Ertu að fara að halda tónleika?
Já, ég ákvað að halda tónleika í tilefni af því að ég varð fimmtug í lok ágúst og í stað þess að halda veislu ákvað ég bara að láta fólk borga fyrir að hitta mig og hlusta á mig syngja í leiðinni. Þetta segi ég auðvitað í gríni og alvöru í bland.
Hvaða lög ætlarðu að syngja?
Ég ætla að syngja lög sem mér finnst gaman að syngja og sem ég held að fólki finnist gaman að hlusta á. Til dæmis verða þarna lög með ABBA, Bruno Mars, Cher, Adele og Eurovision-lög. Lögin verða úr ýmsum áttum þannig að þetta er bland í poka. Þetta verður notaleg kvöldstund og fólk getur mætt fyrr og fengið sér smá gott í gogginn og notið svo tónlistarinnar yfir kertaljósi.
Áttu þér uppáhaldssöngkonu?
Whitney Houston á sérstakan stað í hjarta mínu; það er enginn eins og hún. Svo má nefna Dusty Springfield, Löru Fabian og Arethu Franklin. Ég hef voða fjölbreyttan tónlistarsmekk og hlusta frekar á lög og texta en sérstaka flytjendur.
Hvernig var að verða fimmtug?
Það voru furðulítil átök. Ég þakka fyrir það að fá að eldast því það eru ekki allir svo heppnir.
Hvenær byrjaðir þú að syngja?
Ég hef alltaf sungið mikið en lengi vel bara þegar enginn heyrði til. Ég þorði ekki að fara að syngja almennilega fyrr en ég rambaði inn í kórinn í Fjölbraut í Breiðholti. Þá tók ég til dæmis þátt í sýningunum The Commitments og Litlu hryllingsbúðinni þar sem ég fór með hlutverk Auðar. Ég söng lengi vel í stórum kór og hef haldið nokkra einsöngstónleika en það eru komin þrjú ár síðan síðast svo það er því kominn tími til að endurtaka leikinn! Verandi orðin fimmtug hef ég áttað mig á því að lífið er allt of stutt til að gera ekki það sem mann langar og finnst gaman svo það er um að gera að kveðja óöryggi og stíga líka út úr þægindarammanum af og til. Ég hlakka til að stíga á svið á Rósenberg og lofa kósí kvöldstund!
Guðrún Óla Jónsdóttir, eða Gógó eins og hún er kölluð, verður með tónleika á Rósenberg föstudaginn 27. september kl. 20. Hlynur Þór Agnarsson spilar undir. Miðar eru seldir við innganginn.