannfæringu í erfiðum málum. Leiðbeiningar hans fólust í því að veita mér sjálfstraust til að leysa úr málunum og verð ég honum ævinlega þakklát fyrir.
Það var mjög dýrmætt að fá leiðbeiningar frá Sigurði þegar ég fetaði mín fyrstu skref í viðtölum við fjölmiðla enda var hann þaulvanur á því sviði. Þá fullvissaði hann mig um að það kynni þetta enginn betur en ég og ef ég myndi gleyma einhverju þá vissi það enginn nema ég. Hann var alltaf svo léttur og rólegur.
Hann tók lögfræðina ekki of alvarlega og reyndi frekar að snúa henni upp í grín og kom allri sinni þekkingu einkar vel frá sér á svo skemmtilegan hátt. Hann kenndi mér líka að það er allt í lagi að vera ekki með svörin alltaf á reiðum höndum, sem er dýrmætt veganesti út í lífið.
Þó að lögfræðin væri vissulega það sem tengdi okkur saman þá var hún samt það sem við ræddum hvað minnst, eins einkennilega og það kann að hljóma. Sigurður var einstaklega glæsilegur maður og hafði hann mikinn áhuga á tísku. Þá var hann duglegur að nýta sér verslanir á netinu og því ávallt með puttann á púlsinum hvað varðar nýjustu strauma tískunnar. Hann átti stórt safn af úrum og á morgnana passaði hann alltaf að velja sér úr sem passaði vel við föt dagsins. Engar tilviljanir þar. Sigurður hafði líka mikinn áhuga á bílum og átti glæsilega jeppa sem hann bauð mér í bíltúr á. Þar var sama sagan; bílarnir voru með flottustu aukahlutunum sem voru allir í stíl.
„Hann hugsar um þig eins og sína eigin dóttur,“ sagði pabbi minn við mig eftir spjall okkar á milli um samband mitt og Sigurðar. Mér finnst þessi setning lýsa svo vel hvaða mann hann Sigurður hafði að geyma.
Kæri Sigurður, ég kveð þig með söknuði. Þakklæti er mér efst í huga – mikið var ég heppin að fá að starfa fyrir þig í áratug. Ég veit að þú munt fylgja okkur hjá Húseigendafélaginu og minning þín lifir í hjörtum okkar.
Tinna Lyngberg
Andrésdóttir.