Sjónarhorn
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Það eru ákveðnir hlutir í lífinu sem eiga að vera sjálfsagðir, eins og að sýna börnum blíðu, ástúð og skilning og vernda þau um leið, eins og mögulegt er, fyrir hörku heimsins. Það að sýna barni grimmd er óhugsandi í hugum okkar flestra.
Barn sem er mjög veikt, í hjólastól og auk þess í ókunnu landi á rétt á hjálp og skilningi. Það á að hlúa að því barni.
Hinn ellefu ára palestínski Yazan Tamimi og fjölskylda hans hafa mætt hlýju frá fjölmörgum Íslendingum sem styðja heilshugar einlæga ósk þeirra um að fá að búa hér og skapa sér nýtt líf fjarri stríðsátökum. Svo eru aðrir sem styðja þau ekki.
Það er fjarska einkennilegt að þurfa að hlusta á fólk, jafnvel stjórnmálamenn, halda því fram að rétt sé að senda langveikan dreng úr landi. Þessi kaldranalegi tónn er ekki í lagi. Hann ber með sér að þessir einstaklingar lifi samkvæmt þeirri hugmyndafræði að í þessu lífi verði hver að hugsa um sig. Þegar svo er koma ókunnugir öðrum ekkert við. Þá ríkir engin samkennd og fullkomið áhugaleysi er á því að setja sig í spor annarra. Þetta sama fólk leyfir sér síðan að gefa í skyn eða segir hreinlega berum orðum að foreldrar drengsins hafi hagsmuni hans ekki í huga því þeir vilji frekar búa hér á landi en til dæmis á Spáni. Manni bregður við að heyra fullyrðingu eins og þessa.
Margt er dýrmætt í þessu lífi, en með því dýrmætara er einmitt að láta sig líðan annarra einhverju varða. Vilja meira að segja fórna einhverju til að gera hag annarra betri, jafnvel þeirra sem maður kann lítil deili á. Það er nefnilega til nokkuð sem heitir samábyrgð.
Hópur fólks hefur barist fyrir Yazan Tamimi. Það má vissulega deila um þær baráttuaðferðir sem vinir hans hér á landi hafa beitt en það er ekki hægt að gera þær að aðalatriði málsins. Einhverjir reiddust þegar mótmæli vegna fyrirhugaðrar brottvísunar hans voru haldin inni í Leifsstöð. Vinur pistlahöfundar, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, var í flugstöðinni um það bil að leggja af stað í eina af sínum ótal utanlandsferðum. Mótmælin ollu einhverri smávegis truflun í annars notalegu lífi hans og hann kvartaði undan því. Pistlahöfundur varð var við þennan sama óróa hjá öðrum vinum og kunningjum á hægri væng stjórnmála sem sögðu að mótmælendur hefðu skilyrðislaust átt að halda sig utan flugstöðvar – þar sem fremur fáir hefðu tekið eftir þeim.
Fólkið sem amast við veru Tamimi-fjölskyldunnar hér á landi telur sig vera að beita rökhugsun, en rök þess eru ekki aðlaðandi. Þetta er mál sem snýst um góðvild, gestrisni, skilning og samkennd í garð langveiks barns.
Það var farið skelfilega með veikan og þjáðan dreng. Hann var rifinn upp úr rúmi sínu á spítala, færður á flugvöll og lokaður þar inni í sjö eða átta tíma. Þetta er grimmdarleg meðferð á barni. Það getur heldur ekki talist réttlætanlegt að lögregla brjótist inn á heimili foreldra drengsins, valdi þar skemmdum og meiði föðurinn, þótt það síðastnefnda hafi vonandi verið óviljaverk. Foreldrarnir eru ekki stórglæpamenn og eiga ekki skilið svona meðferð.
Eins og alþjóð veit komu ráðherrar í hópi vinstri grænna fjölskyldunni til aðstoðar með því að setja dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins stólinn fyrir dyrnar og hafa með því líklega tryggt áframhaldandi veru Yazans og fjölskyldu hans hér á landi. Kunnugir segja þingmenn Sjálfstæðisflokks vera ævareiða vegna afskipta vinstri grænna. Enn furðar maður sig á áherslum sjálfstæðismanna. Af hverju finnst þeim svo nauðsynlegt að vísa langveikum dreng úr landi? Flestir myndu örugglega segja að slíkt gerði maður alls ekki.
Biskup landsins, Guðrún Karls Helgudóttir, blandaði sér í málið og stóð staðföst með drengnum, eins og kirkjan á að gera í málum eins og þessum. Innlegg biskups er dýrmætt.
Hin íslenska þjóð getur ekki bjargað öllum heiminum. Það þýðir þó ekki að besti kostur sé að sitja með hendur í skauti. Við gerum það sem við getum og réttum börnum hjálparhönd því þau eiga skilið allt það besta.