Voðaverk í Vesturbænum er ný skáldsaga eftir Jónínu Leósdóttur. Aðalpersónan, Edda, er lesendum Jónínu að góðu kunn en hún er kona á eftirlaunaaldri sem glímir við flókin saka- og fjölskyldumál. Þetta er sjötta bókin um Eddu.
Blaðamaður spyr Jónínu fyrst hvernig hugmyndin um Eddu hafi komið til hennar. „Þegar ég hafði skrifað þrettán bækur af ýmsu tagi ákvað ég að skrifa glæpasögu og hafði strax í huga að þetta yrði kannski sería, ef vel gengi. Reynslan hafði þá kennt mér að sögupersónur verða eins konar vinnufélagar mínir og þess vegna varð aðalpersónan að vera dálítið hress týpa. Mig langaði ekki að verja mörgum mánuðum eða árum með einhverjum leiðindadurg,“ segir Jónína og bætir við: „Ég hafði alist upp í fremur léttlyndri og málglaðri fjölskyldu þar sem konur unnu utan heimilis og voru sjálfstæðar. Konur fæddar snemma á síðustu öld, til dæmis föðursystur mínar fæddar 1910 og 1913. Önnur þeirra, Ásta, skellti sér í Sorbonne-háskóla í París um leið og stríðinu lauk, vann svo í banka á veturna og sem leiðsögumaður á sumrin – og þegar hún fór á eftirlaun í bankanum gerðist hún frönskukennari í Öldungadeild MH. Systir hennar, Fjóla, vann sömuleiðis úti alla tíð, meðal annars sem ritari hjá Sölufélagi íslenskra fiskframleiðenda langt fram á áttræðisaldur. Hún var algjör þjarkur, hrikalega skemmtileg og á mikið í Eddu.
Sterkar konur stóðu mér því nærri og höfðu áður laumað sér inn í bækur hjá mér sem aukapersónur. En núna ákvað ég að leyfa einni slíkri að vera aðal og hef ekki séð eftir því í eina mínútu.“
Hún er kona og ellilífeyrisþegi, sem sagt einstaklingur sem samfélagið veitir ekki mikla athygli – valdirðu hana meðal annars sem persónu þess vegna?
„Ég hef reynslu af þessu vandamáli með að falla inn í umhverfið og við vinkonurnar ræðum oft þennan ósýnileika. En Edda tekur sér það pláss sem hún þarf og skilur ekkert í þessu tuði kvenna um að fram hjá þeim sé litið.“
Sker þessi nýja bók sig á einhvern hátt frá fyrri bókum?
„Bækurnar um Eddu eru allar í léttum dúr þrátt fyrir að flokkast sem glæpasögur en ég held að það sé jafnvel enn léttara yfir Voðaverkunum en fyrri bókunum. Nú hafa líka tvö ömmubörn bæst í hópinn og Viktor tengdasonur, sem margir halda upp á, er í snúinni stöðu sem Edda gerir óvart enn flóknari.“
Engin leið að hætta
Hver er helsta áskorunin við að skrifa seríubækur?
„Ég hef skrifað þríleik fyrir ungmenni og þar þurfti ég einfaldlega þrjár bækur til að koma efninu til skila. Ég hafði ekki neina þörf fyrir að halda lengur í þær sögupersónur. En Eddubækurnar eru öðruvísi. Helstu áskoruninni við að skrifa um Eddu er best lýst með því að vitna í Stuðmenn: Það er engin leið að hætta.
Samt hætti ég vissulega eftir fimm bækur og sneri mér að öðrum persónum í þrjú ár. Og ég er aftur hætt núna … í bili.“
Edda á marga aðdáendur – heyrirðu frá þeim?
„Hvort ég geri. Ég er ótrúlega oft spurð af bláókunnugu fólki, langoftast konum, hvort það fari ekki að koma ný Eddubók. Það gleður mig auðvitað að fleiri en ég hafi saknað hennar en um leið finn ég til heilmikillar ábyrgðar. Ég vil ekki valda tryggum lesendum vonbrigðum. Svo nú sit ég með fingur og tær í kross og vona það besta.“
Veistu hversu margar bækurnar um Eddu munu verða?
„Ég varð sjötug á þessu ári, þótt ég sé reyndar enn að bíða eftir þroskanum og viskunni sem ég hélt að myndi fylgja svona virðulegum aldri. Þess vegna er kannski frekja að búast við mörgum árum, hvað þá áratugum, til viðbótar. En föðursystur mínar fyrrnefndu urðu 89 og 95 ára svo það er aldrei að vita. Ef ég fæ tíma og held sæmilegri heilsu gætu Eddubækurnar því orðið fleiri en sex.“
Einhverjir glæpasagnahöfundar hafa orðið leiðir á aðalpersónu sinni og drepið hana í lokabók. Gætirðu hugsað þér að drepa Eddu í lokabók um hana?
„Nei, Kolbrún, nei, ekki segja þetta!“
Vill vinna alla daga
Ertu með einhverjar aðrar bækur í smíðum eða í huganum?
„Já, alltaf. Ég hef náttúrlega ekki prófað að taka pásu nema í stuttum sumarfríum en þá verð ég eirðarlaus og vansæl. Jafnaldrar mínir eru margir svo lukkulegir með að vera hættir að vinna en ég fæ hroll við tilhugsunina. Um leið og handrit er á lokaspretti byrja ég að skipuleggja næstu sögu, enda eru þetta orðnar yfir tuttugu bækur á 36 árum.“
Hvernig eru skriftarvenjur þínar og þarftu að komst í skriftarstuð eða sestu bara og byrjar?
„Ég er mikið fyrir gott skipulag. Ætli ég sé ekki eina manneskjan sem enn saknar verslunar sem var í gömlu Borgarkringlunni og kallaðist Ordning & Reda (Röð og regla)? Undirbúningurinn er þannig lykilatriði þótt ég kortleggi svo sem ekki leiðina frá a til ö. En ég þekki persónurnar vel og veit nákvæmlega hvert ég stefni áður en ég byrja að skrifa. Svo skrifa ég hægt og byrja yfirleitt hvern dag á að lesa yfir texta dagsins á undan, bæði til þess að laga villur og komast í rétta stemningu.
Mín draumastaða er að vinna alla daga, eins lengi og bakið leyfir. Og nú veit ég alveg hvað þú ert að hugsa: Það er trúlega ekki gaman að búa með konu eins og mér.“