Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Undirbúningur stendur nú yfir fyrir tökur á kvikmyndinni Reykjavík: A Cold War Saga sem fjallar um leiðtogafundinn í Höfða árið 1986. Leitað er að lúxusbílum frá þessum tíma og fjölmargir íslenskir leikarar hafa farið í prufur í von um að fá hlutverk í myndinni.
Greint var frá því í síðasta mánuði að þrír þekktir leikarar hefðu verið ráðnir í helstu hlutverk. Jeff Daniels mun leika Ronald Reagan Bandaríkjaforseta, Jared Harris mun leika Mikhaíl Gorbatsjov leiðtoga Sovétríkjanna og óskarsverðlaunahafinn J.K. Simmons mun fara með hlutverk George Shultz utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins munu tökur fara fram frá miðjum október og fram í miðjan nóvember. Þær munu eðli málsins samkvæmt að mestu fara fram í Höfða. Búast má við miklu umstangi en um eitt hundrað manns munu starfa við framleiðsluna sem kvikmyndafyrirtækið Pegasus sér um. Þar af verða um 80 Íslendingar.
Höfði er nær óbreyttur
Verið er að leita að réttu leikurunum í ýmis smærri hlutverk. Eitt þeirra er hlutverk Raisu Gorbatsjovu og samkvæmt fréttum að utan var Rene Russo orðuð við hlutverkið á tímabili. Hún mun þó hafa hafnað því. Líklegt má telja að fjölda Íslendinga muni bregða fyrir í myndinni, til að mynda í hlutverkum fréttamanna og öðrum bakgrunnshlutverkum. Samkvæmt upplýsingum blaðsins hafa fjölmargir leikarar sent inn myndbandsupptökur af sér til framleiðendanna og bíða nú svara um hvort þeir hreppi hlutverk.
Framleiðendur hafa undanfarið leitað að bílum frá þessum tíma. Leitað er að svörtum lúxusbílum, svo sem Cadillac og Benz. Einhver höfuðverkur verður þó eflaust að finna bíl í líkingu við sovésku glæsikerruna sem Gorbatsjov ferðaðist um á en sú var í eigu sovéska sendiráðsins á þeim tíma.
Ekki þarf mikla vinnu við að koma Höfða í þann búning að húsið líti út eins og árið 1986. Húsgögn og skrautmunir eru nokkurn veginn eins í dag og sömu eða sams konar gardínur eru fyrir gluggum. Þá eru listaverkin sem héngu á veggjum í eigu Listasafns Reykjavíkur.
Örlagafundur
Leiðtogafundur þeirra Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og Mikhaíls Gorbatsjovs leiðtoga Sovétríkjanna fór fram 11. og 12. október 1986.
Lítill fyrirvari var á fundinum en umstangið var gríðarlegt. Um 400 manns voru í fylgdarliði leiðtoganna og um eitt þúsund blaðamenn komu hingað af þessu tilefni.
Talið er að fundurinn hafi átt mikinn þátt í þróun afvopnunarmála milli stórveldanna.