Vettvangurinn Stúlkan fannst við Krýsuvíkurveg á milli Vallahverfis í Hafnarfirði og Vigdísarvallavegar.
Vettvangurinn Stúlkan fannst við Krýsuvíkurveg á milli Vallahverfis í Hafnarfirði og Vigdísarvallavegar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kris@mbl.is

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Rannsókn lögreglu á andláti 10 ára gamallar stúlku er í fullum gangi tæpri viku eftir að hún fannst látin við Krýsuvíkurveg. Einn er í gæsluvarðhaldi vegna málsins og er það faðir stúlkunnar.

Fram hefur komið hjá lögreglunni að grunur leikur á að stúlkunni hafi verið ráðinn bani en Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar á höfuðborgarsvæðinu, tjáði mbl.is fyrir helgi að rannsókn málsins skýrðist betur með hverjum deginum sem liði. Hér verður farið yfir atburðarás vikunnar í megindráttum.

Faðirinn er með stöðu sakbornings í málinu en hann var handtekinn á vettvangi þar sem lík stúlkunnar fannst. Hafði hann hringt í lögregluna og tilkynnt um andlátið. Var hinn grunaði yfirheyrður á sunnudagskvöldið og aftur á miðvikudaginn. Lögreglan hefur ekki tjáð sig um málflutning hins grunaða enda tíðkast það ekki á tímapunkti sem þessum í rannsókn sakamála.

„Upp úr klukkan sex í gærkvöldi [á sunnudaginn] fengum við tilkynningu frá manni sem hringdi til okkar og sagðist hafa banað dóttur sinni. Það var dálítið óljóst […] hvar hann væri nákvæmlega þannig að það tók dálítinn tíma að fá hann til að segja það almennilega og staðsetja það,“ sagði Grímur þegar lögreglan tilkynnti um málið á mánudaginn og bætti við að þegar þær upplýsingar hefðu fengist hefði maðurinn fundist fljótlega og verið handtekinn af sérsveit ríkislögreglustjóra. Var það í hrauninu gegnt Vatnsskarðsnámu við Krýsuvíkurveg.

Myndefni hefur borist

Lögreglan leitar leiða til að fá skýrari mynd af atburðarásinni í aðdraganda voðaverksins og á fimmtudaginn óskaði hún eftir því að vegfarendur síðasta sunnudag myndu kanna hvort kveikt hefði verið á myndavélum í bifreiðum þeirra. Var því beint til vegfarenda sem óku um Krýsuvíkurveg, á milli Vallahverfis í Hafnarfirði og Vigdísarvallavegar, á milli klukkan 13 og 18 hinn 15. september.

„Mörg ökutæki eru búin myndavélum og því viðbúið að myndefni frá umræddum vegarkafla á áðurnefndum tíma sé að finna í fórum einhverra. Hinir sömu eru vinsamlegast beðnir um að senda upplýsingar um slíkt á netfangið abending@lrh.is og gefa þar upp bæði nafn sitt og símanúmer. Í framhaldinu verður haft samband við viðkomandi,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Í gær hafði lögreglu borist myndefni en Grímur gat ekki sagt til um að hversu miklu gagni það kæmi þar sem efnið hefði ekki verið yfirfarið. Ómögulegt sé að segja til um hversu langan tíma taki að fara yfir myndefnið auk þess sem meira efni kunni að skila sér.

Metinn sakhæfur?

Maðurinn sem er í haldi er 45 ára gamall og hefur áður komið við sögu lögreglunnar. Fyrir nær tveimur áratugum var hann dæmdur í tæplega fjögurra ára fangelsi fyrir innflutning á umtalsverðu magni harðra fíkniefna. Rúmum áratug síðar var maðurinn aftur dæmdur fyrir fíkniefnalagabrot, þá fyrir að hafa haft í vörslu sinni nokkurt magn af kannabisplöntum og marijúana.

Maðurinn er ekki talinn hafa verið undir áhrifum en sýni úr honum hafa verið send til rannsóknar til að ganga úr skugga um það og niðurstöður hafa ekki borist. RÚV segir bráðabirgðageðmat sýna að maðurinn sé sakhæfur en lögreglan hefur ekki viljað staðfesta það.

Hátt í 50 komu að málinu

Mál sem þetta kallar á mikinn mannafla. Samkvæmt upplýsingum frá Grími koma mjög margir starfsmenn að málum og úr ýmsum áttum ef þannig má að orði komast. Frá fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjórans, sérsveit ríkislögreglustjóra, tæknideild, rannsóknardeild auk aðkomu ýmissa yfirmanna. Á fyrstu stigum geta þannig auðveldlega verið nokkrir tugir manna sem hafa beina og óbeina aðkomu að útkallinu. Að rannsókninni sjálfri koma einnig sérfræðingar í öflun stafrænna gagna og vinnslu þeirra.

„Yfirleitt er það svo að við náum utan um rannsóknir sem þessar á fyrstu klukkustundum eða dögum eftir útkall og við það fækkar þeim sem að koma. Ég slæ á að í upphafi geti fjöldinn sem að kemur verið allt að 40-50 manns og eftir að við náum utan um málið eru þetta kannski 15-20 manns sem koma að rannsókninni og þá með beinum hætti,“ segir Grímur.

Erfiðara þegar börn eiga í hlut

Landsmenn eru skiljanlega slegnir óhug vegna málsins. Lögreglumönnum og öðrum viðbragðsaðilum sem þurfa að fara á vettvang er boðin aðstoð til að vinna úr slíkri reynslu.

„Fyrir lögreglumenn er aðkoma á vettvangi þar sem börn eiga í hlut ávallt erfið og í samræmi við þá erfiðleika sem almenningur upplifir í málum sem þessum. Sama á við um aðra þá sem aðkomu hafa, s.s. sjúkraflutningafólk og heilbrigðisstarfsfólk. Þjálfun lögreglumanna tryggir að þeim er ætlað að takast á við krefjandi aðstæður og leysa úr því sem fyrir þeim liggur af öryggi og fagmennsku. Þeim sem að þessum málum koma er boðin handleiðsla sérfræðinga í kjölfar útkalls og rannsóknar sem þeim er í sjálfsvald sett hvort þeir þiggja, mörg hafa sínar eigin aðferðir til að takast á við það sem þau upplifa í starfinu. Þá hefur lögreglan þjálfað fólk í svokölluðum félagastuðningi sem mörgum nýtist vel,“ segir Grímur.

Í hnotskurn

10 ára gömul stúlka, Kolfinna Eldey Sigurðardóttir, fannst látin skammt frá Krýsuvíkurvegi síðasta sunnudagskvöld.

Karlmaður á fimmtudagsaldri hringdi í lögregluna og tilkynnti um andlátið. Er hann faðir stúlkunnar og var í framhaldinu handtekinn af sérsveitinni á vettvangi.

Rannsókn málsins miðar ágætlega að sögn lögreglunnar. Hátt í 20 hafa komið að rannsókninni sjálfri.

Hátt í 50 manns komu að útkallinu og málinu sjálfu.

Höf.: Kristján Jónsson