Áfangi Bílar frá Súgandafirði aka inn í munna Vestfjarðaganga fyrsta daginn sem þau voru opin fyrir umferð.
Áfangi Bílar frá Súgandafirði aka inn í munna Vestfjarðaganga fyrsta daginn sem þau voru opin fyrir umferð. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1996 „Byggðirnar í nágrenni ganganna verða í raun eitt atvinnusvæði.“ Forystugrein Morgunblaðsins

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

„Tímamót í samgöngumálum Vestfirðinga urðu sl. laugardag, þegar jarðgöngin milli Ísafjarðar, Flateyrar og Suðureyrar voru formlega tekin í notkun að viðstöddum miklum fjölda heimamanna. Óhætt er að fullyrða, að göngin eru bylting í samgöngum fjórðungsins, og munu hafa víðtæk áhrif á öll samskipti íbúanna og á þróun atvinnulífsins.“

Þannig hófst forystugrein Morgunblaðsins þriðjudaginn 17. september 1996 en Vestfjarðagöngin voru formlega tekin í notkun laugardaginn 14. september. Framkvæmdir við göngin hófust árið 1991.

Tilkoma ganganna var nánast bylting. Samgöngur voru tryggðar milli þéttbýlisstaða, vegalengdir styttust umtalsvert og ekki þurfti lengur að aka yfir fjallvegi, sem oft voru ófærir að vetri til vegna snjóa.

Nánast upp á dag 26 árum síðar, eða hinn 13. september sl., kom upp eldur í rútu á veginum um Tungudal í Skutulsfirði. Farþegarnir forðuðu sér út áður en rútan varð alelda. Hún var nýkomin úr Vestfjarðagöngunum þegar eldurinn kom upp.

Vestfirðingum var að vonum mjög brugðið því litlu mátti muna að illa færi. Komið var á fót undirskriftalista þar sem þess er krafist að Ísafjarðarbær og ríkið taki það alvarlega hversu mikil hætta fylgi því að keyra í Vestfjarðagöngunum. Voru göngin m.a. kölluð dauðagildra.

Mikil áhrif á mannlífið

„Jarðgöngin munu vafalaust hafa mikil áhrif á mannlíf allt á norðanverðum Vestfjörðum og þróun menningarlífs og opinberrar þjónustu. Byggðirnar í nágrenni ganganna verða í raun eitt atvinnusvæði. Þann 1. júní sl. voru sex sveitarfélög sameinuð í nágrenni ganganna, Ísafjörður, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri, Mýrahreppur í Dýrafirði og Mosvallahreppur í Önundarfirði. Allt mun þetta stuðla að því að gera búsetu fýsilegri og draga úr eða stöðva brottflutning fólks,“ sagði í fyrrnefndri forystugrein Morgunblaðsins.

En snúum okkur á ný að vígsludeginum.

Á blaðsíðu 14 í þriðjudagsblaðinu er frásögn af athöfninni laugardaginn áður frá fréttariturum blaðsins á Ísafirði. Þrjár myndir prýða frásögnina.

„Samgönguráðherra Halldór Blöndal, opnaði á laugardag jarðgöngin undir Breiðadals- og Botnsheiði formlega fyrir almennri umferð. Fjölmargir gestir voru viðstaddir hátíðlega athöfn sem fór fram við gangamunnann í Tungudal, þeirra á meðal þingmenn Vestfirðinga, fulltrúar Vegagerðarinnar, fulltrúar þeirra verktaka sem stóðu að framkvæmdunum, sveitarstjórnarmenn og aðrir gestir.“

Fjölmargir gestir tóku til máls við opnunina, m.a. þeir Halldór Blöndal, Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri, Páll Sigurjónsson, forstjóri Ístaks hf., og Þorsteinn Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, sem m.a. sagði í ávarpi sínu að jarðgöngin væru forsenda þess að byggðin á svæðinu dafnaði og mannlífið blómgaðist.

„Jarðgöngin hafa glætt vonir manna og aukið trú á fegurri og gleðiríkari tilveru. Þau hafa þroskað með okkur samkennd. Samkennd sem er undirstaða þess að hið nýja sveitarfélag, Ísafjarðarbær, eigi eftir að verða saga þessa lands rétt eins og Vestfirðingar hafa tekið þátt í að skrifa söguna fram til þessa,“ sagði Þorsteinn m.a.

Að ræðuhöldum loknum klippti samgönguráðherra á borða sem strengdur hafði verið milli veggja ganganna og blandaður kór úr hinu sameinaða sveitarfélagi flutti nokkur lög. Að því búnu ók samgönguráðherra bifreið sinni út úr göngunum, fyrstur manna eftir formlega opnun þeirra.

Síðar um daginn fór fram móttökuathöfn á vegum Vegagerðarinnar á Hótel Ísafirði og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar bauð íbúum sveitarfélagsins upp á kaffiveitingar í íþróttahúsinu á Torfnesi.

Vatnið reyndist blessun

Heildarkostnaður við Vestfjarðagöngin var um 4,3 milljarðar króna sem svarar til 16% aukningar umfram upphaflega kostnaðaráætlun. Uppreiknað til dagsins í dag, miðað við hækkun byggingarvísitölu, er kostnaðurinn 15,4 milljarðar.

Helsta skýringin á viðbótarkostnaði var vatnsleki sem upp kom í júlí 1993. Þetta reyndist happafengur, því vatnið hefur verið nýtt, bæði sem neysluvatn Ísfirðinga og til orkuframleiðslu.

Tilkomu Vestfjarðaganganna var að vonum fagnað af heimamönnum. Í fréttum Morgunblaðsins má m.a. sjá að í tilefni af opnun Vestfjarðaganga var mikið um að vera þessa helgi á veitingahúsinu Vagninum á Flateyri. Opið var til kl. 3 á föstudagskvöldið og á laugardagskvöldið var hátíðarkvöldverður og dansleikur. Hljómsveitin Fjórir á fæti lék til kl. 3.

Þá var í tilefni af opnun ganganna efnt til sveitakeppni í brids, Jarðgangamótsins, á milli þéttbýlisstaðanna á norðanverðum Vestfjörðum. Alls tóku átta sveitir þátt. Fleiri viðburði mætti nefna.

Mikil aukning umferðar

Heildarlengd Vestfjarðaganga er 9.160 metrar. Þau skipast í þrennt. Leggurinn undir Breiðdal er 4.150 metrar, Botnsdalsleggur 2.907 metrar og Tungudalsleggur 2.103 metrar. Tungudalsleggurinn, sem liggur úr Skutulsfirði, er sá eini sem er tvíbreiður. Aðrir leggir ganganna eru einbreiðir og bílar þurfa að mætast í sérstökum útskotum. Þarna liggur hættan, ef eldur kemur upp í ökutæki í göngunum. Vegagerðin vinnur nú að því að uppfæra viðbragðsáætlun vegna ganganna.

Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar að umferð um göngin hefði vaxið hröðum skrefum. Sumarið 1997 fóru 690 bílar um göngin að meðaltali á sólarhring. Sumarið 2023 var þessi tala komin í 1.130.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson