Áform tveggja Afríkuríkja, Namibíu og Simbabve, um að fella hundruð villtra dýra í löndunum hafa sætt harðri gagnrýni náttúruverndarsamtaka.
Miklir þurrkar hafa verið í suðurhluta Afríku og hefur verið lýst yfir neyðarástandi í þessum tveimur löndum og fleiri löndum vegna þeirra. Alþjóða matvælaáætlunin sagði í ágúst að um 1,4 milljónir Namibíumanna, nærri helmingur þjóðarinnar, upplifðu fæðuskort en kornframleiðsla landsins hefur dregist saman um 53% borið saman við síðasta ár og vatn í uppistöðulónum hefur lækkað um 70%.
Stjórnvöld í Namibíu tilkynntu í ágúst að til stæði að fella um 700 villt dýr til að draga úr álagi á vatnsból og beitilönd og kjöti af dýrunum yrði dreift til fólks sem byggi við fæðuskort. Atvinnuveiðimönnum var falið að fella dýrin en alls á að fella 30 flóðhesta, 60 vísunda, 50 impalahirti, 83 fíla, 100 gnýi, 100 antílópur og 300 sebrahesta. Flest dýrin sem fella á eru í þjóðgörðum landsins.
Dýraverndarsamtökin PETA hafa gagnrýnt þessi áform harðlega og á vef samtakanna segir Jason Baker, varaforseti PETA, að þau séu ekki aðeins grimmdarleg heldur gætu þau einnig haft langtímaáhrif á vistkerfi landsins.
Þá sendi hópur afrískra umhverfissinna frá sér sameiginlega yfirlýsingu um að dýradrápin gæfu hættulegt fordæmi fyrir ríkisstjórnir að hagnýta verndaða villta dýrastofna og þjóðgarða undir yfirskini mannúðarþarfa.
Í síðustu viku tilkynntu stjórnvöld í Simbabve síðan að fella ætti 200 fíla til að draga úr ágangi þeirra á þurrkasvæðunum. Er þetta í fyrsta skipti í 35 ár sem skipuleg grisjun fer fram í fílastofni landsins og að sögn ZimParks, stofnunar sem stýrir þjóðgörðum landsins, er hún nauðsynleg vegna þess hve fjölgað hefur í stofninum á síðustu árum.
Tinashe Farawo, talsmaður þjóðgarðastofnunarinnar, sagði við AFP-fréttastofuna að áætlað væri að um 84 þúsund fílar væru í Simbabve og því myndu fyrirhugaðar veiðar lítil áhrif hafa á stofninn. Kjötinu verður dreift til fólks á svæðum þar sem matarskortur er og tennurnar verða settar í geymslur þar sem fyrir eru um 130 tonn af fílabeini, en fílabeinið hefur safnast upp vegna þess að í gildi er alþjóðlegt bann við sölu þess.
Fílaveiðarnar hafa sætt gagnrýni, ekki síst vegna þess að fílar hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn í landinu. Farai Maguwu, framkvæmdastjóri náttúruverndarsamtaka í Simbabve, sagði við AFP-fréttastofuna að ríkisstjórnin yrði að grípa til náttúruvænni og sjálfbærari ráða til að fást við afleiðingar þurrkanna og tryggja að þær aðgerðir hefðu ekki áhrif á ferðaþjónustuna.
„Það er hætta á að ferðamenn snúi frá af siðferðilegum ástæðum. Fílarnir eru verðmætari lifandi en dauðir,“ sagði hann.
Talið er að fílastofninn í Simbabve sé sá næststærsti í heimi á eftir stofninum í Botsvana. Farawo sagði við AFP að vistkerfi landsins bæri ekki svona stóran stofn.
„Þeir brjóta niður tré, þeir eyðileggja allt vegna þess að þeir eru allt of margir,“ sagði hann og bætti við að þurrkarnir yllu því að fílar og önnur villt dýr sæktu inn í mannabyggðir og ræktarlönd í leit að fæðu og vatni og réðust á fólk. Þannig hefðu um 30 manns látið lífið af völdum villidýra á fyrstu þremur mánuðum ársins, flestir eftir að hafa orðið fyrir árásum fíla. Á síðasta ári tók ZimParks við um þrjú þúsund neyðarboðum vegna villtra dýra.
Alþjóðanáttúruverndarsjóðurinn áætlar að um 415 þúsund fílar séu á meginlandi Afríku.