Varmá Þorvaldur Tryggvason skýtur að marki KA-manna.
Varmá Þorvaldur Tryggvason skýtur að marki KA-manna. — Morgunblaðið/Eyþór
Nýliðar Fjölnis kræktu í sín fyrstu stig í úrvalsdeild karla í handknattleik í gærkvöld þegar þeir lögðu HK að velli í Grafarvogi, 28:27. Eftir stóra skelli gegn ÍR og Fram í fyrstu leikjunum var útlitið ekki gott hjá Fjölni á meðan HK kom verulega…

Nýliðar Fjölnis kræktu í sín fyrstu stig í úrvalsdeild karla í handknattleik í gærkvöld þegar þeir lögðu HK að velli í Grafarvogi, 28:27.

Eftir stóra skelli gegn ÍR og Fram í fyrstu leikjunum var útlitið ekki gott hjá Fjölni á meðan HK kom verulega á óvart með því að sigra meistara FH í annarri umferð.

En Fjölnisstrákar voru yfir frá fyrstu mínútu til síðustu, mest sex mörkum, þó litlu hafi munað að HK næði stigi undir lokin með góðum endaspretti.

Gunnar Steinn Jónsson, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður, skoraði 7 mörk fyrir Fjölni, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 5, Björgvin Páll Rúnarsson 5 og Alex Máni Oddnýjarson 4. Sigurður Ingiberg Ólafsson varði 15 skot í markinu.

Leó Snær Pétursson skoraði 8 mörk fyrir HK og Sigurður Jefferson Guarino 6.

Stórsigur Aftureldingar

KA er án stiga á botni deildarinnar eftir stórtap gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ í gærkvöld, 33:22, og miðað við byrjunina á Akureyrarliðið erfiðan vetur fyrir höndum.

Í hálfleik var Afturelding þó aðeins þremur mörkum yfir, 17:14, en stakk af á upphafsmínútum síðari hálfleiks og var komið í 27:17 eftir tíu mínútur. Munurinn var orðinn þrettán mörk skömmu fyrir leikslok.

Ihor Kopyshynskyi skoraði sjö mörk fyrir Aftureldingu og Harri Halldórsson sex en Patrekur Stefánsson skoraði mest fyrir KA, fjögur mörk.