Kannast einhver við að vera í matvörubúðinni og eyða lunganum af tímanum í að finna starfsmann?

Pistill

Guðrún S. Sæmundsen

gss@mbl.is

Tölum aðeins um þjónustustig fyrirtækja í landinu. Hvað er að frétta? Verð á vörum og þjónustu er hátt sem aldrei fyrr en samt fer þjónustan þverrandi. Ég bara nenni ekki að hanga á netinu og tala við spjallmenni, eða snjallmenni, vegna þjónustu sem ég þarf að sækja. Mig langar að tala við manneskju.

Ég get ekki lengur talað við minn eigin þjónusturáðgjafa í bankanum og enginn gjaldkeri er í útibúinu. Ef hraðbankinn er tómur af þeim gjaldeyri sem mig vantar – hefur gerst oftar en einu sinni – má ég samt ekki taka gjaldeyrinn út hjá bankanum hinum megin við götuna því ég er ekki í viðskiptum við hann. Ég bíð spennt eftir því að hraðbankarnir byrji að tala, líkt og sjálfsafgreiðslukassarnir í matvörubúðunum. Kannski bankarnir noti milljarða vaxtatekjur til að fjárfesta í talandi hraðbönkum og „auki“ þannig þjónustu við viðskiptavini.

Í dag er ekki töluð íslenska heldur enska, hvar sem stigið er niður fæti. Þegar ég bjó í Frakklandi þurfti ég að gjöra svo vel og tala frönsku, annars fengi ég ekki þjónustu. Ég var aðkomumanneskja og mér bar skylda til að sýna lit, a.m.k. með því að reyna.

„Mamma mig langar í þörungasnakk! Þú lofaðir að kaupa það í dag,“ sagði dóttir mín eitt sinn eftir að ég sótti þau systkinin í skólann. „Þörungasnakk“ er einhvers konar grænar sjávarfangsplötur. Ég varð auðvitað við þeirri beiðni, enda hef ég engan sjálfsákvörðunarrétt né sjálfstæða hugsun eftir að ég átti börnin mín. Þess vegna brunuðum við í ónefnda verslun í hverfinu. Dauðþreytt ákvað ég að hendast inn á meðan börnin biðu í bílnum. Þegar inn var komið var búið að færa þörungasnakkið.

Kannast einhver við að vera í matvörubúðinni og eyða lunganum af tímanum í að finna starfsmann? Það er líka happdrætti ef viðkomandi talar íslensku. Það er grundvallaratriði að starfsmenn í verslun og þjónustu tali íslensku, eða a.m.k. kunni einhver skil á henni.

Loks fann ég unga stúlku merkta versluninni. „Hvar er þörungasnakkið?“ spurði ég í öngum mínum. „Sorry, what?“ svaraði hún. Ég opnaði munninn en allt í einu mundi ég ekki hvernig á að segja þörungur á ensku. Svo ég hóf langa lýsingu á því sem ég var að biðja um; einhvers konar snakki eða plötum sem ættu uppruna sinn í sjónum, væru þunnar, flatar og grænar, eilítið saltar... hjartað hamaðist í brjóstinu því ég vissi að börnin biðu mín með óþreyju.

Hún horfði á mig með skelfingarsvip og sagðist vera nýbyrjuð. En jú, hún ætlaði að athuga málið fyrir mig. Lýsingar mínar gengu mann frá manni um búðina. Á endanum kom hún aftur og leiddi mig að snakkinu. Það var búið að flytja það í rekka við grænmetið. Ég prísa mig sæla yfir því að sjálfsafgreiðslukassarnir tali íslensku, þótt þeir tali fullhátt að mínu mati og endurtaki sig allt of oft.