Miklar samfélagslegar breytingar eru að eiga sér stað sem meðal annars birtast í þeirri ofbeldisöldu sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum á umliðnum vikum. Þetta eru þingmennirnir Inga Sæland og Jón Gunnarsson sammála um. En þá er það um það bil upp talið sem þau ná saman um, nema ef vera skyldi gagnrýni á Guðrúnu Hafsteinsdóttur fyrir þá ákvörðun að grípa inn í og stöðva brottflutning Yazans Tamimi til Spánar.
Allt kemur þetta fram í mjög líflegu spjalli í Spursmálum þar sem þau Jón og Inga fara yfir fréttir vikunnar.
Inga telur að fyrrnefndar samfélagsbreytingar eigi meðal annars rót í miklum aðflutningi fólks til landsins og bendir í því sambandi á hátt hlutfall erlendra ríkisborgara sem verma fangageymslur landsins. Jón segir hins vegar varhugavert að tengja þessi mál með of afgerandi hætti saman. Hann veltir hins vegar vöngum yfir því hvort sú tilhneiging að ýta kristindómnum og þeim gildum sem hann stendur fyrir út úr hinu opinbera rými, ekki síst skólastarfi, eigi sinn þátt í því að samkennd og náungakærleikur virðist á undanhaldi.
Hótunin augljós
Jón, trúir þú því eitt andartak að Bjarni Benediktsson og Guðrún og Hafsteinsdóttir hafi gripið til þessara ráðstafana um miðja nótt nema vegna þess að yfir þeim vofði hótun um stjórnarslit?
„Ég ætla að nota orðin sem minn ágæti vinur og samstarfsfélagi notaði í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann sagðist ekki nenna að ræða hið augljósa í þessu máli.“
En þá eru þau að segja okkur ósatt.
„Já, auðvitað er svona ákvörðun ekkert tekin í tómarúmi. Það eru allir í pólitíkinni sem átta sig á því. Svo geta menn túlkað það með sínum hætti og hvernig þetta var. En það er alveg ljóst að það var mikill titringur á stjórnarheimilinu, hvort það hefði verið leitt til stjórnarslita verða aðrir að segja til um ef þetta hefði verið látið ganga eftir, sem það hefði átt að gera.“
Jón er í viðtalinu einnig spurður út í það hvort hann hyggist bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum, ákveði Bjarni Benediktsson að söðla um. Jón er afdráttarlaus í svörum þar um. Inga Sæland blandar sér hins vegar í umræðuna og segir engan í stöðu til að taka við af Bjarna í flokknum. Í lok dags verður það þó annarra að dæma þar um en formanns Flokks fólksins.