Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason
Stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði sem og vegna kaupa einstaklinga á lögbýli verður afnumið, nái frumvarp þess efnis fram að ganga á Alþingi. Frumvarpið er nú lagt fram í tíunda sinn, með því nýmæli að flutningsmenn vilja fella stimpilgjald niður vegna kaupa á lögbýli

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.iks

Stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði sem og vegna kaupa einstaklinga á lögbýli verður afnumið, nái frumvarp þess efnis fram að ganga á Alþingi. Frumvarpið er nú lagt fram í tíunda sinn, með því nýmæli að flutningsmenn vilja fella stimpilgjald niður vegna kaupa á lögbýli. Flutningsmenn eru sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

„Stimpilgjöld eru að verða úrelt, sérstaklega með aukinni stafrænni þróun og afnám þeirra verður enn áhrifaríkari breyting til batnaðar þegar ungt fólk þarf að stækka við sig íbúðarhúsnæði, á sama tíma og eldra fólk þarf að minnka við sig,“ segir Vilhjálmur Árnason alþingismaður sem er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Núgildandi lög kveða á um að fyrstu kaupendur fá helmingsafslátt af stimpilgjaldi, sem er 0,8% af kaupverði. Verði frumvarpið að lögum mun gjaldið falla alfarið niður vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði og lögbýlum og undanþágan verður ekki bundin við fyrstu kaup, heldur öll fasteignaviðskipti einstaklinga.

„Stimpilgjald er stór biti sem fólk þarf að punga út fyrir í fasteignaviðskiptum. Stimpilgjald var lagt á til bráðabirgða þegar það var lögfest á sínum tíma og skilgreint sem einhvers konar umsýslukostnaður, en umsýslan við þetta er engin lengur. Núna hefur húsnæðisliðurinn hækkað vegna verðbólgu og er ein helsta ógnin við velferð venjulegra fjölskyldna,“ segir Vilhjálmur og bendir á að stimpilgjaldið sé aukakostnaður sem erfitt geti reynst að brúa, einkum ungu fólki.

Hann segir einnig að afnám stimpilgjalds verði líka hagfellt eldra fólki, ekki síst því sem komið er á eftirlaun og vilji minnka við sig íbúðarhúsnæði sem barnafólk þurfi frekar á að halda. Brottfall gjaldsins myndi liðka fyrir slíkum viðskiptum. Það eina sem standi í vegi fyrir málinu sé að stimpilgjaldið sé tekjustofn fyrir ríkissjóð, en Vilhjálmur segir það góða aðgerð að ráðstafa þeim fjármunum til þessa þjóðfélagshóps.

„Þetta eru hóparnir sem við þurfum ekki hvað síst að huga að á húsnæðismarkaði,“ segir hann.

Umsagnir sem borist hafa um málið hafa almennt verið jákvæðar gagnvart efni frumvarpsins og breytingu þess á fyrirkomulagi stimpilgjalda.

Í greinargerð segir að markmið frumvarpsins sé að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis eða hefja landbúnað sem og að auka skilvirkni og flæði á markaði með íbúðarhúsnæði. Mikil þörf sé á að auðvelda fólki eins og mögulegt sé að eignast íbúðarhúsnæði, einkum við aðstæður á borð við þær sem nú ríki á húsnæðismarkaði. Stimpilgjöld séu orðin úrelt skattheimta sem hafi takmörkuð áhrif á ríkissjóð.

Þar kemur og fram að stimpilgjald hækki viðskiptakostnað á fasteignamarkaði, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda. Rannsóknir bendi til þess að stimpilgjald hafi skaðlegri áhrif á velferð en aðrar tegundir skattheimtu. Ætla megi að afnám gjaldsins í fasteignaviðskiptum muni auðvelda verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði sem hafi verið með minnsta móti undanfarin ár.